Magnús Þór í Reykjavík - minni hasar í Suðri

MÞH Það er nú ljóst að Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, fer fram í Reykjavík í komandi alþingiskosningum og mun því ekki ætla sér aftur í framboð í Suðurkjördæmi, sem hann er nú þingmaður fyrir. Verður fróðlegt að sjá hvort að hann fer fram í norður- eða suðurhlutanum. Fari hann fram í suðurhlutanum mun hann mæta Margréti Sverrisdóttur, varaborgarfulltrúa og fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, sem leiðir þar væntanlega lista nýs framboðs síns.

Tilfærsla Magnúsar Þórs þýðir um leið að hann mun ekki mæta Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, í Suðurkjördæmi, en Árni er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Rimma Magnúsar Þórs og Árna í hinu fræga brottkastsmáli fyrir nokkrum árum þótti eftirminnileg, en harðar árásir gengu þeirra á milli og málið fór fyrir dóm og lauk að lokum með sigri fjármálaráðherrans skömmu fyrir þingkosningarnar 2003. Nú mun það væntanlega verða Grétars Mars Jónssonar, skipstjóra og fyrrum forseta FFSI, að leiða lista frjálslyndra á þeim slóðum, en hann er nú varaþingmaður Magnúsar Þórs.

Ekki er hægt að segja að ákvörðun Magnúsar Þórs um framboð í Reykjavík komi að óvörum. Þó höfðu einhverjir átt von á að hann færi fram í Kraganum, en það er nú greinilega ætlað Valdimari Leó Friðrikssyni, sem var þingmaður Samfylkingarinnar eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar þar til að sá fyrrnefndi var óháður í nóvember, að leiða listann þar. Hann fetar þar í fótspor Gunnars Örlygssonar, sem náði kjöri sem frjálslyndur í kjördæminu en gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í maí 2005. Eitthvað hefur minna farið fyrir andstöðu frjálslyndra við að Valdimar Leó skipti um þingflokka á kjörtímabilinu en þegar að Gunnar Örlygsson gerði slíkt hið sama.

Það verður fróðlegt að sjá kosningabaráttu Magnúsar Þórs í Reykjavík. Þar heldur hann í höfuðvígi Margrétar Sverrisdóttur, en meginþorri þeirra sem studdu F-listann í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra og skipa forystusveit lista frjálslyndra og óháða hafa nú yfirgefið Frjálslynda flokkinn og gerst óháðir og skipa framvarðarsveit nýs framboðs, eða flokks, Margrétar. Þar þarf Magnús Þór því að byggja sér nýtt bakland. Hann er þó kominn nær heimaslóðum sínum, en hann býr á Akranesi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Magnúsi Þór gengur að byggja sér pólitískt bakland í höfuðborginni. Þeir verða sennilega ágætir saman hann og Jón Magnússon þarna. Mun hann kannski leiða hinn listann?

mbl.is Magnús Þór væntanlega í framboð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband