Chirac lýsir yfir stuðningi við Sarkozy

Sarkozy og Chirac Jacques Chirac, forseti Frakklands, lýsti í dag yfir stuðningi við Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra, sem eftirmann sinn í forsetakosningunum eftir mánuð. Beðið hafði verið lengi eftir því að þessu kæmi, en mjög athyglisvert þótti þegar að Chirac forðaðist að nefna slíkan stuðning fyrr í þessum mánuði er hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Mun Sarkozy yfirgefa ríkisstjórnina á mánudag og helga sig kosningabaráttunni.

Hvorki Chirac né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, tjáðu nokkurn stuðning við Sarkozy fyrr en nú, en forsætisráðherrann tilkynnti um stuðning við Sarkozy þann 12 mars sl, degi eftir ræðu forsetans. UMP-hægriblokkin var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti og eiginlega má segja að völdin hafi hægt og hljótt fetað frá forsetanum og til innanríkisráðherrans klóka. Hann stendur nú eftir sem óskoraður leiðtogi franskra hægrimanna.

Það bauð sig enginn fram gegn Sarkozy innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Sarkozy var svo staðfestur sem forsetaefni hægriblokkarinnar í janúar. Hann hlaut þó aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningunni sem fram fór. Það þótti mikið áfall, enda sagði það með afgerandi hætti að hann væri ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar og armur forsetans horfði þögull á útnefningarferlið sem byggði upp Sarkozy sem leiðtoga hægriblokkarinnar. Allt fram til þessarar stundar hafa lykilmenn forsetans ekki útilokað að hann færi fram sem óháður, en hann bakkaði út með nokkrum glans þó. Vill hann væntanlega tryggja einingu nú.

Það hefur verið greinilegt kalt stríð milli aðila og farið eiginlega sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund og lok kjörtímabils forsetans. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Raffarin og skyldi velja Villepin. En nú á að grafa stríðsaxir og allt traust er nú lagt á að Sarkozy haldi hægrimönnum við völd. Hægrimenn halda sameinaðir til kosninga. Það er gleðiefni.

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram eftir mánuð. Þar eru tólf frambjóðendur í kjöri. Lengst af þótti öruggt um að Sarkozy og Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, myndu berjast um forsetaembættið. Nú hefur hinsvegar miðjumanninum Francois Bayrou tekist að saxa á þau og virðist eiga raunhæfa möguleika á að slá annað þeirra út. Nýjustu kannanir sýna að möguleikar hans aukast til muna nái hann í seinni umferðina. Hann myndi sigra hvort þeirra sem væri við þær aðstæður. Sarkozy hefur haft forskot á Royal nú um nokkuð skeið.

Þetta verða svo sannarlega spennandi kosningar. Fróðlegt verður að sjá hver mun hljóta kjör á forsetastól og ríkja í Elysée-höll frá 17. maí, er Chirac hverfur af hinu pólitíska sviði. Verður seinni umferðin Sarko-Sego stund eins og svo lengi hefur verið spáð, eða mun Bayrou koma á óvart? Með þessum kosningum verður víða fylgst enda er forseti Frakklands einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims.

mbl.is Chirac lýsir yfir stuðningi við Sarkozy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eggjaleiðari dagsins:

Sá á hund sem finnur.

Steini Briem (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband