Lífleg viðbrögð við hugmyndum um Kjalveg

Norðurvegur Lífleg umræða hefur verið síðustu dagana um hugmyndir Norðurvegs ehf. um að leggja nýjan veg yfir Kjöl í einkaframkvæmd. Er ég eindregið hlynntur þessum hugmyndum og fagna þeim metnaði og krafti sem félagið hefur í þessum efnum. Fór ég yfir skoðanir mínar í pistli hér á vefnum á sunnudag. Voru lífleg skoðanaskipti sem spunnust vegna skrifanna og þar komu mörg athyglisverð og góð innlegg.

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefur alla tíð verið mjög andvígur hálendisvegum og reynt í skrifum sínum að tala þær hugmyndir sem allra mest niður, við mjög litla gleði flestra Norðlendinga. Það eru því nákvæmlega engin tíðindi í mínum huga að heyra af andstöðu hans við þennan vegakost sem vel komu fram í leiðaraskrifum í Morgunblaðinu í gær. Hann gengur reyndar skrefið í andstöðu mun lengra en oft áður. Það virðist lítill vilji vera af hans hálfu að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, altént með þessum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi gerði vegakost á hálendinu að kosningamáli í alþingiskosningunum 2003. Halldór Blöndal, leiðtogi flokksins í kjördæminu og fyrrum samgönguráðherra, hefur verið ötull baráttumaður þessa kosts í áraraðir. Það var heilsteypt og kjarngott hjá honum að leggja flokknum þá línu í sinni síðustu kosningabaráttu á litríkum stjórnmálaferli að feta þessa leið. Menn eru reyndar að horfa nú á annan kost en Halldór kynnti en þeir eru samt áþekkir að því leyti að þeir liggja báðir yfir hálendið. Þetta hefur verið eitt helsta grunnmál Halldórs í stjórnmálum á síðustu árum.

Fyrir síðustu alþingiskosningar leiddum við sjálfstæðismenn í kjördæminu saman fóstbræðurna og félagana Halldór og Styrmi saman á eftirminnilegum fundi hér á Hótel KEA. Umræðuefnið voru hálendisvegir og valkostir í þeim efnum. Þetta var debatt, þeir voru þá sem nú með algjörlega ólíkar skoðanir og tókust á af krafti í mjög málefnalegum en spekingslega inspíreruðum rökræðum. Það var mjög gaman af þessum fundi og hann er mjög eftirminnilegur í minningunni. Styrmir sagði sitt og Halldór svaraði með leiftrandi rökum. Það vissu allir sem sátu fundinn að himinn og haf væri á milli þeirra - óbrúanleg gjá. Skrif Styrmis koma því vart sem leiftrandi þruma í hausinn á okkur fyrir norðan.

Margir hafa ritað margt og mikið um þessar pælingar. Ein þeirra er Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri. Hún fer yfir málið í góðum pistli á vef sínum. Tek ég þar undir hvert orð. Það eru orð sem kristalla mjög vel skoðanir flestra hér í þessum efnum. Ég fer ekki ofan af því að þessi styttingakostur sé mikilvægur og mun tala máli hans með áberandi hætti. Það hef ég áður gert í fjölda greina og ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi tali máli hans með áberandi hætti í væntanlegri kosningabaráttu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband