VG stærri en Samfylkingin - ríkisstjórnin fallin

Könnun (mars 2007) VG mælist stærri en Samfylkingin, og því annar stærsti flokkur landsins, í nýjustu skoðanakönnun Gallups sem kynnt var rétt í þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem það gerist í könnunum frá Gallup. Ríkisstjórnin mælist fallin í könnuninni rétt eins og var í síðustu mánaðarkönnun. Framsóknarflokkurinn bætir við sig milli mánaða og er nú kominn yfir 10% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn missa fylgi milli mánaða.

Fylgisaukning VG er staðfest í þessari könnun. Síðast munaði litlu á flokkunum en nú eru semsagt vinstri grænir komnir fram úr Samfylkingunni. Það eru nokkur tíðindi svo sannarlega. Skv. þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með örlitlu meira en kjörfylgið 2003 og er nú aðeins 12% stærri en VG. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24 þingsæti, VG hefur 15 þingsæti, Samfylkingin hefur 14, Framsókn hefur 6 þingsæti en Frjálslyndir hafa 4 þingsæti. Skv. þessu hefur Sjálfstæðisflokkur bætt við sig tveim frá kosningunum 2003, VG bætt við sig tíu þingsætum, Samfylkingin misst sex, Framsókn líka misst sex og Frjálslyndir hafa jafnmarga og síðast.

Þetta er merkileg staða sem sést þarna, vægast sagt. Fróðlegt verður að sjá skiptingu þingmanna í kjördæmunum í samræmi við þetta. Stóru tíðindin eru þó að VG mælist næststærsti flokkur landsins og með einu þingsæti meira en Samfylkingin. Á sama tímapunkti fyrir fjórum árum var himinn og haf milli flokkanna, Samfylkingu í vil. Þessi könnun birtist sama dag og könnun Fréttablaðsins sýndi að fleiri vildu Steingrím J. Sigfússon sem forsætisráðherra en Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þessi könnun er mjög stór - vel yfir 4000 manna úrtak og hún er gerð yfir heilan mánuð. Þetta er því öflug könnun sem segir ansi margt um stöðuna eins og hún er núna. Hún dekkar mánuðinn og því erfitt að sjá nýjustu sveiflur. Nú stefnir hinsvegar í vikulegar kannanir hjá Gallup fyrir RÚV og Morgunblaðið og daglegar undir lok baráttunnar svo að þetta verða spennandi tímar framundan. Það eru aðeins 72 dagar til kosninga.

Það hlýtur að fara um Samfylkingarmenn í þessari stöðu. Þetta er ansi frjálst fall frá kosningunum 2003 og það sem meira er að Steingrímur J. er farinn að líta niður á Ingibjörgu Sólrúnu í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is VG með meira fylgi en Samfylking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Gæti verið að að hafi verið misskilningur hjá ISG að fólkið  treysti ekki þingflokknum, skildi að rétta vera að fólkið treysti ekki formanninum

Anton Þór Harðarson, 1.3.2007 kl. 20:43

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Daginn Stefán. Ég er búin að vera að lesa allar færslurnar sem bloggarar skrifuðu um þessa frétt og þær virðast næstum skiptast í tvennt. Ánægt VG fólk sem fagnar könnuninni og óánægt ekki-VG fólk sem er með skítkast út í VG og þá fyrst og fremst Steingrím. Næstum því enginn segir: "Æ æ, okkar menn ekki alveg að standa sig". Þú fellur í hvorugan flokkinn (kannski af því að Sjálfstæðismenn fá góðan hlut þrátt fyrir allt) og lætur alveg vera að sparka í Steingrím. Ég er ánægð með það. Mér finnst gott að fólk skuli hafa mismunandi skoðun á málefnum og að það skuli geta talað fyrir sinni skoðun án þess að fara út í skítkast. Ég er næstum aldrei sammála skoðunum þínum, en mér finnst þú sjaldan leiðast út í leiðindin sem einkenna svo marga. Gott hjá þér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.3.2007 kl. 21:03

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Marktæk skoðunakönnun,sem flokkarnir verða að taka alvarlega.Mér kemur mjög á óvart stöðug aukning hjá VG.Vissulega hefur þeim tekist vel að leiða umræðuna í náttúruverndarmálum,en Fagurt Ísland Samfylkingarinnar hefði átt að hafa einhver áhrif á kjósendafylgið.Atvinnumálastefna VG er eins og fyrr óskilgreind með uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja,sem enginn veit hvers konar rekstur er þar fyrirhugaður.Það er oft sagt að best sé að nefna fyrirtæki ,en ekki rekstur þeirra,þá þarftu ekki að standa við neitt eftir kosningar.Þó kjósendur sjái ekki beituna bíta þeir samt á hjá VG.Steingrímur Sigfússon átti í vök að verjast í þinginu í dag,þegar framsóknarm.sóttu að honum vegna afstöðu hans fyrir rúmu ári síðan,þegar hann var mynntur á að  hafa verið samþykkur Álverksmiðju á Húsavík og virkjunar á neðra Þjórsársvæðinu.Steingrímur svaraði engu,þó ítreakð væri á hann skorað af framsóknarmönnum að svara fyrirspurnum þeirra.

Jón Baldvin hefur sýnilega ruggað Samfylkingarskútunni nægjanlega mikið til að gamlir Alþýðuflokksm.hafi stokkið fyrir borð,en hvert veit enginn ennþá.

Raunfylgi íhaldsins miðað við fyrri reynslu skoðanakannanna í alþingiskosningum  gæti verið um 33-34%.KB banki,Vís.ofl. Framsóknarmettuð fyrirtæki munu koma flokknum.í 12 -14 %.Ríkisstjórnin mun samt falla.

Kristján Pétursson, 1.3.2007 kl. 21:53

4 identicon

Jákvæðu tíðindin eru þau að Framsókn er að bæta við sig, komnir í 10% og Sjálfstæðisflokkurinn mun halda sínu fylgi og líklega fá örlítið meira. Sérstaklega ef Ingibjörg verður mikið í fréttum og hún tapar baráttunni við Lúðvík um stækkun álversins í straumsvík.
Það mun telja heilmikið að hægri kratar eru að flýja sf og ég ætla að held að forræðishyggjuflokkurinn verði stærri en sf eftir næstu kosningar, þá er stóra spurningin hvort ekki verði um skipt formann hjá sf. 

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 07:32

5 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Mig langar að benda Kristjáni Péturssyni á það að SJS hefur aldrei lýst því yfir að vera hlynntur því sem þú ert að segja. Þú eins og svo margir aðrir haf tekið orð hans gjörsamlega úr öllu samhengi þegar hann sagði að vissulega væri það illskárri kostur að virkja í neðri Þjórsá heldur en önnur ósnortin svæði - EN sagðistjafnframt EKKI vera hlynntur því samt sem áður!

Vinsamlegast lestu bara það sem fram fór á þinginu nýlega:

13. febrtúar 2007

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, 1. umr.


utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):
Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór mikinn eins og hann hefur oft gert áður í umræðu um stóriðjumál. Ég undrast dálítið að hv. þingmaður skuli gera það í þessari umræðu vegna þess að hann og Vinstri grænir hafa meira og minna lýst stuðningi við þær virkjanir sem verið er að tala um að fara í núna í tengslum við þær framkvæmdir sem eru í umræðunni.
Hv. þingmaður sagði í þinginu í fyrra — ég eiginlega dró það upp úr honum, ég vildi fá hann til að segja mér frá einhverjum framkvæmdum og einhverjum virkjanaframkvæmdum sem hann gæti stutt — með leyfi forseta:
„Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði.“
Að auki segir hv. þingmaður að fullnýta þurfi Nesjavallasvæðið.
Í sambandi við Straumsvík er verið að tala um að fara í þessar virkjanir í neðri Þjórsá. Auk þess er verið að tala um að fara í framkvæmdir á Hengilssvæðinu og Nesjavallasvæðinu. Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann teldi það eðlilegt og vinstri grænir í borgarstjórn vildu fara í þær framkvæmdir.
Hvað varðar Bakka við Húsavík þá hefur hv. þingmaður sagt við heimamenn að ef nýta eigi jarðvarmann sé mjög til skoðunar að styðja þær framkvæmdir.
Varðandi Helguvík er verið að tala um (Forseti hringir.) jarðgufu, Hengilssvæði og Nesjavelli sem hv. þingmaður er búinn að lýsa stuðningi við.


Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):
Herra forseti. Ég er mjög ánægður með að hæstv. ráðherra vitni í orð mín og sérstaklega ef hún vitnar í þau í heild sinni. Ég man alveg nákvæmlega þessa umræðu og skoðanir mínar hafa ekkert breyst í þeim efnum. Hæstv. ráðherra hefði þá átt að sjá sóma sinn í að bæta því við sem fylgdi í afstöðu minni að það væri að sjálfsögðu þá og því aðeins að við værum sátt við þá ráðstöfun orkunnar sem í hlut ætti og þá er það auðvitað þannig að sumir virkjunarkostir eru betri en aðrir. Það er ekkert launungarmál að ég tel virkjunarkosti í neðri Þjórsá betri en t.d. þá að ráðast inn á, eins og ég sagði, ósnortin svæði eins og Langasjó.
Ég var einmitt að draga upp þessa flokkun og benda á að það væri mikill munur á því hvort menn fullnýta jarðvarmasvæði sem þegar er búið að raska, eins og Kröflu og Nesjavelli, hvort menn virkja í vatnsfalli sem er þegar búið að miðla, sem er þegar búið að taka af sína náttúrulegu rennslishætti. Ég sló nákvæmlega þá fyrirvara sem rétt og skylt er að gera gagnvart hverjum og einum kosti og ég sagði að virkjunarkostir í neðri Þjórsá séu síður en svo án fórna. Það hef ég allan tímann vitað og þekki mætavel af miklu nábýli m.a. við þá.
Hæstv. ráðherra skorar engin mörk með þessu. Þetta er í fullkomnu samræmi við þær áherslur sem við höfum haft. Það er engin þörf á þessum fórnum nú. Við erum algerlega ósammála þeirri ráðstöfun orkunnar sem í hlut á og þar af leiðandi er andstaða okkar algerlega ómenguð við þessar framkvæmdir, fullkomlega.

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):
Hæstv. forseti. Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á þessu, hv. þingmaður styður í raun þessar framkvæmdir í neðri Þjórsá. Ef hann hefði mætt á fundinn í Árnesi hefði hann ekki fengið að tala þar því aðeins þeir sem voru á móti framkvæmdunum fengu að tala. Hv. þingmaður hefði ekki fengið orðið á þeim fundi.
Hann hefur haft stór orð um að upplýsingar vanti í sambandi við ákveðna virkjunarkosti í rammaáætlun og það er rétt að svo er. Þar erum við að tala um kosti c, sem er ekkert verið að tala um að fara í á næstunni og sennilega aldrei. Við erum að tala um kosti c sem eru t.d. Háuhverir, Brennisteinsfjöll, Reykjadalur, Reykjadalir austari, Jökulsá á Fjöllum, Markarfljótsvirkjun o.s.frv. Frumvarp hæstv. ráðherra gengur út á að aðeins kostir a og b verði til umræðu þar til lokið er við gerð rammaáætlunar.
Þetta er meira og minna sýndarmennska hjá hv. þingmanni þegar hann kemur upp og fer mikinn svo klukkustundum skiptir.

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):
Herra forseti. Ég hélt að ég hefði dregið upp alveg skýra mynd af því hver staða þessa máls er og hvers konar sýndarmennska einmitt málatilbúnaður Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar er í þessum efnum, að reyna að tala um einhverja þjóðarsátt þegar ljóst er að öll stóriðjuáformin sem eru í pípunum geta gengið í gegn óháð því sem hér er verið að tala um. Það er bara staðreynd sem hæstv. ráðherrar og hæstv. ráðherra geta ekkert komist hjá.
Svo hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafi það alveg á hreinu er ég algerlega andvígur því að ráðist verði nú í virkjanirnar í neðri Þjórsá, (Gripið fram í.) algerlega andvígur því þó að … (Utanrrh.: Er það ný skoðun?) Nei, það er sama skoðun og ég hef haft á því máli lengi. Þó að þær virkjanir séu að mínu mati skárri en þær verstu sem hægt er að ráðast í í landinu. Auðvitað er það skárra ef maður reynir að raða þessu upp með svipuðum hætti og rammaáætlun er ætlað að gera. Það er skárra en að eyðileggja Langasjó og fara inn á ósnortið svæði þar. (Gripið fram í.) Það er skárra en að fara í Þjórsárver, það er skárra en að fara í Jökulsá á Fjöllum, Kerlingarfjöll eða Torfajökulssvæðið. Það er vissulega hægt að hugsa sér verri virkjunarkosti og ég var að segja það þarna, að þeir væru betri en sumir aðrir. Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá að búið er að miðla Þjórsá að verulegu leyti, það stendur reyndar til að gera betur ef Landsvirkjun fær að fara í Þjórsárver.
Þetta stendur ósköp einfaldlega svona og ég hefði með mikilli ánægju talað gegn þessu á fundinum í Árnesi ef ég hefði átt kost á því að vera þar, ég var því miður norður í landi (Utanrrh.: … skipt um skoðun?) en var þar a.m.k. í huganum. Nei, ég hef ekki skipt um skoðun. Ég skal bara fara rækilega yfir þetta með hæstv. ráðherra, þetta er svona. Er ekki hægt að leyfa orðunum að standa eins og þau eru sögð og í því samhengi sem þau eru sögð? Ég var einfaldlega að fjalla um það að virkjunarkostirnir eru misslæmir og þessir eru vissulega ekki þeir verstu, það hef ég aldrei sagt. (Gripið fram í.) Ég hygg að andstaðan á Suðurlandi sé ekki síður við það að fólk sér enga ástæðu til að færa þessar fórnir nú og við núverandi aðstæður í þágu þeirrar ráðstöfunar orkunnar sem ríkisstjórnin ætlast til. Það þýðir ekki endilega að allir séu jafnharðákveðnir (Forseti hringir.) í því að vera á móti þessum virkjunum við hvaða aðstæður sem er. Ég þekki marga slíka.

Andrea J. Ólafsdóttir, 4.3.2007 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband