Konungleg stund í Hollywood - drottningar hittast

Helen MirrenÞegar að ég sá fyrst kvikmyndina The Queen í bíó var ég handviss um að Helen Mirren fengi óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu. Hún var einfaldlega svo stórfengleg að annað gat ekki komið til greina - hún túlkaði drottninguna með bravúr og færði okkur kjarnann í persónu hennar. Elísabet II er vissulega þrjósk og hvöss í túlkun Mirren en undir niðri er þetta kona gamalgróna gilda og skyldurækni - umfram allt kona á krossgötum.

Myndin lýsir sögulegum viðburðum. Fráfall Díönu, prinsessu af Wales, í París þann 31. ágúst 1997 kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og í raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London. En það stöðvaði ekki skriðu almennings.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Helen Mirren túlkar drottningu á krossgötum. Þjóðin fylgdi ekki leiðsögn hennar. Með leiðbeiningum Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem í raun leiddi baráttu almennings fyrir því að sess Díönu yrði staðfestur af konungsfjölskyldunni, um að drottningin færi til London, mætti almenningi á götum borgarinnar og flytti sjónvarpsávarp í beinni útsendingu, bjargaði drottningin því sem bjargað varð. Með naumindum tókst drottningu að ná tökum á stöðunni. Mirren túlkar sálarástand drottningarinnar sem lenti í atburðarás sem sífellt varð verri og verri. Túlkun hennar er svo góð að unun er á að horfa og það er öllum ljóst sem sér myndina að Mirren fer inn í innsta kjarna persónu drottningar.

Helen Mirren í The QueenBesta atriði myndarinnar er hiklaust þegar að Mirren endurtúlkar allt ávarp Elísabetar II til bresku þjóðarinnar daginn fyrir útför Díönu. Þar er engin feilnóta slegin. Hún túlkar öll svipbrigði og taláherslur drottningar á réttum stöðum. Lýtalaus snilld í orðsins fyllstu merkingu. Ávarpið er tær snilld í sjálfu sér en Mirren endurleikur þessa sögulegu stund svo vel að þetta atriði eitt hefði réttlætt það að hún fengi verðlaunin. Svo lætur atriðið þar sem hún festir jeppann í ánni og bíður aðstoðar á árbakkanum engan ósnortinn. Það er eina skiptið í gegnum svo að segja alla myndina sem hin sterka kona bugast.

Elísabet II er kona sem hefur leitt heimsveldi í 55 ár. Hún hefur verið kona áhrifa. Þessi mynd sýnir okkur inn í kjarna hennar. Þetta er viðkvæmt umfjöllunarefni og þarf næmt verklag og leik til að allt gangi upp. Þarna gengur allt upp og gott betur en það. Myndin er yndisleg og Mirren vinnur stærsta leiksigur ferilsins og er loksins komin með óskarinn í sínar hendur. Það var kominn tími til. Mirren sýnir í þessari mynd hvernig gera skal hlutina. Engin feilnóta - aðeins tær snilld.

Það er afrek að geta túlkað konu sem er enn eins áberandi í heimsmyndinni og Elísabet II með jafn opinskáum hætti í raun. Hún er sennilega ein áhrifamesta kona síðustu áratuga. Það þarf kraft og kjark til að gera þetta og eiginlega auðvelt að klúðra því. Þetta er allavega mikill línudans á milli snilldar og oftúlkunar. Mirren neglir hlutverkið og gerir þetta með brilljans. Nú er talað um að Elísabet II og Helen Mirren hittist bráðlega yfir tebolla í Buckingham-höll. Hún hefur ekki enn séð myndina og mun ekki ætla sér að gera það nokkru sinni. Of vondar minningar sennilega - beisk endurupplifun.

Þetta eru tvær kjarnakonur - konur skoðana og styrkleika. Það eru eflaust flestir sem vildu vera fluga á vegg yfir tespjalli þeirra. Eitthvað segir mér þó að hin veraldarvana húsmóðir breska heimsveldisins forðist eftir fremsta megni að ræða ævi og örlög Díönu og eftirmála dauða hennar - sögusvið myndarinnar sem færði Dame Helen hlutverk ferilsins og tækifærið til að sýna snilld sína í eitt skipti fyrir öll. Styrkleiki leikkonunnar í myndinni var nefnilega um leið umfangsmesti veikleikinn á litríku æviskeiði drottningar sem hefur ríkt í áratugi.

Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár
pistill SFS - 6. febrúar 2007


mbl.is Verður Mirren boðið í te í Buckinghamhöll?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta breska kóngaslekti er meira og minna stórbilað og Byrgið hefði verið rétti staðurinn fyrir það.

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 21:06

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég lít nú fram hjá þessu frá Steina. -- En þú sýnir hér, Stefán, hve ágætur og fjölhæfur penni þú ert, flottur er hann textinn þinn, í senn bókmenntalegur og góður sem innsýn í myndina og samtímaviðburði, og sannarlega er það ekki þér að kenna, að myndin sjálf er æði-ótrúverðug á mörgum köflum: Það er bara ekki hægt að ímynda sér, að drottningin hafi verið svona hrikalega lokuð og harðsvíruð í hatri á Díönu. Það hlýtur nú að vera það minnsta, sem hún upplifir, þegar hún heyrir um andlát (fyrrverandi) tengdadóttur sinnar, að eitthvað jákvætt og hlýtt og fallegt komi fram í hugann. Þetta er vitaskuld bara uppsettur tilbúningur, þótt vitað hafi verið um vissa samskiptaerfiðleika milli fjölskyldunnar og Díönu og eflaust einhverja fordóma þeirra í hennar garð. En svona harka út yfir dauðann?! Nei! Þar að auki fer kvikmyndin afar illa með þann góða og göfuga mann hertogann af Edinborg, af okkar dönsku Lukkuborgarætt. Ég komst í návígi við hann í Cambridge, við "dinner in Hall" í St John´s College, og ólíkur er hann þessum fræga leikara, sem oftast leikur óviðfelldna, hrokafulla karaktera!

Ég er nú að blogga þetta hjá þér, af því að svo vildi einmitt til, að konan fekk sér myndina úti á vídeóleigu í kvöld, og ég horfði á lungann af henni fram yfir hálfleik (þótt ég yrði svo að stökkva frá og sinna þessu bloggi þarna!). Og PS: það var ekki trúverðugt, að fólk hafi verið að skrifa harðar áritanir með blómvöndunum vegna Díönu -- ég man það vel, að þær gengu einmitt yfirgnæfandi út á þetta: "Díana, við elskum þig, þú ert í hjarta okkar" o.s.frv. Já, Díana var falleg og góð persóna, sem átti erfitt undir lokin og dó hörmulega, en það breytir því ekki, að það er afskaplega undarlegt að framleiða þessa mynd um drottningu til 55 ára og einblína mest á dagana kringum lát Díönu. Hún hefði þá frekar átt að heita: The Queen and Di. Raunar sýnist mér myndin samin með aðdáendahóp Díönu um allan heim sem sinn markhóp (billegt sölutrix). Og ég er sannfærður um, að það verði algert sjokk fyrir Elísabetu II að horfa á þessa mynd -- og sé ekki fyrir mér, að Helen Mirren yrði úr þessu velkomin í tebolla hjá þeim Filippusi!

En takk fyrir pistilinn, félagi.

Jón Valur Jensson, 27.2.2007 kl. 00:34

3 identicon

"Vissa samskiptaerfiðleika milli fjölskyldunnar og Díönu". Það var og. Og hvað áttu við með þessu atriði, Jón Valur: "Ég komst í návígi við hann"? Ef ég hefði gert það hefði nú ekki einhver lukkuriddari af Aldinborgarætt þurft að kemba hærurnar, enda þótt borð hefðu svignað undan sviðakjömmum og súrsuðum hrútspungum. Að láta hann sleppa lifandi hefðu verið landráð, enda er ég 29. ættliður frá Haraldi Noregskóngi hinum harðráða sem drepinn var í orustunni að Stafnfurðubryggju (Stamford Bridge) í Englandi 25. september 1066. Og á Jóladag sama ár var Vilhjámur bastarður, hertogi af Normandí, krýndur konungur Englands. Elísabet II Englandsdottning er 32. ættliður frá Vilhjálmi. Það hvarflar því ekki að mér að míga utan í skoska hertoga eða enskt kóngaslekti og ég ætla rétt að vona að aðrir Íslendingar taki ekki þátt í slíkum ósóma í framtíðinni. Þegar við höfum keypt síðustu ensku sjoppuna verður enski aðallinn lokaður inni í Tower of London og lyklinum hent, en turninn var byggður af Vilhjálmi bastarði 12 árum eftir dauða Haraldar harðráða.

Steini Briem (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 04:54

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott hjá þér að komast í fornsöguskap, Steini minn, og minnast göfugra forfeðranna. En Filippus er vitaskuld á margfaldan hátt afkomandi Haralds okkar harðráða.

Jón Valur Jensson, 27.2.2007 kl. 09:36

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Jón Valur

Þakka þér kærlega fyrir athugasemdina og góð orð um skrifin. Það er alltaf gaman að skrifa og nauðsynlegt að kúpla sig úr stjórnmálunum af og til og hugsa um eitthvað annað. Þessi mynd er merkileg bara fyrir það hvernig hún tekur á þessum tíma, þessi vika var erfið og söguleg fyrir konungsfjölskylduna. Þetta er mesta krísa hennar síðan að Játvarður VIII hrökklaðist með skömm frá krúnunni fyrir að vilja giftast hinni bandarísku tvífráskildu Wallis Warfield Simpson. Ólík mál - sama krísan þó.

Drottningin fór að ég tel bara í baklás. Það var allt og sumt. Hún sýndi samhug innst inni. Það voru reyndar hennar mestu mistök að fara ekki til London strax og senda út yfirlýsingu. Þetta hefði aldrei orðið eins dramatískt og raunin varð hefði hún sýnt einhvern lit í opinberri sorg. Drottningin er hinsvegar gamaldags fulltrúi gildanna. Hún kynntist sorg ung vissulega. Pabbi hennar dó þegar að hún var 25 ára og hann dó snöggt og hún tók við þungum skyldum ung.

Það var ekki í hennar karakter að sýna sorgina og vera innileg út í frá. Hún var alin upp í stríðinu og er hörð og hvöss ekki vegna uppeldis heldur mun frekar sinnar lífsreynslu. Þetta er jú kona sem hefur fórnað ævi sinni í skyldur fyrir þjóð sína. Innst inni tel ég að þetta sé góð kona. Það er sýnt inn í þann kjarna í myndinni, þó mjög stutt sé vissulega. Þetta er mun frekar þrjóska og skap sem hún sýnir. Hún sýndi ekki sorgarviðbrögð út í frá þegar að pabbi hennar dó árið 1952 og hefur sennilega ekki talið það eðlilegt fyrir fyrrum tengdadóttur sína.

Drottningin var í Skotlandi fjarri almenningi og það tók þessu sem vanvirðu við Díönu. Það hafði mikið gengið á milli drottningar og Díönu og þetta var þeim sjokk. Þau syrgðu í einrúmi en þjóðin vildi að þau sýndu virðingarvott við prinsessuna opinberlega. Það var öll deilan og ég held að við hefðum aldrei séð neina mynd af þessu tagi hefði drottningin farið til London á sunnudeginum og mánudeginum.

Hún missti stjórn á atburðarásinni og var máluð grófum litum. En við verðum að taka í huga okkar það að þetta er mesta sorg sem einni manneskju hefur verið sýnd í seinni tíma sögu. Ég persónulega mun ekki gleyma þessum tíma, og þú eflaust manst það líka, hversu rosalega mikil þjóðarsorg þetta var. Þetta var sorg allra landsmanna og drottningin varð að gera eitthvað í því þegar að komið var sögu að þetta hafði klúðrað eins mikið út í frá og raunin varð. En þessu lauk öllu farsællega. Mirren túlkar nefnilega konu sem veit ekki hvað hún á að gera. Hún er hugsa um hvort hún eigi að fylgja konunglegum hefðum eður ei og tekur af skarið, seint og um síðir, en glæsilega.

Mér fannst þetta góð mynd af vissu marki. Sagnfræðina má eitthvað setja út á, en leikurinn og umgjörð hennar eru stórglæsileg og aðall myndarinnar. Þessi mynd fangar heimsbyggðina einkum vegna þess að atburðir hennar eru í svo fersku minni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 27.2.2007 kl. 12:38

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér tilskrifið og hugleiðinguna, Stefán minn iðni og fróði. Og rétt er það hjá þér, að Mirren sýnir líka viðkvæmari hliðar á hennni Elísabetu. -- Lærðirðu kannski á Englandi eins og fleiri? En ég hef þig grunaðan um að vilja endurreisa konungdóm á Íslandi. Kannski það væri ekki verra en hvað annað!

Jón Valur Jensson, 27.2.2007 kl. 22:46

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Jón Valur. Nei, ég lærði ekki þar en ég var þar sem skiptinemi í tæpt ár. Það var mjög góður tími, yndislegt að vera þar. Ég var þar þegar að Díana dó. Ég upplifði þennan tíma mjög sterkt vægast sagt. Kannski er það þess vegna sem að ég skynja hann svona vel. Er kannski ekki hlynntur konungdómi og þó, því ekki. Ekki er það verra en þetta konunglíki og óttalegur uppskafningur sem við höfum út á Bessastöðum. Get ekki annað sagt. En ég er svona konungáhugamaður vissulega og spáð vel í þessu víða. Hef gaman af því. Slæ þó ekki Hildi Helgu frænku minni af Vigurætt við í þessu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.3.2007 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband