Steingrímur J. fetar í fótspor Ólafs Ragnars

Steingrímur J. SigfússonÞað hafa allir tekið eftir því að Steingrímur J. Sigfússon hefur skipt mjög um gír. Hann leikur nú landsföðurtýpu af rólegu og yfirveguðu gerðinni - túlkar lykilforystumann til vinstri í taktföstu sólóspili. Þetta kristallaðist vel er hann eiginlega var rólegastur allra í pólitíska karpinu í Silfri Egils um síðustu helgi. Svo virðist sem að Steingrímur J. sé að feta í fótspor Ólafs Ragnars Grímssonar, hins forna samstarfsmanns í blíðu og stríðu í innanflokkserjum í Alþýðubandalaginu, í að leika fágaðan og rólegan statesman á örlagastundu ferils síns.

Fyrir ellefu árum breyttist Ólafur Ragnar úr pólitískum vígamanni í ljúfasta lamb sem lækkaði röddina og var orðinn hinn mjúki og yfirvegaði maður. Sú karakterbreyting tryggði honum umfram allt mjúka vist á Bessastöðum, tækifæri ferilsins til að leika leiðtoga. Á einni nóttu laðaði hann til sín fylgi úr öllum áttum; meira að segja fólk sem aldrei hefði dottið í hug að kjósa hann fyrr. Stór þáttur þessa var vissulega eiginkona Ólafs Ragnars, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, sem heillaði þjóðina upp úr skónum, en breytingin á hjúpnum utan um persónu hans spilaði líka lykilþátt í því hversu vel honum gekk. Það kom einfaldlega til sögunnar ný týpa.

Allir sem sáu eldhúsdagsumræður á þingi fyrir viku sáu Steingrím J. með skrifaða ræðu. Hann var eins og nýr maður. Byrjað var að lesa fallegt ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Steingrímur J. kom bjartsýnn og undirbúinn, eiginlega í stífelsisbúningi. Þeir sem hafa upplifað stjórnmálin hér undanfarin ár við bardagamanninn og strigakjaftinn Steingrím J. kipptust nokkuð við, enda kom þarna allt önnur týpa og mjög niðurtónuð. Þarna kom forsætisráðherraefni vinstri grænna. Staða VG er orðin þannig í dag að hann er í versta falli á pari við Samfylkinguna, ellegar hreinlega orðinn stærri. Það eru ný tíðindi og á það er sett ný nálgun. Nú er Steingrímur J. kominn með annan verðmiða og það á greinilega að sýna vel að þar fari leiðtogi í þungavigt.

En tekst þessi markaðssetning? Allir sem hafa lesið pólitíska ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, fráfarandi alþingismanns, sjá beiska sýn á þennan stjórnmálamann sem hún vann svo lengi með í Alþýðubandalaginu. Margréti tókst að leggja hann í póstkosningu innan Alþýðubandalagsins um eftirmann Ólafs Ragnars Grímssonar á formannsstóli og marka sér sess. En Steingrímur fetaði eigin leiðir eftir það og er nú tólf árum síðar orðinn aðalleikari til vinstri, hærra verðlagður en gamla vonarstjarnan í Samfylkingunni sem hefur upplifað sannkallaða kreppu allt frá því að hún yfirgaf borgarstjórastól í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Margrét Frímannsdóttir lýsir Steingrími J. ekki beint sem femínista og umhverfisverndarsinna í pólitísku ævisögunni, öðru nær. Þar er talað mjög kalt og ákveðið um þennan mann sem nú virðist hafa tekið allt vinstrilitaðasta fylgið til sín. Enda er við því að búast að þeir sem nú stjórna flokknum hennar hjóli nú í Steingrím. Ekki nema von að Margréti sárni; hann hefur stofnað hið nýja Alþýðubandalag, hefur tekið allt þetta fylgi frá Samfylkingunni. Það sem meira er að hann sækir líka annað. Þetta er orðinn örlagavaldur að óbreyttu í íslenskum stjórnmálum. Slík fylgisaukning yrði söguleg og tryggði bændasyninum frá Gunnarsstöðum lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum.

Hann er kominn í rulluna og hefur breytt sér. En ætla kjósendur að gleypa við þessari túlkun? Samþykkja að Steingrímur J. sé orðinn rólegur statesman? Kannski verður þetta stóra spurning kosningabaráttunnar að þessu sinni. Hver veit? Kannski mun svona karakterbreyting, extreme makeover, verða honum jafnfarsæl og pólitíska refnum á Bessastöðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Kannski ætlar hann að hafa forsetaembættið í bakhöndinni ef hann fær ekki forsætisráðherrastólinn. Líklegt hlýtur að teljast að Ólafur standi upp úr honum á næsta ári.

Ágúst Dalkvist, 21.3.2007 kl. 15:07

2 identicon

Frábær greining á helsta óvin frelsisins.

Guð forði okkur frá því að hann verði forsætisráðherra. 

Unnþór (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 15:30

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg mundi nu segja að Steingimur væri vel gefin maður mjög,en þetta er svona það fylgir þvi oft að vera þver mjög!!!!!!/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 21.3.2007 kl. 15:34

4 identicon

Já, nú munu allir Sjallarnir kjósa Steina.

Steini Briem (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband