Notalegt ferðalag á framandi slóðir

Ómar Ragnarsson Í gærkvöldi átti ég góða stund við sjónvarpið. Ég horfði þá á tvo gamla og góða Stikluþætti Ómars Ragnarssonar, en ég hef nýlega eignast allt safn þeirra merku þátta þar sem farið er um fjöll og firnindi landsins okkar. Í þessum þáttum var farið í Fjörður og Flateyjardal. Það er eiginlega skömm frá því að segja að ég hef á hvorugan staðinn farið, þó mjög nálægir séu mér hér á Akureyri.

Mér fannst notalegt að fara í þetta skemmtilega ferðalag og fara um slóðir með þessum hætti. Ég man ekki til þess að hafa séð akkúrat þessa þætti fyrr. Ég hef þó einsett mér að ég ætla mér að fara á báða staðina í sumar. Þeir eru mjög fjarlægir þó nálægir séu. Það þarf mjög góðan fjallabíl til að halda á þessar slóðir en þar ríkir mikil náttúrufegurð, kyrrð og notalegheit. Þetta er ferðalag sem ég hef lengi viljað halda í og nú verður það gert í sumar.

Ég hef reyndar komið í sjálfa Flatey á Skjálfanda. Það var í skemmtilegri ferð okkar sjálfstæðismanna í júlí 2004 með Geir og Ingu Jónu sem heiðursgesti. Það var yndisleg bátsferð sem við áttum á leið út í eyju og mikil skemmtun í eyjunni. Þar á Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, sumarbústað með fjölskyldu sinni, sem bjó í eyjunni fyrir nokkrum áratugum. Þar var slegið upp góðri grillveislu og eyjan skartaði sínu fegursta. Það sem mér kom mest á óvart við Flatey var hversu mörg hús eru þar, en hún fór í eyði sem heilsársbyggð á sjöunda áratugnum en margir sumarbústaðir eru þar. Flatey er paradís í huga ferðamannsins.

Ég hef lengi metið mikils þessa ferðaþætti Ómars, einkum Stiklur. Það er engu líkt að halda í stutt og gott ferðalag með þessum hætti. Þar er miðlað mikilli þekkingu á staðarháttum og náttúrunni. Um daginn sá ég einmitt Stikluþátt Ómars þar sem Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrum menntamálaráðherra, er heimsóttur í Mjóafjörð og hann kynnir áhorfandanum sögu Mjóafjarðar og farið er í Dalatanga. Það er virkilega fínn þáttur og svo gleymist ekki þátturinn þar sem farið er um byggðir Vestfjarða og Gísli á Uppsölum heimsóttur - það var eftirminnilegasta viðtal íslenskrar sjónvarpssögu.

Það er oft sagt að mesta fegurðin sé í sem mestri nálægð við hversdagstilveru manns. Það er svo sannarlega ekki erfitt að samþykkja þá afstöðu þegar litið er á fegurð í Fjörðum og Flateyjardal.... staði sem eru svo fjarri en þó svo nærri manni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Níelsson

Fagurt er í Fjörðum var ort forðum og það er satt.  Þangað hef ég nokkrum sinnum farið með veiðistöng og átt frábærar stundir.  Kyrrð og fegurð er einstök.

Kannski við fáum okkur bara marg um ræddan kaffibolla þar saman nk. sumar :-) 

Gunnar Níelsson, 7.2.2007 kl. 18:12

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir gott innlegg Gunni, sem var gaman að lesa. Já, maður verður að fara að skella sér í Fjörður, ætla að skella mér þangað í júní og njóta kyrrðar og notalegheitar þar. Verður gaman. Við verðum svo sannarlega að fá okkur kaffibolla fyrr en varir og rabba saman, alltaf um nóg að tala. verðum í bandi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2007 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband