Kristinn H. tilkynnir um vistaskipti á morgun

Kristinn H. Gunnarsson Eins og ég sagði frá í morgun hefur Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn og ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag stóð til að tilkynna þessa ákvörðun sem legið hefur fyrir í nokkra daga í dag en svo varð þó ekki. Formleg yfirlýsing frá Kristni H. um pólitísku vistaskiptin mun liggja fyrir með morgni. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um þetta. Það sjá allir með pólitískt nef að ekki er gefin út yfirlýsing nema að svona ákvörðun liggi fyrir.

Með því að Kristinn H. verði þingmaður í nafni Frjálslynda flokksins verður hann þingmaður þriðja flokksins á sextán ára þingmannsferli sínum. Það eru vissulega mjög merk tíðindi. Athyglisverðar umræður fylgdu í kjölfar skrifa minna í morgun. Þar var spurt hvort þetta væri einsdæmi að einn maður sé þingmaður fyrir þrjá stjórnmálaflokka. Það er það ekki. Hannibal Valdimarsson, fyrrum ráðherra, var formaður þriggja stjórnmálaflokka; Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna, og var þingmaður fyrir öll þrjú öflin auðvitað. Þeir Hannibal og Kristinn H. teljast hiklaust báðir þekktir bragðarefir í vestfirskri stjórnmálasögu.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að Kristinn H. leiði lista Frjálslynda flokksins í höfuðborginni eða í Norðvesturkjördæmi. Það ganga sögur um að Guðjón Arnar og Kristinn H. fari í framboð í Reykjavík. Mörgum þætti eflaust eðlilegra að hann leiddi listann í Norðvesturkjördæmi, en það er þó flestum ljóst að vart verði þeir saman á lista. Fari formaðurinn suður í framboð fari Kristinn H. fram fyrir vestan og fer fyrir flokknum þar. Svo verður fróðlegt að sjá hver muni leiða Frjálslynda í Reykjavík suður, kjördæminu sem Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, leiddi í alþingiskosningunum 2003. Þar er laust pláss sem fylgst verður með hver fyllir upp í.

Það yrði fróðlegt ef að Kristinn H. og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, myndu takast á í Reykjavík norður. Ekki yrði það líflaus kosningabarátta. Það er greinilegt að Kristinn H. mun hvernig sem fer takast á við annaðhvort Jón eða Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra. Það verður eflaust ansi öflug barátta og hann telur sig greinilega eiga harma að hefna gegn forystu flokksins sem hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir í níu ár.

Kristinn H. Gunnarsson hefur að margra mati verið stjórnarandstæðingur í fjögur ár. Um það má eflaust deila. Um það verður þó ekki deilt að á morgun verður hann stjórnarandstæðingur í orðsins fyllstu merkingu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Það eina sem við vitum um Kristinn H er að hann er mikill vinstri maður.....sem sveiflast til eftir því hvort hann fær aðalhlutverk eða ekki.  Tek undir þetta með pólitískur bragðarefur  

Vilborg G. Hansen, 7.2.2007 kl. 21:05

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir innleggið Vilborg. Já, það er víst óhætt að kalla hann bragðaref.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.2.2007 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband