Sjálfsmark á Stöð 2

Fréttastofa Stöðvar 2 fór langleiðina með að stimpla sig út sem fagmannleg og traust fréttastofa með miklu klúðri í skipulagningu og umgjörð forsetakappræðna í Hörpu. Lágmark er að kjósendum sé gefið tækifæri til að hlusta á alla frambjóðendur tjá sig saman um kosningamálin, sérstaklega í fyrstu kappræðum kosningabaráttunnar, svo hægt sé að bera þá saman, auk þess sem fagmennska einkenni kappræðurnar. Fréttastofa Stöðvar 2 klikkaði algjörlega á þessu.

Andrea Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Hannes Bjarnason gerðu vel og rétt í því að yfirgefa samkunduna strax í upphafi þegar ljóst var að tveir og tveir frambjóðendur ættu að tala saman og enda að lokum á þeim tveimur sem mests fylgis njóta í skoðanakönnunum. Mér finnst skoðanakannanir ekki eiga að ráða því hverjir tjái sig og hvernig í kappræðum. Ræða á við alla þá sem hafa safnað fjölda meðmælenda og eru í kjöri til forsetaembættis.

Til að kóróna allt klúðrið var svo gert hlé á kappræðum og sýnt innslag frá Spaugstofunni. Kannski átti þetta að vera fyndið, en var alveg gríðarlega taktlaust og slappt.

Þarna klikkaði Stöð 2 á mikilvægum grundvallaratriðum í fréttamennsku. Þetta var fréttastofunni til skammar og var eitt risastórt sjálfsmark.

mbl.is Yfirgáfu kappræður í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alveg sammála. Mér finnst skrýtið hve fáir hafa tjáð sig. Í upphafi stóð til að bjóða aðeins Ólafi Ragnari og Þóru og mér fannst það þeim báðum til minnkunar að ætla að taka þátt vitandi það að þau fengu með því betri tækifæri en aðrir til að koma málum sínum á framfæri. Það er svipað og að bjóða aðeins KR og FH til leiks á Íslandsmótinu í fótbolta. Það vita allir að hin liðin eiga litla möguleika. Eins og umræðan hingað til hafi ekki verið nógu skökk.

Þóru snerist hugur á síðustu stundu og þá datt forsvarsmönnum þessa verkefnis hjá Stöð 2 það ,,snjallræði" í hug að raða frambjóðrendum eftir stafrófsröð, þannig að hægt væri að hafa þau Ólaf Ragnar og Þóru síðasta. 

Afsakið, meðan ég æli.

Frosti (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 23:15

2 identicon

Þessi aumkunarverði þáttur lofar ekki góðu um hæfni Stöðvar 2 til að hvetja til málefnalegrar og lýðræðislegrar umræðu um þjóðmál.

Þátturinn bendir líka til þess að þeir sem að gerð hans stóðu hafi mjög takmarkaðan skilning á hvað "kappræður" séu.

Þeir virðast ekki einu sinni færir um að gera "spurninga og svara" þátt þar sem þátttakendum sé gert jafnt undir höfði.  Öðrum spyrjendanna virtist samt gruna að eitthvað skorti á jafnvægi þáttarins þegar hún sagði við samspyrjenda sinn "Hleyptu Hjördísi að"!

Að mínum dómi var þessi þáttur vægast sagt algjört klúður frá upphafi til enda og ég sé ekki hvernig Stöð 2 getur endurreist mannorð sitt, ef eitthvað var.

Agla (IP-tala skráð) 4.6.2012 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband