Hægri grænir slá út frjálslynda - spennandi óvissa

Forysta ÍslandshreyfingarinnarÞað er fróðlegt að rýna í nýjustu könnun Fréttablaðsins. Þar mælist Íslandshreyfingin í fyrsta skipti, hlýtur þar 5% fylgi og þrjú þingsæti á meðan að Frjálslyndi flokkurinn dalar enn og hreinlega þurrkast út með rúmlega 4% fylgi. Það er þó svo lítill munur á þessum tveim flokkum að nær ómögulegt er um að segja hvor flokkurinn er að mælast inni eða hvort að þeir nái inn yfir höfuð. Þeir gætu slegið hvorn annan út.

Það eru vissulega tíðindi að sjá loksins einhverja mælingu á Íslandshreyfinguna. Eftir því hefur verið beðið nokkurn tíma. Ekki er þetta nógu sterk innkoma fyrir nýjan flokk. Nýjir flokkar hafa áður komið mun sterkar fram og keyrt stærri til leiks. En þetta er vissulega svo nýlega tilkomið stjórnmálaafl að fleiri mælingar þarf til. Enn á þessi flokkur eftir að sýna tromp sín í mannvali og áherslulínur. En það hlýtur þó að vera þeim vonbrigði að vera ekki að skora hærra strax í upphafi. En næsta könnun segir söguna þó enn betur vissulega.

Samfylkingin hækkar örlítið í þessari könnun. Enn er þó þessi stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins um þessar mundir að mælast tíu prósentustigum undir kjörfylginu árið 2003, mælist nú með 21% slétt. Hann fengi fjórtán þingmenn í þeirri stöðu. Fyrir helgina mældist Samfylkingin með innan við 20% fylgi hjá Gallup og 13 þingsæti. Sú mæling var þeim mikið högg, enda missa þeir fimm sitjandi þingmenn í þeirri stöðu og hafa aðeins þrjár konur inni. Slík mæling yrði þeim áfall, einkum við þær aðstæður að þetta er flokkur sem aldrei hefur verið í ríkisstjórn og ætti að vera með ágæta stöðu. Hann á við víðtækan vanda að stríða, sérstaklega virðist þjóðin ekki treysta forystu hans.

VG virðist vera að dala á tilkomu Íslandshreyfingarinnar. Flokkurinn missir aðeins flugið milli kannana. Hann mælist þarna með 23,3% og 16 þingmenn. Það verður þó seint metið mikið áfall, enda myndi slík mæling verða stórsigur fyrir VG, sem fékk innan við 10% í kosningunum 2003. Virðist VG vera að að haldast mjög vel á fylgi sínu miðað við allt, þó að merki þess sjáist þarna að VG hafi náð fylgistoppi og farin að síga niður. En það verður fróðlegt að sjá í næstu könnun hvort að Íslandshreyfingin eigi eftir að taka meira af vinstri grænum en er í þessari könnun.

Sjálfstæðisflokkurinn lækkar örlítið milli kannana. Hann mælist með 36,1% fylgi, og 24 þingsæti, örlitlu yfir kjörfylginu 2003. Framsóknarflokkurinn er svo á svipuðum slóðum, mælist með 9,4% og 7 þingsæti. Þeir eru að verða nokkuð fastir með fimm til sex þingsæti í mælingum. Stjórnin mælist því fallin, með 30 þingsæti á meðan að stjórnarandstaðan, plús Íslandshreyfingin, hefur 33 þingsæti. Staðan er mjög tvísýn og öllum ljóst að mjög spennandi kosningabarátta er framundan. Það eru fáir sem vita allavega hvað gerist á næstunni. Mörg athyglisverð spurningamerki.

Íslandshreyfingin slær út Frjálslynda flokkinn, en fær samt ekki sterka mælingu eftir allar vangavelturnar um stöðu þess. Næstu kannanir verða þó merkilegar og með þeim verður fylgst. Ég lenti í þessari skoðanakönnun og fékk hringingu laust fyrir hádegið í gær. Þar var spurt um flokk, hvað ég teldi lykilkosningamálin að þessu sinni og um afstöðu til stækkunar álversins í Straumsvík, en þýðingarmikil kosning um það mál fer fram á laugardag. Það verður fróðlegt að sjá hvernig útkoman var í þessum spurningum. Fáum væntanlega brátt að heyra af því

En staðan er spennandi í stjórnmálunum. 48 dagar í kosningar og spennan að magnast upp. Það er allt galopið og fylgið á miklu flugi. Þetta verður áhugaverð kosningabarátta fyrir stjórnmálaáhugamennina, enginn vafi á því.


mbl.is Íslandshreyfingin með 5% fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Þessar speglasjónir þínar um fylgisbreytingar frá einni Fréttablaðskönnun til annarrar eru tóm vitleysa. Ef þú tekur tillit til þess hver vikmörkin eru þá sérðu strax að þú getur ekki dregið neinar ályktanir um að fylgi flokkanna sé eitthvað að breytast og þar með styrkleikahlutföll þeirra ekki heldur. Fylgi Íslandshreyfingarinnar er ekki nógu mikið í þessari könnun til að hafa nein áhrif á þetta. Vek athygli þína á bloggi mínu í kvöld. Kær kveðja.

Pétur Tyrfingsson, 25.3.2007 kl. 23:35

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Vandamál Samfylkingarinnar er skortur á kynþokka og óspennandi nafn.  Ef Ingibjörg Sólrún fengi hárkolluna hans Dabba lánaða og kallaði flokkinn sinn Grænir fingur væri staðan sennilega betri.

Björn Heiðdal, 25.3.2007 kl. 23:37

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Pétur: Þetta er algjör óvissa, enda segir svo í fyrirsögninni á skrifunum. En menn bera auðvitað saman þessa og síðustu könnun. Annars er auðvitað best að miða við kosningarnar 2003, stöðuna þarna samanborið við hana. Þannig var staðan síðast og menn bera saman við það, ekki annað. En þetta eru auðvitað bara pælingar hjá mér. Þessar kannanir eru bara vísbendingar. Það eru sjö vikur til kosninga og það veit enginn hvað gerist með vissu. Enda segir svo í skrifunum. Kannanir eiga enn eftir að rokkast mikið til.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.3.2007 kl. 23:40

4 identicon

Já, það er ekki Björgulegt ástandið hjá Frjálsblindum þegar Jón Magnússon heldur framhjá með Boggu, Pétur! Enda þótt þessi "munur" í skoðanakönnun á milli Frjálsblindra og Íslandshreyfingarinnar segi ekkert í raun er ég farinn að halda að hún hafi þetta á lokasprettinum gegn Frjálsblindum, þannig að þeir nái ekki manni inn á þing, enda er Ómar fljótur að hlaupa. Og þá verður væntanlega annað hvort mynduð hér "vinstri græn stjórn" með Framsókn eða "hægri græn stjórn" með Ómari. Eða þannig sko!

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:03

5 identicon

Trúa menn því í alvöru að eitthvað sé að breytast í pólitíska landslaginu? Nánast frá upphafi vega hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur getað myndað saman ríkisstjórn. Af því varð hins vegar ekki fyrr enn vinstraliðið í framsókn var ofurliði borið. Það gerðist þegar Halldór tók við af Steingrími. Eftir þessum aðstæðum biðu leiðtogar Sjálfstæðisflokksins alltaf og eftirleikinn þekkjum við. Þekkt er að Framsóknarflokkur mælist alltaf lakar í skoðanakönnunum, en í kosningum. Líka er þekkt að Sjálfstæðisflokkurinn mælist iðulega nokkru hærra í skoðanakönnunum en kosningum. Jafnframt er þekkt að "óróleikaframboð" mælast hátt í skoðanakönnunum. Þannig var um Þjóðvaka, Bandalag jafnaðarmanna og ýmsa fleiri. Vg, sem við getum kallað "óróleikaframboð" skoðanakannanna nútímans, mun ekki fá meira en 15-18% atkvæða í kosningum. En slíkur árangur er góður u.þ.b. 100% fylgisaukning. Íslandshreyfingin veldur hins vegar vonbrigðum þeim er henni stjórna. Landsmönnum er það auðvitað ljóst að óþarft er að bjarga Íslandi úr klóm umhverfissóða, með sérstöku framboði. Umhverfisvandinn blasir ekki við og heimurinn er ekki að farast, þótt sumir vilji láta kjósa sig til trúnaðarstarfa í þeim tilgangi að bjarga heiminum. Áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka er í reynd ekki slæmur kostur og ég geri ráð fyrir því að hann muni blasa við eftir næstu kosningar. Það er svo allt annað mál hvort Sjálfstæðisflokkurinn telur skynsamlegt að halda samstarfinu áfram. Um það hafa margir efasemdir. Þó þykir mér sem áhorfanda Ósk Vilhjálmsdóttir miklu áhugaverðara forustuefni, en hin "unga og efnilega" Margrét Sverrisdóttir.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:40

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Kvitt þetta Stefán getur allt verið svona en samt er þetta ekki komið á rett ról/Islandshreifingi er alveg ny og þetta er ekki að marka strax/Næst eða þar næsta könnun veður marktækari!!!Kveðja/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 26.3.2007 kl. 01:31

7 identicon

Mér finnst merkilegt að allar fréttir og blogg benda réttilega á að stjórnin sé fallin, en hinsvegar er yfirleitt talað um að stjórnarandstaðan hafi 33 þingmenn. Hið rétta er að samkvæmt þessari könnun fær ríkisstjórnin 30 þingmenn og stjórnarandstöðuflokkarnir 30 þingmenn líka. Nýr flokkur tekur alla þingmenn frjálslyndra. Því er staðan milli stjórnar og stjórnanrandstöðu jöfn. Það má svo aftur halda því fram að XÍ sé vissulega í andstöðu við stjórnina, en hitt er engu að síður satt að sitjandi stjórnarandstaða fær jafnt marga menn og stjórnin.

Freyr (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband