Romano Prodi segir af sér

Romano ProdiRomano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í kvöld fyrir hönd stjórnar sinnar eftir að hafa tapað mikilvægri atkvæðagreiðslu um stefnumótun í utanríkismálum í efri deild ítalska þingsins. Prodi hefur verið forsætisráðherra í tæpt ár, frá 17. maí 2006, en Ólífubandalagið vann nauman sigur í þingkosningum á Ítalíu í apríl 2006. Hefur bandalagið aðeins haft eins sætis meirihluta í efri deildinni.

Vinstrimenn sögðu eftir kosningarnar að þeir gætu verið í sterkri stjórn allt kjörtímabilið þrátt fyrir þessa stöðu en Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, og samherjar hans sögðu stjórnina varla geta setið í meira en ár. Það hefur nú sannast með þessari þingkosningu. Ólífubandalagið er bandalag alls níu vinstriflokka með mjög ólíka eigin stefnu og það hafa flestir séð allan þennan tíma að það yrði erfitt ef ekki ómögulegt að halda völdum og ná samkomulagi í öllum málum við svona aðstæður.

Það er enda svo að Romano Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherra í nafni flokkanna níu og andlit þeirra. Prodi var forsætisráðherra í nafni samskonar bandalags á árunum 1996-1998 en gafst þá upp og aðrir tóku við. Nú er meirihlutinn mun brothættari en þá og greinilegt að það gengur illa að halda honum saman.

Nú er vinstristjórnin búin að segja af sér. Vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano er forseti Ítalíu. Það verður hans að meta nú stöðuna, ræða við leiðtoga flokkanna og kanna hvað sé rétt að gera. Það er enn ekki ár liðið frá þingkosningum og fróðlegt að sjá hvort Napolitano felur þjóðinni að leysa úr erfiðri pólitískri stöðu með því að óska eftir áliti landsmanna.

Þetta er mjög erfið staða og vandséð hvernig að hún verður leyst öðruvísi með sómasamlegum hætti.


mbl.is Forseti Ítalíu hefur tekið við afsagnarbeiðni Prodis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband