Kristinn H. gengur í Frjálslynda flokkinn

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefur nú formlega sagt sig úr Framsóknarflokknum og er orðinn þingmaður Frjálslynda flokksins. Eftir níu stormasöm ár í Framsóknarflokknum er vist Kristins H. þar lokið og hann haldinn til verka fyrir þriðja stjórnmálaaflið á sextán ára þingmannsferli sínum. Eins og ég sagði frá hér í gær var þessi ákvörðun yfirvofandi og hún kemur engum að óvörum. Öllum varð ljóst eftir úrslit prófkjörs Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í nóvember að Kristinn H. yfirgæfi Framsóknarflokkinn.

Eftir fjögurra ára óopinbera stjórnarandstöðu og andstöðu við forystu Framsóknarflokksins hefur Kristinn H. formlega gerst alþingismaður í nafni stjórnarandstöðunnar. Með þessari tilfærslu minnkar enda þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar. Frá og með deginum í dag styðja 34 alþingismenn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sami fjöldi og var á bakvið stjórnina frá alþingiskosningunum 2003 til inngöngu Gunnars Örlygssonar í þingflokk Sjálfstæðisflokksins í maí 2005. Nú sitja ellefu þingmenn í þingflokki Framsóknarflokksins, sem hefur sjaldan verið minni.

Þegar að Gunnar Örn Örlygsson gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi forysta Frjálslynda flokksins hann harkalega fyrir að færa þingsæti frá flokknum sem hann var kjörinn fyrir til annars flokks. Það væri siðleysi. Frjálslyndir spöruðu ekki stóru orðin. Nú á örfáum vikum hefur Frjálslyndi flokkurinn hinsvegar sjálfur tekið við tveim alþingismönnum með umboð úr öðrum flokkum. Gunnar Örn og Kristinn H. eiga það sameiginlegt að hafa hlotið kjör í nafni flokks í alþingiskosningum. Valdimar Leó Friðriksson var varavaraþingmaður eftir kosningarnar 2003 en tók þar sæti eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar.

Kristinn H. hefur að mínu mati verið stjórnarandstöðuþingmaður í nærri fjögur ár. Þessi tilfærsla markar lok leiðindaástands fyrir Framsóknarflokkinn en ekki upphaf enda hefur lengi verið ljóst að leiðir þessara afla náðu ekki saman. Það hefur verið ljóst síðan að meirihluti þingflokksins svipti Kristinn embætti þingflokksformanns Framsóknarflokksins vorið 2003 og formennsku í Byggðastofnun fyrir fimm árum. En þetta eru vissulega tímamót. Það staðfestist hérmeð að Frjálslyndir meintu ekkert með gagnrýni sinni á tilfærslu Gunnars árið 2005.

Það verður fróðlegt að sjá hversu vel Kristinn H. rekst í Frjálslynda flokknum, en menn minnast þess enn hversu mjög Valgerður Sverrisdóttir og Halldór Ásgrímsson brostu fallega yfir tilfærslu Kristins H. í Framsóknarflokkinn árið 1998. Þar voru bros og gleðisvipir allsráðandi á öllum myndum. Undir lokin var þó lítið orðið um gleði og bros á fólki þar innanborðs - kergja og óeining urðu merkingartáknmyndir lokastunda Kristins H. í Framsóknarflokknum.

Spenna verður yfir því hvort að Kristinn H. muni sem nýr kjördæmaleiðtogi Frjálslynda flokksins mæta Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra og formanni Framsóknarflokksins (sem varð eftirmaður Kristins H. sem formaður stjórnar Byggðastofnunar) eða Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaráðherra, í alþingiskosningum eftir þrjá mánuði. Það verður nóg um hasar og spennu í þeim átökum.


mbl.is Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kanski er ein aðalspuringin í þessi, þingsæti sem einstaklingur fær á hann að vera hans eign eða flokksins sem hann fer fram fyrir ?
Man ekki betur en bæði Guðjón og Magnús töldu að þingsætið sem Gunnar fékk var út á FF.
Kristinn hefur að mínu mati aldrei verið stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og þetta er því eitthvað sem Framsóknarmenn hljóta að fagna.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 18:49

2 identicon

Skemmtileg lesning og pælingar.  Þessi tilfærsla mun án efa styrkja Framsóknarflokkinn þótt furðulegt megi virðast. 

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 18:52

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir mjög góð innlegg. Er mjög sammála ykkur - þó það sé vont fyrir Framsókn að missa þingsæti hlýtur þetta þó að vera þeim mikill léttir, enda var staðan orðin óviðunandi fyrir báða aðila og öllum ljóst að krossgötur voru orðnar og óbrúanleg gjá milli flokksheildarinnar og Kristins H.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.2.2007 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband