The Queen og Helen Mirren blómstra á Bafta

Helen Mirren í The QueenVar að enda við að horfa á afhendingu bresku Bafta-kvikmyndaverðlaunanna í London. Það kom engum að óvörum að kvikmyndin The Queen og aðalleikkonan Helen Mirren hafi verið í aðalhlutverki þar að þessu sinni. Myndin var valin sú besta þetta árið og Mirren besta leikkonan og þykir nær öruggt að hún muni hljóta óskarsverðlaunin í Los Angeles eftir hálfan mánuð. Myndin hefur hlotið mikið lof og verið í forgrunni breskra mynda síðasta árið.

Í The Queen fer Mirren algjörlega á kostum í túlkun sinni á Elísabetu II Englandsdrottningu. Sögusvið myndarinnar eru hinir örlagaríku dagar fyrir bresku konungsfjölskylduna í september 1997 í kjölfar andláts Díönu, prinsessu af Wales, í bílslysi í París þar til að drottningin varð að víkja af leið sinni og votta prinsessunni hinstu virðingu sína í sögulegu ávarpi til bresku þjóðarinnar frá Buckingham-höll tæpum sólarhring fyrir útför hennar. Þessir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun en náði að snúa atburðarásinni við með að mæta þjóð í sorg.

Það er ljóst að myndin er mikils metin ennfremur utan Bretlands. Hún lýsir atburðum sem mörkuðu ekki aðeins breska sögu og eina eftirminnilegustu þjóðarsorg í seinni tíma sögu heldur var dauði prinsessunnar alheimsviðburður. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þarna er lýst einum sviplegasta atburði tíunda áratugarins í Bretlandi og víðsvegar í hinum vestræna heimi. Sigurganga myndarinnar segir enda sína sögu um hversu mikils hún er metin. The Queen er tilnefnd sem besta kvikmynd ársins 2006 á óskarsverðlaununum og er reyndar varla talin sigurstrangleg þar, en tilnefning hennar umfram mynd á borð við t.d. Dreamgirls segir sína sögu.

Hálfur mánuður er í afhendingu Óskarsverðlaunanna eins og fyrr segir. Bafta er nú orðinn einn helsti megináfanginn í áttina að Óskarnum, sem hafa í áratugi verið fremstu kvikmyndaverðlaunin á heimsvísu. Bafta skipta meira máli eftir að þau voru færð til og umbúnaður þeirra verður sífellt meiri með hverju árinu. Þessi verðlaunaafhending í kvöld marka endanlega sigurgöngu Helen Mirren í áttina að Óskarnum. Í kvöld hlaut Forest Whitaker Bafta-verðlaunin fyrir túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland og þykir orðið nær öruggt að hann muni fá óskarinn. Sama má segja um nýstirnið Jennifer Hudson sem hlaut verðlaunin fyrir Dreamgirls.

Mikla athygli mína vakti að Paul Greengrass hlaut verðskuldað leikstjóraverðlaunin fyrir United 93, þar sem lýst er með ógleymanlegum hætti sögu flugs 93, sem var rænt á leiðinni frá New York til San Fransisco 11. september 2001 og átti að verða skotmark hryðjuverkamanna. Með miklu hugrekki og krafti tókst farþegum vélarinnar að yfirbuga flugræningjana og taka yfir vélina. Það var þó of seint en flugræningjarnir stefndu vélinni í glötun er ljóst var að flugránið var farið út um þúfur og tókst farþegunum ekki að bjarga henni. Vélin fórst kl. 10:02 er hún steyptist niður á tún í Shanksville í Pennsylvaníu, eina vélin sem ekki flaug á skotmark. Eftirminnileg mynd.

Alan Arkin hlaut verðlaunin fyrir leik í aukahlutverki fyrir Little Miss Sunshine, góð leikframmistaða og svo sannarlega tilefni til að heiðra leiksnillinginn Arkin fyrir flotta túlkun á hausti leikferils hans. Auk þess hlaut Little Miss Sunshine verðlaunin fyrir besta frumsamda handritið og The Last King of Scotland fyrir besta handritið byggt á áður útgefnu efni. Það er allavega að styttast í Óskarinn og þetta gefur einhverjar vísbendingar, þó vissulega hafi Bretarnir ekki alltaf verðlaunað í takt við Óskarinn að þá er þetta innlegg í spádómana og pælingarnar um hvað gerist í LA eftir hálfan mánuð.

Bendi annars á góða samantekt BBC um Bafta-verðlaunin 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband