Prodi áfram við völd í veikburða stjórn á Ítalíu

Giorgio Napolitano og Romano ProdiÞað kemur ekki að óvörum að vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, hafi beðið Romano Prodi um að vera áfram forsætisráðherra Ítalíu. Prodi þarf nú að fara fyrir þingið og óska eftir umboði í vantraustskosningu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, sem líklega þýðir að Prodi geti setið lengur við völd, er öllum ljóst að ríkisstjórn Ólífubandalagsins er mjög veik, en hún stendur og fellur með einu atkvæði. Það breytist ekki með þessu.

Stjórnin var sett í gíslingu af tveimur öldungadeildarþingmönnum kommúnista sem vildu ekki samþykkja utanríkisstefnu hennar óbreytta. Tapið var vandræðalegt og skaðandi fyrir Prodi. Þó að Napolitano sé vinstrimaður hefði hann aldrei getað réttlætt að Prodi fengi umboð til forsætisins áfram hefði hann ekki hlotið traustsyfirlýsingu allra flokkanna níu sem mynda stjórnina í gær. Eftir standa þó vandræðin sem felldu stjórnina. Einn þingmaður getur sett allt í gíslingu og því öllum ljóst að hún verður á bláþræði eftir sem áður.

Þegar að stjórnin tók við völdum í maí 2006 sagði Romano Prodi að það yrði ekki vandamál hversu naumur meirihluti hennar væri. Það leið ekki ár þar til að Prodi varð að segja af sér embætti vegna falls hennar í þinginu. Það er öllum betur ljóst nú hversu tæpt hún í raun stendur. Því neitar enginn nú. Fall í þingkosningu um utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar er í besta falli vandræðalegt en þó umfram allt lamandi vitnisburður stjórnvalda í krísu. Enn eru fjögur ár til þingkosninga og vandséð hvernig að hún geti setið með málamiðlunum níu flokka (Prodi leiðir engan flokkanna) allan þann tíma.

Giorgio Napolitano var því vandi á höndum þar sem hann hugleiddi stöðuna í forsetahöllinni. Þó að Napolitano hafi orðið forseti Ítalíu með stuðningi Ólífubandalagsins í þinginu fyrir tæpu ári gat hann ekki réttlætt stöðuna án þess að eitthvað fylgdi umboði Prodis. Hann biður hann því að fara fyrir þingið og leita umboðs. Með þessu fylgir greinilega að hann fái ekki önnur tækifæri. Þetta virðist vera annað tækifæri til stjórnarforystu með þeirri afgerandi vísbendingu um að stjórninni sé ekki sætt komi sama krísa upp.

Skoðanakannanir sýna nú að hægriblokk Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, stendur sterkar að vígi en Ólíubandalagið og myndi sigra í kosningum nú. Eftir átök um Íraksstríðið og fleiri umdeild mál í fyrra eftir fimm ára valdaferil Berlusconis kom á óvart að Prodi og bandalag hans skyldi vinna svo tæpt og eiga svo erfitt með að stjórna af krafti. Berlusconi féll af valdastóli með naumindum og fræg var þrjóska hans við að viðurkenna tapið sem slíkt. Staða Berlusconi virðist altént sterk nú. Það er því ekki skrýtið að hægriblokkin vilji kosningar nú.

Napolitano, sem verður 82 ára í sumar, á enn eftir sex ár á forsetastóli. Það er því ljóst að hann verður forseti að óbreyttu út kjörtímabilið. Hann mun því vaka yfir pólitískum örlögum Prodis og framtíð stjórnarinnar. Staðan virðist þó svo brothætt að ganga megi út frá því sem vísu að þingkosningar verði fyrir 2011. Á þessari stundu veðja held ég fáir í Ítalíu á að stjórnin haldi allan þann tíma.


mbl.is Forseti Ítalíu biður Prodi að halda áfram störfum sem forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband