Sólveig Pétursdóttir flytur kveðjuræðu á Alþingi

Sólveig PétursdóttirSólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, er nú að flytja síðustu þingræðu sína og kveðjuorð fyrir hönd þingsins, en þinglok verða eftir nokkrar mínútur. Sólveig á að baki nokkuð merkan feril í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur vissulega verið umdeildur stjórnmálamaður en verið kjarnakona í stjórnmálum. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík 1986-1990 og formaður í borgarnefndum það kjörtímabil.

Sólveig tók sæti á Alþingi í ársbyrjun 1991 þegar að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrum borgarstjóri og menntamálaráðherra, varð seðlabankastjóri við fráfall Geirs Hallgrímssonar. Sólveig var formaður allsherjarnefndar árin 1991-1999 og varð dómsmálaráðherra í maílok 1999 í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Sólveig varð með því önnur konan á stóli dómsmálaráðherra.

Ráðherratíð hennar varð stormasöm og nægir að nefna málefni Falun Gong sem eitt hið erfiðasta á hennar ferli í dómsmálaráðuneytinu. Sólveig missti ráðherrastól sinn í kjölfar kosninganna 2003 og varð 3. varaforseti Alþingis. Hún var kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals þann 1. október 2005.

Ég vil þakka Sólveigu kærlega fyrir góða forystu innan flokksins og sérstaklega góð samskipti við mig persónulega þegar að ég bað hana að rita gestapistil á vef SUS haustið 2005, skömmu eftir að hún var þingforseti. Sá pistill hét; Þankar um starfshætti Alþingis

Takk fyrir allt, Sólveig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Flottur ferill, nema Falun Gong og pappalöggur.

Tómas Þóroddsson, 18.3.2007 kl. 00:42

2 identicon

Já og varðskipið sem hún hætti við að láta smíða.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 01:17

3 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Á svona stundu segir maður bara, kærar þakkir Sólveig fyrir þitt blóð, þinn svita og þín tár.

Sigfús Sigurþórsson., 18.3.2007 kl. 01:17

4 identicon

Það er nú varla hægt að segja "blessuð sé minning hennar", þar sem Sólveig segist ætla að vera áfram í pólitík. Og það er ekki hægt að líta framhjá því að olíusamráðsmálið hlýtur að hafa verið mjög erfitt fyrir hana undanfarin ár, þar sem hún er gift Kristni Björnssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs. Enda þótt olíuforstjórarnir þrír hafi tautað einhverja "afsökunarbeiðni" í barm sér fyrir að hafa stolið vísvitandi milljörðum af öllum almenningi og fyrirtækjum í landinu, eftir að hafa harðneitað lengi vel að samráð á milli þeirra hafi átt sér stað, er það svipað og Þorgeir Hávarsson hefði sagt "úpps, sorrí!" eftir að hafa höggvið af einhverjum hausinn "af því að hann lá svo vel við höggi".

Samkeppnisráð ákvað að beita stóru olíufélögin þrjú viðurlögum sem námu 1.100 milljónum króna á hvert þeirra og sagði ráðið að þessi þungu viðurlög endurspegluðu meðal annars ávinning félaganna af ólögmætu samráði þeirra sem varlega væri metið á að minnsta kosti 6,5 milljarða króna á því tímabili sem rannsókn samkeppnisyfirvalda náði til. Við ákvörðun stjórnvaldssekta var einnig höfð hliðsjón af umfangi samráðsins, brotavilja olíufélaganna, þjóðhagslegt mikilvægi þeirrar vöru sem um væri að ræða og stöðu olíufélaganna á markaði fyrir fljótandi eldsneyti.

Steini Briem (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 01:25

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Alþingi er eftirsjá að Sólveigu Pétursdóttur, hún á heiður og þökk skilið fyrir störf sín þar.

kv.gmaria. 

Guðrún María Óskarsdóttir., 18.3.2007 kl. 01:33

6 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Mér er sagt af þeim sem betur þekkja til en ég að Sólveig hafi gert marga góða hluti sem dómsmálaráðherra og komið góðum málum í gegn. Samt virðist það vera þannig að það sem fólk man eru pappalöggurnar og Falun Gong. Kannski ættum við kjósendur að reyna að horfa meira í það jákvæða í staðinn fyrir að einblína alltof oft á það neikvæða. Tek það samt fram að ég er ekki að meina að við eigum ekki að gagnrýna stjórnmálamennina heldur bara að muna einnig eftir því sem vel er gert.

Björg K. Sigurðardóttir, 18.3.2007 kl. 02:14

7 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Gott hjá þér Guðrún, sumir eru bara alltaf í fílu og þurfa alltaf að vera að aggnúast útí allt og alla og sést það vel á Athugasemdum Steina hingað og þangað hér á blogginu.

Fyrirgefðu stefán að ég er svara Guðrúni.

Sigfús Sigurþórsson., 18.3.2007 kl. 02:33

8 Smámynd: Rúnar Þórarinsson

Sæll Stebbi.

Smávegis athugasemd.  Sólveig er ekki fyrsta kona til þess að gegna embætti dómsmálaráðherra.  Sú fyrsta var Auður Auðuns en hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra frá okt. 1970 til júlí 1971 en Auður var jafnframt fyrst kvenna til þess að gegna stöðu ráðherra.  Annars get ég tekið undir með mörgum um það að Sólveig er búinn að vera mjög öflugur stjórnmálamaður í gegnum tíðina.  Hún var t.d. í 8 ár formaður alsherjarnefndar þingsins og stóð sig mjög vel þar og kom af stað mörgum góðum þjóðþrifamálum.

Rúnar Þórarinsson, 18.3.2007 kl. 10:24

9 identicon

Sólveig Pétursdóttir er stórglæsileg kona, hún hefur notið mikillar virðinar innan sem utan flokks og hefur leyst þau verkefni sem henni hafa verið falin á mjög farsælan máta.

Hún getur litið yfir sinn stjórnmálaferil og verið afar sátt.

Takk fyrir Sólveig.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 11:38

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Þakka sérstaklega Rúnari fyrir leiðréttinguna. Skil engan veginn í mér að gleyma því að Auður blessunin var dómsmálaráðherra. Ég hef margar greinar skrifað í gegnum tíðina og minnst forystu Auðar innan Sjálfstæðisflokksins. Hún braut blað í stjórnmálasögu landsins fyrir að vera fyrsti kvenkyns ráðherrann og borgarstjórinn. Skil ekki í mér að gleyma því. Skrifaði meira að segja langa grein um Auði og framlag hennar í stjórnmálum fyrir tveim árum. Bendi hérmeð á þá grein

Framlag sjálfstæðiskvenna - heiðrum minningu Auðar

Þakka annars önnur komment og góð orð. Þó ég hafi ekki alltaf verið sammála Sólveigu sé ég eftir henni úr stjórnmálum. Hún var lengi forystukona innan flokksins og má eiga heiður og þökk fyrir allt sem hún hefur gert fyrir flokkinn og hún gerði margt eftirminnilegt, sérstaklega á nefndasviðinu sem formaður allsherjarnefndar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.3.2007 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband