VG í mikilli sókn - stjórnarflokkarnir tapa fylgi

Steingrímur J. SigfússonVG er í mikilli fylgissókn, skv. nýrri skoðanakönnun Gallups sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Vinstri grænir eru þar með 27% - sex prósentustigum stærri en Samfylkingin og sjö prósentustigum minni en Sjálfstæðisflokkurinn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um tvö prósentustig og er nú orðið nær jafnmikið og kjörfylgið fyrir fjórum árum. Þessi könnun telst mjög vond fyrir stjórnarflokkana sem báðir tapa fylgi og eru nokkuð fjarri meirihluta, með 43% samanlagt fylgi.

Þessi könnun sýnir VG sem afgerandi forystuflokk til vinstri, mun meira afgerandi en verið hefur. Forskot VG á Samfylkinguna er nú orðið hið mesta sem ég man eftir frá sumrinu 2001. Þetta er mjög sterk staða fyrir VG og stefnir í sögulegan kosningasigur vinstri blokkarinnar í svona stöðu ef hún kæmi upp. Þessi könnun hlýtur að vera mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn, sem hélt flokksþing sitt um síðustu helgi og er samt vel innan við tíu prósenta mörkin. Það hlýtur að styttast í að flokkurinn fari hreinlega á barm örvæntingar verði fylgismælingin mun lengur á sömu slóðum fyrir þá.

Það sem er merkilegast við þessa könnun er að VG sé aðeins að bæta við sig fylgi en allir hinir að veikjast að einhverju leyti. Þessi könnun er vond fyrir alla flokka nema VG myndi ég allavega segja. Þessi könnun er sérstaklega vond myndi ég segja fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur lækkað mjög í könnunum að undanförnu og er nú kominn á svona frekar vondar slóðir. Ríkisstjórnin er kolfallin og vel það. Fari kosningar að einhverju leyti svona er VG svo afgerandi sigurvegari kosninga að framhjá þeim verður ekki gengið að mínu mati sem forystuafls í ríkisstjórn. Staða þeirra hefur vænkast mjög og verður vart litið öðruvísi á en að VG sé orðið forystuafl til vinstri.

Þessi könnun boðar því mikil tíðindi og virðist VG vera í stórsókn um allt land og að upplifa samskonar fylgisrisu og Samfylkingin í aðdraganda þingkosninganna 2003. Þessi könnun túlkast enda varla nema sem pólitískt áfall fyrir þrjá stjórnmálaleiðtoga í senn; Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu og Jón Sigurðsson. Öll veikjast þau verulega pólitískt í svona fylgismælingu. Þetta er t.d. lægsta fylgismæling Sjálfstæðisflokksins hjá Gallup í formannstíð Geirs H. Haarde og er þessi staða sérstaklega vond fyrir Sjálfstæðisflokkinn, enda get ég ekki ímyndað mér annað en að hörð vinstristjórn yrði mynduð í svona stöðu.

Þetta er því svo sannarlega könnun stórtíðinda og verður svo sannarlega athyglisvert að sjá næstu könnun og sjá hvort að fylgissókn VG muni halda nú þegar að nákvæmlega tveir mánuðir eru til þingkosninga. Brátt mun þingfundum Alþingis verða slitið, þ.e.a.s. ef ekki verða harkaleg stjórnarskrárátök um auðlindamálin, og kosningabaráttan er að hefjast af miklum krafti.


mbl.is VG bætir enn við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Sæll Stebbi...bíð spenntur eftir að fá þingmennina sem eru inni og það allt saman eins og þú geir stundum hér...

Júlíus Garðar Júlíusson, 9.3.2007 kl. 09:14

2 identicon

Þetta er vont fyrir alla, sérstaklega samfylkingu og segir mér að Ingibjörg á að seigja af sér sem fyrst því þetta er höfnun á henni sem formanni.

Kv, HBO

Hákon B. Óttarsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 10:31

3 identicon

Þetta er böl fyrir þjóðfélagið.  Ætla Vinstri-Grænir (Vg) að hala inn atkvæði á klámi og umhverfismálum?? Frekar þunnur þrettándi það. 

Hvað með velferðamál (málefni aldraða og öryrkja) hjá Vg?   Hvað með atvinnumál t.d. á landsbyggðinni?  Það verður ekki endalaust góðæri og allra síst of Vg komast til valda.  Ef Vg. komast til valda verður landið rjúkandi rústir í þarnæstu kosningum, atvinnuleysi, óðaverðbólga, fólksflótti af landsbyggðinni og háir skattar.  Hvað ætlar t.d. Vg. að gera við allan þennan fjölda erlends fólks sem flutt hefur hingað til lands til að taka þátt í vinnu í sambandi við góðærið þegar góðærið verður á enda og ekki verður meira atvinnu fyrir það?

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 10:43

4 identicon

Lobbi (Guðmundur Ólafsson ) og fleiri fullyrða að ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks sé í burðarliðnum.

Bergur Þorri Benjamínsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 10:57

5 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Tek undir orð Júlíusar hér að ofan

Ágúst Dalkvist, 9.3.2007 kl. 11:03

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er gaman að lifa!! Rosalega kitlar þetta mitt gamla kommahjarta. Leiðinlegt að Samfylkingin skuli standa svona illa.  ISG er FÍNN stjórnmálamaður.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.3.2007 kl. 11:59

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Júlli: Já, ég stefni að því. Þetta er eitthvað sem ég hef gaman af. Ég spái í stjórnmálum frá öllum hliðum og mun fjalla um þetta hér. Gallup hefur reiknað út þingmannatöluna og ég hef fjallað um það með því að setja nöfn við. Það verður gert núna og í öðrum könnunum fram til kjördags.

Hákon: Já, þetta er mikið áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Það er mjög einfalt mál. Samfylkingin virðist búin að fá VG fyrir framan sig og eiga erfitt uppdráttar. Flokkurinn hefur aðeins minnkað á hennar formannsferli sem er henni erfitt.

Bergur Þorri: Já, það virkar líklegt. En hinsvegar má Sjálfstæðisflokkurinn ekki fara neðar en þetta. Hann er að missa fylgi það er alveg greinilegt, það er slæmt enda segir sagan að Sjálfstæðisflokkurinn missi fylgi vikurnar fram til kosninga. Með svipað fylgi og þetta varð Sjálfstæðisflokkurinn að semja af sér forsæti Davíðs Oddssonar í ríkisstjórn árið 2003. Það er vandséð hvernig að hann geti gert kröfur missi hann fylgi milli kosninga. Ef kosningar fara svona spái ég stjórn VG, Samfylkingar og Framsóknar. Reyndar getur Framsókn varla farið í stjórn með minna en 10%. Fái VG yfir 25% gera þeir pottþétt kröfur um forsætið. Spái stjórnarmyndunarkreppu fari þetta svona, sem lyki annaðhvort með stjórn D og VG eða vinstrikostinum sem ég nefndi áðan og þá með SJS sem forsætisráðherra þar.

Jenný: Þetta eru tíðindi að landsmenn hafni svo afgerandi einu konunni sem á möguleika á að verða forsætisráðherra.

Stefán Friðrik Stefánsson, 9.3.2007 kl. 12:34

8 identicon

Þegar við kjósum ákveðinn stjórnmálaflokk kjósum við yfirleitt ekki bara einhverja ákveðna persónu, til dæmis Geir hjá Sjöllum eða Imbu hjá Samfó. Við búum ekki í Kína, Geir er ekki Sjálfstæðisflokkurinn og Imba er ekki Samfó. Helst myndi ég vilja sjá konu sem forsætisráðherra en Steini græni er líka ærið kvenlegur og dugar vel til allra verka, bæði innan stokks og utan.

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband