Margrét Frímannsdóttir kveður

Margrét FrímannsdóttirÉg var að horfa á kveðjuræðu Margrétar Frímannsdóttur á Alþingi, en hún situr nú sinn síðasta þingfund. Búist er við þinglokum innan klukkustundar. Þetta var greinilega tilfinninganæm stund fyrir hana og hún flutti stutta en heilsteypta ræðu. Ég viðurkenni það fúslega að mér hefur alltaf fundist Margrét vera einn frambærilegasti forystumaður Samfylkingarinnar og ég held að þeim muni mjög um hana, enda einn sterkasti leiðtogi flokksins í kvennaarminum.

Það er einmitt hálft ár í dag frá því að Margrét tilkynnti pólitísk endalok sín á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi frá árinu 1987. Hún hefur verið einn helsti leiðtogi vinstrimanna hérlendis í tæpa tvo áratugi og verið öflug í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006. Hún leiddi framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi, fyrir Alþýðubandalag og Samfylkinguna.

Margrét Frímannsdóttir var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar. Það mæddi oft gríðarlega á henni undir lokin í Alþýðubandalaginu er Steingrímur J. og hans fylgismenn klufu sig frá og stofnuðu eigin flokk. Ennfremur var hún talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, en það voru fyrstu kosningar flokksins. Sennilega voru alþingiskosningarnar 1999 þær kosningar sem mest reyndu á hana, en hún leiddi Samfylkinguna fyrstu skrefin.

Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur veiki Samfylkinguna. Hún var sannkölluð ljósmóðir flokksins og tryggði að flokkurinn komst í raun á koppinn. Það hefur öllum verið ljóst að Margrét Frímannsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur leiðtogi á Suðurlandi og átti sér persónufylgi langt út fyrir flokkinn. Hún kom enda úr grasrótinni og hefur verið í pólitík síðan að hún var ung. Sennilega má segja að hún hafi byrjað í pólitík í hreppspólitíkinni, enda var hún lengi oddviti í heimabæ sínum, Stokkseyri, og varð svo þingmaður 33 ára og var alla tíð í forystusveitinni á vinstrivængnum. Það vekur verulega athygli að Margrét ákveði að hætta. Hún er jafngömul Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Báðar eru þær fæddar árið 1954.

Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Margréti á hennar stjórnmálaferli sé ég eftir henni úr stjórnmálum. Þetta var allavega mjög öflug kveðjuræða hjá henni áðan. Þar missir Samfylkingin forystukonu sína á landsbyggðinni og ekki fá þeir neina í staðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Góður pistill hjá þér Stefán, sammála því að það er slæmt fyrir Samfylkinguna að missa Margréti. 

Björg K. Sigurðardóttir, 17.3.2007 kl. 23:21

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sárt fyrir Samfylkingu að sjá á bak Margréti.  Flottur pólitíkus.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.3.2007 kl. 23:24

3 identicon

Magga er flott en það kemur alltaf maður í manns stað. Don't worry, be happy, Stebbi minn.

Alexander, sonur minn og söngvari Soundspell, var að syngja hjá Jóni Ólafs í kvöld og ef þú hefur áhuga geturðu séð myndir af stráknum og heyrt hann syngja hér:

http://profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendID=95075938

Steini Briem (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 23:31

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Margrét er allt í senn glæsileg,heiðarleg og ábyrg í öllu sem hún tók sér fyrir.Hennar verður saknað í þinginu, hún skilur eftir stórt skarð.Við eigum eftir að njóta hennar starfskrafta á örðum vettvangi.Miklar og góðar þakkir fyrir að ýta Samfylkingunni úr vör með aðstoð góðra jafnaðarmanna.

Kristján Pétursson, 17.3.2007 kl. 23:32

5 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Margrétar verður saknað af þingi, það er enginn vafi, enda líklega ein af þeim fáu á þingi sem maður hefur á tilfinningunni að hafi raunverulega sannfærinu í málum.

Það er nú reyndar svo að öllum finnst pólitíkusar sem eru að hætta, eða eru hættir, vera framúrskarandi á öllum sviðum. Þannig töluðu alltí einu allir vel um Jón Baldvin þegar hann hætti, Guðmund Árna, Davíð Oddson... og svona mætti lengi telja.

Guðmundur Örn Jónsson, 17.3.2007 kl. 23:42

6 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Já frábær kona og mikil eftirsjá af henni úr þinginu , en hún er nú ekki hætt í Samfylkingunni.

Tómas Þóroddsson, 17.3.2007 kl. 23:42

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin

Björg: Takk fyrir góð orð um skrifin.

Þrymur: Já, ég held að þeim muni muna um hana t.d. á Suðurlandi í þessum kosningum. Það er enginn vafi að forysta hennar tryggði þeim þetta góða kosningu þar síðast.

Jenný Anna: Já, mér hefur alltaf fundist Margrét vera fínn stjórnmálamaður. Hún hefur verið sannfærandi og öflugur stjórnmálamaður með hugsjónir. Það eru því miður alltaf að fækka í þeim hópi á Alþingi að mínu mati.

Steini: Já, það munar alltaf um þá sem hætta vissulega, en alltaf koma aðrir í staðinn. En ég held að engin kona taki sess MF í kvennaarminum úti á landi, enda er engin kona þar í alvöru sæti. Soundspell er flott hljómsveit, er einmitt með þá sem vini á vef mínum á myspace, sem er www.myspace.com/stebbifr.

Kristján: Já skarð hennar er mikið og vandfyllt tel ég.

Guðmundur Örn: Já það á alltaf að skrifa vel um þá sem hætta. Þó deila megi um skoðanir munar alltaf um farsæla stjórnmálamenn og þá sem lengi hafa unnið. Þeir eru margir öflugir stjórnmálamennirnir sem sitja nú sinn síðasta þingfund.

Tómas: Ekki er hún hætt en ég held að flokknum muni um hana. En þetta er kona sem unnið hefur lengi í stjórnmálum og verið áberandi. Þó hún hætti tiltölulega ung á hún merkan feril að baki.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.3.2007 kl. 23:56

8 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Ef Margrét hefði tekið það að sér að vera formaður samfylkingarinnar þegar eftir því var leitað, þá væri alveg öruggt að staða samfylkingarinnar væri betri í dag en hún er.

Að mínu ályti er hún lang frambærilegasti þingmaður samfylkingarinnar og hef ég lengi sagt það, ekki bara af því að hún er að hætta

Ágúst Dalkvist, 18.3.2007 kl. 00:00

9 identicon

Flott hjá þér að vera með Soundspell á Vinalínunni, Stebbi minn.

Þeim tókst barasta að hespa þetta af niðri á þingi á slaginu á miðnætti! Fimmtíu atriði á fimm tímum! Þetta er eins og jólasveinninn á Aðfangadagskveldi og það án Rúdólfs með rauða nefið og hinna hreindýranna við Kárahnjúka!

Steini Briem (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 00:17

10 identicon

Það er mikil eftirsjá í Margréti , hún er glæsileg kona, stóð sig vel fyrir sinn flokk og skarð hennar verður vandfyllt. Flokkurinn er veikari eftir að hún er hætt.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband