Kristinn H. gengur til liðs við frjálslynda

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, mun í dag formlega tilkynna að hann gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn og segi þar með skilið við Framsóknarflokkinn. Blasir við að samhliða tilfærslunni muni Kristinn leiða lista flokksins í öðru borgarkjördæmanna eða í Norðvesturkjördæmi, færi Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sem verið hefur á þingi fyrir flokkinn vestra frá upphafi, sig í framboð í Reykjavík. Með þessu minnkar meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi, sem hefur á eftir 34 þingsæti, sami fjöldi og studdi stjórnina fyrir inngöngu Gunnars Örlygssonar í Sjálfstæðisflokkinn.

Með úrsögn Kristins H. Gunnarssonar úr Framsóknarflokknum minnkar þingflokkur þeirra eins og gefur að skilja. Eftir þessar breytingar sitja 11 framsóknarmenn á þingi og eru fimm af þessum ellefu ráðherrar (Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er vissulega ekki alþingismaður en hann situr sem ráðherra alla þingfundi). Frá og með þessu sitja fimm þingmenn, fleiri en nokkru sinni áður, í nafni Frjálslynda flokksins á Alþingi. Kristinn H. Gunnarsson hefur setið á Alþingi frá þingkosningunum 1991. Fyrstu sjö árin sat hann á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Hann gekk til liðs við Framsóknarflokkinn árið 1998 og hefur því gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og verið áberandi í starfi hans í níu ár, nú þegar að hann heldur til starfa fyrir Frjálslynda flokkinn.

Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999 en varð í öðru sæti í prófkjöri flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 og skipaði það sæti á lista flokksins. Hann tapaði slag um leiðtogasætið á lista flokksins í nóvember og varð þriðji. Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu.

Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn. Hann var tekinn aftur í sátt í febrúar 2005 og hann tók sæti þá í tveim nefndum, en öllum varð ljóst að þær sættir voru aðeins til málamynda í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna í sama mánuði. Það hefur lengi verið ljóst að leiðir Kristins H. og Framsóknarflokksins hafa skilið og þessi lokapunktur nú engin stórtíðindi í raun.

Kristinn H. hefur þó jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson , sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987. Því fannst alltaf sem að Ólafur Ragnar væri boðflenna í Alþýðubandalaginu. Hann væri ekki sannur kommi.

Það hefur verið ljóst um nokkurra vikna skeið að Kristinn H. horfði nú til Frjálslynda flokksins í von um áframhaldandi þingmennsku, nú þegar að útséð var orðið um meiri frama innan Framsóknarflokksins. Það verður fróðlegt að fylgjast með honum tala fyrir innflytjendastefnu flokks og formanns í vor, það er ekki hægt að segja annað.

mbl.is Kristinn til frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð umfjöllun og þörf upprifjun.

Róbert Trausti (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 11:02

2 identicon

Góð umfjöllun en ein leiðrétting.  Þingmenn framsókanarflokksins eru 11 og þar af 5 ráðherrar og 6 óbreyttir.  6. ráðherrann Jón Sigurðsson er ekki þingmaður.

Þóroddur (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 11:28

3 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Þetta er þá þriðji flokkurinn sem Kristinn býður sig fram fyrir, fyrst Alþýðubandalag, þá Framsókn og nú Frjálslyndir.

Er þetta Íslandsmet?  Hefur einhver boðið sig fram fyrir þrjá flokka áður?  Ef svo er þá endilega setjið upplýsingar um það hér í athugasemdirnar.

Sigfús Þ. Sigmundsson, 7.2.2007 kl. 11:53

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Róbert Trausti: Já, það er mikilvægt að rifja vel upp þessa sögu. Fínt að fara aðeins yfir hana nú.

Þóroddur: Vissulega er Jón Sigurðsson ekki þingmaður, en hann situr alla þingfundi, hann hefur ekki atkvæðisrétt en situr alla þingflokksfundi sem formaður flokksins og er að segja má þrettándi þingmaðurinn í flokknum fram til úrsagnar Kristins H. úr flokknum. En það er vissulega rétt að Jón er ekki þingmaður. Staða hans er mjög merkileg, enda er hann fyrsti utanþingsráðherrann frá því að Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.2.2007 kl. 11:53

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var formaður þriggja stjórnmálaflokka; Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og sat auðvitað á þingi fyrir öll öflin. Þeir eru merkilegir þessir höfðingjar að vestan.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.2.2007 kl. 11:56

6 Smámynd: Fannar frá Rifi

Af einhverjum ástæðum koma þessi tíðindi ekkert á óvart. Að mínu mati er þetta mjög eðlilegt að fílupúkarnir hópi sig saman. ég meina frjálslyndir voru i upphafi stofnaðir af óánægðum sjálfstæðismönnum. Kristin fékk 860 atkvæði í póstkosningum framsóknar. ætli þessi atkvæði skili sér til frjálslynda.

Skemmtilegt að spá í hinum pólitíska skala Kristins. Situr á þingi fyrir Alþýðubandalagið sem hægt er að segja að sé mesti vinstri flokkurinn og fer yfir til flokks sem heldur uppi rasískum hugmyndum. ég er ekki svo sannfærður að hann eigi eftir að vinna vel með Frjálslyndum og á eftir að mála sig út í horn aftur.

Fannar frá Rifi, 7.2.2007 kl. 12:02

7 identicon

Ég verð bara að segja það að Kristinn er algjörlega búinn að drulla uppá bak og komin í þversögn við allt það sem hann hefur verið að tala fyrir um, hann hefur verið að tala um að snúa þyrfti Framsókn í gömlu framsóknargrasrótina og halda til og styrkja gömlu hefðir flokksins til sjávar og sveita og það getur enginn sagt mér það að með inngöngu hans í "nýnasista" flokk íslands FF sé hann á leiðinni í "gömlu hefðir" Framsóknarflokksins, það sem hann er að sanna núna er að hann er valdsjúkur og hugsjónalaus því hann er aðeins að ganga til liðs við FF þar sem hann á möguleika á þing, en það átti hann ekki í Framsókn eftir að honum hafði verið hafnað þar.

Kiddi Sleggja, nei held það sé nú frekar segja að það væri Kiddi Klaufhamar.

Valdabrölt (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 13:33

8 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Við skulum vona að honum svelgist ekki á Jóni Magnússyni

Sigríður Jósefsdóttir, 7.2.2007 kl. 16:18

9 Smámynd: Katrín

Þú hlýtur að hafa tengsl innanbúðar! 

Þegar þetta er skrifað , að morgni 9.2hefur engin tilkynning borist frá Kristni.  En er ekki rétt að hafa það einnig á hreinu að t.d. Össur Skarphéðinsson er einn þeirra sem skipt hefur um flokka .  Hann var uppphaflega í alþýðubandalaginu, sat þar í miðstjórn og framkvæmdarstjórn, fór síðan í alþýðuflokkinn og þaðan í Samfylkingu.  Reyndar sat hann ekki á þingi fyrir allanna, en miðað við skilgreiningar þínar á hugtakinu flokkaflakkari, finnst mér þú sýna Össuri litla virðingu með því að telja hann ekki til flokkaflakkara

Katrín, 8.2.2007 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband