Framtíðarlandið fer ekki í þingframboð

Frá fundi FramtíðarlandsinsLjóst er að Framtíðarlandið mun ekki bjóða fram undir sínu nafni í alþingiskosningum eftir þrjá mánuði í kjölfar félagsfundar í gærkvöldi þar sem framboðstillaga var felld með 96 atkvæðum gegn 92. Einfaldur meirihluti dugði ekki til að samþykkja framboð og því ljóst af stemmningu fundarins strax í upphafi að tillagan yrði ekki samþykkt.

Þetta eru nokkuð merkileg tíðindi vissulega. Talað hefur verið um þingframboð Framtíðarlandsins síðustu mánuði. Nú þegar að það er úr sögunni mun eflaust magnast upp hvort framboð komi fram meðal hægri grænna sérstaklega, en orðrómur hefur verið uppi um að Ómar Ragnarsson og fleiri einstaklingar hyggi á slíkt framboð. Ómar talaði gegn Framtíðarlandsframboði á fundinum og hefur ítrekað þá skoðun vel á bloggvef sínum.

Það vekur mikla athygli mína að aðeins 189 manns hafi greitt atkvæði á þessum átakafundi, enda eru skv. félagaskrá 2708 í Framtíðarlandinu. Dræm þátttaka á fundinum í kosningu um framboðstillögu gefur ekki beinlínis til kynna að þar fari mikil fjöldafylking. En nú er þetta ljóst og hreinar línur komnar frá Framtíðarlandinu. Það mun hafa vakið mesta athygli að stjórnmálamenn fornir og nýjir úr öðrum stjórnmálaflokkum sem þó prýða hóp Framtíðarlandsins hafi farið í pontu til að leggjast gegn framboði eindregið. Virðast þetta fyrst og fremst vera fulltrúar úr Samfylkingunni og VG; hræddir um að framboð hefði dregið spón úr aski vinstriaflanna.

Það verður fróðlegt hvaða farveg Framtíðarlandsfólk í framboðshugleiðingum mun velja sér nú þegar að hugmyndir um sérstakt framboð í nafni félagsskaparins eru feigar orðnar. Væntanlega mun þetta fólk sem hyggur á framboð horfa til þess með einum eða öðrum hætti í nafni einhvers félagsskapar, enda eru listar hinna rótgrónu stjórnmálaflokka meira og minna tilbúnir, ef undan er skilinn Frjálslyndi flokkurinn sem safnar að sér þessa dagana þingmönnum með brostnar framboðsvæntingar úr öðrum flokkum.

Það eru rúmir 90 dagar til kosninga og greinilega mikil gerjun í stjórnmálunum. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða framboð koma önnur til sögunnar en þeirra fimm flokka sem hafa nú þegar fulltrúa á Alþingi Íslendinga.


mbl.is Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Varðandi þátttökuna á fundinum, þá var hann boðaður með aðeins tveggja daga fyrirvara og þar að auki haldinn í miðri viku, þannig að t.d. fólk utan af landi gat alls ekki sótt hann.

Svala Jónsdóttir, 8.2.2007 kl. 13:50

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Árni: Góð skrif, já það yrði svo sannarlega líflegt færi Frjálshyggjufélagið fram. Veit ekki hvað þeir gera, en efast þó um að þeir ætli í framboð. Það verður spennandi að sjá hvað Framtíðarlandsfólk sem vildi fara í framboð í vor gerir nú.

Svala: Takk fyrir þetta innlegg um fundinn og hvernig þetta var allt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2007 kl. 17:48

3 identicon

Stebbi minn...þú ert jafn glámskyggn og borgarfulltrúi Frammara í Reykjavík. Auðvitað hefði verið fínt  fyrir vinstri menn að þarna hefði komið fram framboð hægra megin við miðju. Það tekur aðallega frá hægri mönnum að sjálfsögðu. þeir sem þarna voru á móti vildu að sjálfsögðu halda þessum samtökum sem grasrótarsamtökum um umhverfismál... hægri græni flokkurinn þinn er á leiðinni undir leisögn valinkunnra fyrrverandi Sjálfstæðismanna og gettu hvaðan sá stjórnmálaflokkur tekur fylgið.

Jón Ingi (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 21:35

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það kemur framboð hægri grænna. Ómar Ragnarsson hefur sagt það með afgerandi hætti. Þetta Framtíðarlandsframboð hefði verið framboð í nafni félagsskapar sem er þverpólitískur eins og þú eflaust veist. Þannig að ég veit ekki betur en þetta fólk ætli í framboð og það kemur vel fram í þessum skrifum að þau muni væntanlega fara fram með öðrum hætti ella. Svo að ég skil ekki misskilninginn eða glámskyggnina sem þú gefur í skyn að sé í þessum skrifum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband