Geir útilokar ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde Enn hefur ekki náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna í auðlindamálinu. Athygli vakti á blaðamannafundi í morgun að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, útilokar ekki að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá svo fremi að það raski ekki núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Athygli vekur þó að málið kom ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Enn mun þó vera unnið að samkomulagi, enda styttist óðum í þinglok, sem verða eftir nokkra daga.

Stjórnarandstaðan greip boltann á lofti frá framsóknarmönnum og buðust á blaðamannafundi til að greiða með snöggum hætti fyrir stjórnarskrárbreytingum. Framsóknarmenn voru ákveðnir um helgina á flokksþingi sínu í þá átt að tryggja að ákvæðið yrði sett í stjórnarskrána. Lengst allra í því gekk Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, sem beinlínis hótaði stjórnarslitum yrði ekki komið til móts við óskir framsóknarmanna. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins, tónuðu þó andstöðuna nokkuð niður í gær, þó enn sé ljóst að ekkert samkomulag liggi fyrir í málinu.

Staða mála ræðst brátt. Það líður að þinglokum og fróðlegt að sjá hvað kemur út úr umræðum milli stjórnarflokkanna. Innan við 70 dagar eru eftir af kjörtímabilinu og örfáir dagar eftir af starfstíma þingsins. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Ummæli forsætisráðherra sem útiloka ekki auðlindaákvæðið vekja þó athygli, enda virðist með atburðum gærdagsins ljóst að þingmenn allra flokka nema mögulega Sjálfstæðisflokksins styðji að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá.

Þessi ríkisstjórn verður tólf ára í næsta mánuði og er orðin þaulsetnasta rikisstjórn íslenskrar stjórnmálasögu. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta mál verði mesti vegatálmi hennar og jafnvel geri út af við samstarf flokkanna, sem er orðið langt og hefur jafnan verið farsælt.

mbl.is Áfram reynt að ná samkomulagi um auðlindamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband