Í minningu séra Péturs

Sr. Pétur Þórarinsson Höfðinginn séra Pétur í Laufási er allur. Við sem höfum eitthvað komið nærri trúarstarfinu hér á svæðinu söknum leiðtogans sem Pétur var alla tíð í okkar huga. Hann var okkur öllum hér fyrirmynd. Styrkur hans var aðdáunarverður í þungu veikindastríði, sem reyndist höfðingjanum að lokum um megn að berjast við. Því miður, enda er fráfall hans mjög dapurleg endalok á löngu og erfiðu ferli sem var erfið þraut fyrir fjölskyldu hans og vini. Sú þraut sýndi okkur þó best úr hverju Pétur var gerður.

Í tilefni þess að Pétur hefur nú yfirgefið hið jarðneska líf, hefur kvatt okkur, þótti mér viðeigandi að sækja í bókahilluna í gærkvöldi baráttusögu hjónanna í Laufási, bók sem heitir einfaldlega Lífskraftur. Mér fannst ég verða að rifja bókina upp, en það er samt ekkert svo rosalega langt síðan að ég las hana síðast. Bókin Lífskraftur er baráttusaga hjónanna í Laufási. Það er sterk saga, saga sem lætur engan ósnortinn. Öll þekkjum við sjúkdómssögu séra Péturs. Ungur greindist hann með sykursýki. Hann barðist nær alla ævi við þann sjúkdóm. Þyngst voru örlögin síðar meir fyrir séra Pétur að missa báða fæturna. Samhugur íbúa hér með honum í því erfiða ferli var alla tíð mikill.

Mitt í veikindum Péturs veiktist Inga ennfremur af lífshættulegum sjúkdómi sem setti mark á alla baráttu þeirra og þyngdi róðurinn. Það birti þó yfir hjá Ingu en Pétur barðist áfram við sín örlög. Það var erfitt að berjast við þann þunga skugga og að því kom að það var óyfirstíganlegur vegatálmi á æviferð. Styrkur séra Péturs var ótrúlega mikill. Ég dáðist alla tíð af þessum styrk. Hann gaf þeim sem næst honum stóðu mjög mikið. Ekki síður var hann mikils virði fyrir alla þá fjölmörgu sem kynntist honum á langri vegferð. Þeir sem áttu við sjúkdóm að stríða hér litu upp til erfiðrar reynslu séra Péturs. Hann miðlaði reynslu sinni vel til fólks sem átti í þungri baráttu líka.

Barátta hans var opinber, hann fór aldrei leynt með ástand sitt og vildi deila því með fólki. Við tókum líka að ég tel öll þátt í þessari baráttu við sem hér erum. Síðar voru haldnir styrktartónleikar í Glerárkirkju, gömlu sóknarkirkju Péturs. Íbúar hér fjölmenntu á marga tónleika til að styðja fjölskylduna, sýna hlýju og kærleik á raunastundu. Samhugur íbúanna hér kom þá mjög vel fram og ég held að það eitt og sér að finna stuðning allra og þennan mikla hlýhug hafi gefið Pétri kraftinn til að berjast svo sterkt gegn sjúkdómnum. Hann var valinn maður ársins af íbúum á svæðinu árið sem hann missti fæturna. Það var mikilvæg viðurkenning til Péturs - hlýleg kveðja.
 
Í haust var viðtal við séra Pétur í Kompás á Stöð 2. Þar sást greinilega að þungi baráttunnar var greinilega að sliga höfðingjann. Þetta var orðinn þungur róður. Þar talaði hann um hversu þung baráttan væri orðin. Ég verð að viðurkenna að ég komst við að sjá þetta viðtal og ég skynjaði þá hversu mjög sligaður hann var orðinn af þunganum. Þetta var síðasta viðtalið við Pétur sem ég sá og heyrði. Þetta viðtal lét engan ósnortinn.

Erfiðu sjúkdómsstríði er lokið. Við hér á þessu svæði minnumst öll trúarlegs höfðingja með hlýju. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til Ingu og fjölskyldunnar við fráfall séra Péturs. Blessuð sé minning hans.

mbl.is Andlát: Pétur Þórarinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Saumakonan

Ég átti bágt með að verjast gráti þegar mér var sögð þessi sorgarfregn í gær... enda búin að þekkja Pétur frá barnæsku þar sem hann og faðir minn voru giftir systrum.  Það sem á þessa fjölskyldu er lagt er ekki lítið... öll þessi veikindi hjá þeim báðum og öðrum fjölskyldumeðlimum...      Þetta er erfiður tími hjá Ingu núna... Pétur rétt búinn að jarðsyngja systur hennar og þá fellur hann frá líka...  

Megi góður guð styrkja fjölsylduna á þessari sorgarstund

Saumakonan, 2.3.2007 kl. 13:59

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur kærlega fyrir þessi komment.

Saumakonan: Já, þetta er mjög sorglegt. Mjög dapurlegt, hreint út sagt. Inga hefur staðið sig eins og hetja í gegnum öll áföllin. Hún er ótrúleg kjarnakona. Hef alltaf dáðst af styrk hennar. Pétur var ótrúlega öflugur, margir hefðu hreinlega lagt árar í bát við svona bakslag og ágjöf. Hann átti virðingu okkar allra hér í þessari erfiðu baráttu.

Þrölli: Góð skrif hjá þér, gaman að lesa. Þakka þér kærlega fyrir góð ummæli um skrifin mín.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.3.2007 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband