Einn kemur.... þá annar fer

Björk Vilhelmsdóttir Gamalt máltæki segir að þegar að einn fari komi alltaf annar til sögunnar. Það á vel við hjá Samfylkingunni í dag. Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi, tilkynnti inngöngu sína í flokkinn svo til á sömu stundu og Jakob Frímann Magnússon, varaþingmaður og Stuðmaður, sagðist hafa yfirgefið flokkinn í beinni útsendingu hjá Agli Helgasyni í Silfrinu í dag. Það eru þó varla stórtíðindi að Björk fari í Samfylkinguna, en hún hefur verið borgarfulltrúi í nafni S-lista Samfylkingar og óháðra frá því í júní, er sögu R-listans lauk.

Björk var kjörin borgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 2002 af hálfu R-listans og var þá á kvóta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Björk var formaður félagsmálaráðs borgarinnar á því kjörtímabili og í fleiri nefndum áhrifamikil fyrir meirihlutann. Björk leiddi að því er segja má þá fylkingu innan VG sem vildi halda flokknum áfram innan R-listans og því tryggja að þetta bandalag þriggja flokka héldi í fjórðu kosningarnar. Svo fór að Björk og hennar armur í flokknum varð undir á miklum hitafundi í flokksfélagi VG í Reykjavík í ágúst 2005 og hún gaf ekki kost á sér í prófkjöri flokksins til vals á frambjóðendum á lista VG í október 2005.

Fyrir rúmu ári, eða snemma árs 2006, ákvað Björk að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fór í febrúar 2006. Björk sat sem borgarfulltrúi í nafni R-listans út kjörtímabilið en yfirgaf VG við svo búið og var fullgild í borgarmálahópi Samfylkingarinnar. Hún gat sem óháð farið í prófkjör Samfylkingarinnar og náði fjórða sætinu; á eftir leiðtogaefnunum Degi, Steinunni Valdísi og Stefáni Jóni.

Björk tilkynnir um inngöngu í Samfylkinguna sömu helgi og ársfundur kvennahreyfingar Samfylkingarinnar fer fram. Þetta eru eins og fyrr segir varla stór tíðindi en endanleg staðfesting þess að Björk ætlar sér að starfa innan Samfylkingarinnar af fullum krafti.

mbl.is Björk Vilhelmsdóttir gengin í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Björk stóð sig vel sem form.félagsmálaráðs innan R-listans.Það er mikill fengur fyrir Samfylkinguna að fá hana til liðs við sig.Jakob hefur hins vegar sagt sig úr flokknum,kjósendur sýndu honum ekki þá tiltrú,sem hann hafði vænst.Hann kemur væntanlega við hjá Framtíðarlandinu,sem tekur endalaust við föllnum dátum og daga þar  uppi eins og nátttröll.

Kristján Pétursson, 25.2.2007 kl. 20:38

2 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Þetta eru góðar fréttir fyrir Samfylkinguna!

Guðfinnur Sveinsson, 25.2.2007 kl. 20:39

3 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Takk Stefán Friðrik fyrir greinargóða yfirferð um feril minn innan borgastjórnar - gaman að lesa eigið CV ritað af skapheitum bókaormi norður í landi. Takk aftur, Björk

Björk Vilhelmsdóttir, 25.2.2007 kl. 23:49

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Björk. Já, ég hef gaman að spá í stjórnmálum. Það var ekki annað hægt en að skrifa aðeins um þetta. Þetta eru pólitísk tíðindi og það var mikilvægt að fara aðeins yfir söguna. Hef gaman af því. Annars er ég systursonur Helga Seljan, fyrrum þingmanns, svo að ég er ekki algjörlega 100% ættaður frá hægri. Hef því fylgst með pólitík allra flokka og á vini í öllum flokkum. Það er mjög hollt og gott. Skemmtilegast finnst mér enda að lenda í innlifuðum rökræðum við þá sem maður er ekki 100% sammála. Pólitík er nefnilega margflókin og skemmtileg, enn skemmtilegri með lifandi spjalli. En gangi þér vel í þínum verkum. Það er fengur fyrir Samfylkinguna að fá þig í sínar raðir, tel ég. Það er alltaf mikilvægt að fólk hugsjóna og krafts sé áberandi í pólitík.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.2.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband