Fylgi Samfylkingarinnar hrynur í Reykjavík

Könnun (feb 2007) Samfylkingin mældist í gær með lægsta fylgi sitt á kjörtímabilinu í nýjustu könnun Gallups, þar sem SF og VG voru nær jafnstór. Flokkurinn tapar helmingi þingmanna sinna í Reykjavík í könnuninni, mælist með fjögur þingsæti í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Hefur flokkurinn misst fylgi í öllum kjördæmum frá síðustu könnun, nema í Suðvestur- og Norðausturkjördæmum.

Samfylkingin mælist nú, eins og ég spáði í gær við að sjá tölurnar, með 14 þingsæti, myndi tapa sex þingsætum frá kosningunum 2003. Virðist ekki marktækur munur milli vinstriaflanna og öllum ljóst sem sjá þessa könnun að Samfylkingin er ekki lengur það yfirgnæfandi afl til vinstri og það var t.d. eftir síðustu alþingiskosningar. Staða Samfylkingarinnar og formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er því afgerandi slæm þegar að haldið er inn í síðustu 100 dagana fram til kosninga.

Stærstu tíðindi Gallup-könnunarinnar eru án nokkurs vafa gríðarlegt fylgistap Framsóknarflokks og Samfylkingar annarsvegar og hinsvegar upprisa VG, sem yrði án vafa sigurvegari alþingiskosninganna færi mál á þennan veg. Í alþingiskosningunum 2003 hlutu Framsóknarflokkur og Samfylking þingmeirihluta, 32 þingsæti, og gátu því myndað ríkisstjórn. Bauð Össur Skarphéðinsson, þáv. formaður Samfylkingarinnar, Halldóri Ásgrímssyni, þáv. formanni Framsóknarflokksins og síðar forsætisráðherra, samstarf og forsætið í stjórn flokkanna. Framsókn hafnaði boðinu.

Allt að því frjálst fylgisfall blasir við báðum þessum flokkum núna; þeir hafa aðeins 20 þingsæti samtals, eða jafnmikið og bara Samfylkingin hafði eftir kosningarnar 2003. Fari kosningar á þennan veg verða úrslitin vart túlkuð á annan veg en sem afhroð beggja flokkanna. Báðir virðast þeir nú algjörlega heillum horfnir. Framsókn mælist aðeins með einn þingmann á höfuðborgarsvæðinu, Jónínu Bjartmarz, en hvorki Siv Friðleifsdóttir eða Jón Sigurðsson, næðu á þing. Flokkurinn hefur misst umtalsvert fylgi um allt land. Staða Framsóknarflokksins hefur sjaldan verið verri en nú.

Samfylkingin hefur tvo þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna og myndu því bara ISG, Össur, Ágúst Ólafur og Jóhanna ná inn á þing þar. VG hefur þrjá þingmenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og því mun meira fylgi þar en Samfylkingin. Einnig er VG með tvo þingmenn í Kraganum.

Það er öllum ljóst að það stefnir í spennandi alþingiskosningar. Það verður um nóg að spá og spekúlera næstu 100 dagana - þetta verða lifandi dagar í pælingum hér sem og annarsstaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er erfitt að skilja  hvað kjósendur  eru tryggir íhaldinu.Mikli óráðsía ríkir í flelstum veigamestu þáttum stjórnsýslunnar og efnahagsmálum.Íslensk heimili eru þau skuldsettustu í víðri veröld,matur í verslunum og veitingahúsum sá dýrasti a.m.k.í Evrópu,vextir og verðbólga einnig hæst hér.Verðtryggð húsnæðismál hér þau langóhagstæðustu  í Evrópu.Tugþúsundir Íslendinga búa erlendis,flestir á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.Þeir sem þar hafa ílengst,vilja ekki flytja heim vegna hárra launa þar og tvöfalt lægra vöruverðs.Allt þetta og miklu fleira má telja upp,sem rekja má beint til óstjórnar núverandi ríkisstjórnar.Framsóknarfl.geldur þessa,en íhaldið heldur velli.Andstæðingar Sjálfstæðisfl.hafa lengi velt þessu fyrir sér, hvaða ástæður liggi til grundvallar þessu stöðuga fylgi þeirra.Ekki er það traust góð stjórn - eða hagsýsla, sem þessu veldur,sennilega ræður þar mestu um hið mikla fjármálaveldi,sem fyrirtæki flokksmanna Sjálfstæðisfl.eiga og veita tugþúsundum manna atvinnu.Atvinnuöryggi getur þarna miklu ráðið.

Fylgishrun Samfylkingarinnar til VG virðist að mestu leiti  mega rekja til náttúrverndarmála,en nú hefur Samfylkingin samþykkt mjög ábyrgðarfulla  og skýra stefnu í þessum málaflokki undir heitinu Fagra Ísland.Samfylkingin mun koma sínum aðal stefnumáum vel á framfæri við þjóðina á þeim 100 dögum fram að alþingiskosningum.Það er of snemmt fyrir íhaldið að gleðjast yfir óförum Samfykingarinnar.

Kristján Pétursson, 2.2.2007 kl. 22:33

2 identicon

Það er ekkert erfitt að skilja hvers vegna Samfylkingunni og vinstri flokkunum gengur illa að fóta sig. Málflutningur þeirrra gengur að miklu leiti út á það að allt sé í kaldakolum í efnahagsmálunum samanber innlegg Kristjáns hér að ofan.

En staðreyndin er nú sú að langflestir landsmenn hafa það bara gott fjárhagslega miðað við almenning í EB löndunum. Og verðlag hér á landi er ekki hærra en búast má við ef málið er skoðað í samhengi við laun og kaupmátt ráðstöfunartekna.  

Sigurður Baldursson (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 10:53

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur fyrir góð innlegg. Gaman að lesa. Ég er sammála þér Sigurður í þinni greiningu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.2.2007 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband