28.3.2007 | 15:27
Hörð barátta í Norðaustri - sótt mjög að VG
Það blasir við eins og staðan er nú að að mikil barátta verði hjá öllum flokkum gegn VG í Norðausturkjördæmi - þar verði hjólað af fullum krafti gegn Steingrími J. Sigfússyni. Kosningabaráttan er að hefjast af krafti, kannanir sýna gríðarlega fylgisaukningu VG í kjördæminu í nýjustu könnun Gallups. Þar mælist VG með fjóra kjördæmakjörna menn af níu og 36% fylgi. Má öllum vera ljóst að spjótin munu standa gegn VG í þeirri stöðu og má eiga von á harkalegri kosningabaráttu.
Steingrímur J. Sigfússon er orðinn aldursforsetinn á svæðinu í framboðsmálum. Það blasir við að eftir þingkosningarnar í vor hefur aðeins Jóhanna Sigurðardóttir setið lengur á þingi. Steingrímur J. var fyrst kjörinn í þingkosningunum 1983, þá aðeins 27 ára gamall. Það voru t.d. aðrar kosningarnar hans Halldórs Blöndals á þingi, Valgerður Sverrisdóttir var ekki komin til sögunnar sem þingmaður en var varaþingmaður fyrsta tímabil Steingríms og Ingvar Gíslason leiddi framsóknarmenn. Stefán Valgeirsson var einn héraðshöfðingjanna og Lárus Jónsson leiddi þá sjálfstæðismenn.
Aðrir sem voru þá framarlega í pólitík hafa fyrir lifandis löngu kvatt stjórnmálin og eru ekki í minni yngstu kjósendanna. Ár og dagar hafa liðið. Enda spyrja sig margir nú; verða þetta kosningarnar hans Steingríms J? Hann hefur verið lengi í stjórnmálum. Sem dæmi má nefna að hann hefur verið í stjórnarandstöðu í 21 ár af þeim 24 árum sem hann hefur setið á þingi. Honum hefur þó tekist að verða ráðherra, en hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Það voru semsagt tíu ár sem liðu frá því að Steingrímur J. varð ráðherra og þar til að Valgerði Sverrisdóttur tókst það. Hún er nú orðin þaulsetnasta konan í ríkisstjórn í sögu Stjórnarráðsins.Eins og mælingin lá síðast hjá Gallup var Samfylkingin í tómu tjóni; orðin minnst fjórflokkanna sem mann eiga nú í Norðausturkjördæmi og mældist aðeins með einn þingmann; leiðtoga sinn, Kristján L. Möller. Þar virðist Samfylkingin vera að veslast algjörlega upp og VG að græða mjög á fylgisaukningunni. Kunnugir velta mjög vöngum yfir því hvort að Samfylkingin á Akureyri sé að hrapa og missa mikið fylgi yfir til VG. Tapar Samfylkingin á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hér?
Flestum þykir fylgisaukning þeirra liggja altént mjög í Eyjafirði. Sé svo er erfið barátta framundan fyrir Samfylkinguna og hörð barátta milli vinstriaflanna um vinstrafylgið. Þar virðast átök þeirra liggja. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin tvo menn inn og var á mörkum þess að ná þeim þriðja. Í nýjustu mælingum er Einar Már fallinn og Lára Stefánsdóttir mjög fjarri því að ná inn. Það má því búast við að þau reyni að heilla hörðustu vinstrimennina aftur heim fyrir kosningar; með öðrum orðum, hjóla í Steingrím J. Einfalt það!Síðustu mánuði hefur Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, verið að mælast sem fyrsti þingmaður kjördæmisins og sjálfstæðismenn rokkað á milli þess að hafa þrjá eða fjóra þingmenn en ávallt með leiðandi stöðu frá prófkjörssigri Kristjáns Þórs í nóvember þar til nú. Hans markmið virðist skýrt; fyrsta þingmannssætið tryggt þeim og að ná í ofanálag 30% fylgi; semsagt bæta miklu við sig og negla þriðja mann inni og reyna við þann fjórða.
Það hljóta að teljast gríðarleg vonbrigði fyrir Kristján Þór að sjá þessa mælingu Steingríms J. og VG nú, enda er öllum ljóst að það mun hafa mikil áhrif á stöðu Kristjáns Þórs sem ráðherraefnis hvort hann verði fyrsti þingmaður kjördæmisins eður ei. Fái flokkurinn ekki umtalsverða sveiflu frá síðustu kosningum sem voru flokknum mjög vondar eru ráðherradraumar hans algjörlega úti. Að því verður barist hjá sjálfstæðismönnum; tryggja forystu í kjördæminu og að leiðtoginn fái ráðherrastól. Í öllum könnunum eru sjálfstæðismenn að bæta við sig þónokkru og aðeins spurning um það hversu mikið fylgið aukist.Framsóknarflokkurinn hefur mælst að undanförnu með tvo menn á svæðinu, missir samt sem áður tvo þingmenn, sem verður þeim vissulega mjög mikið áfall. Framsóknarmenn gera sér vel grein fyrir því að fjórða þingsætið síðast var óvæntur happdrættisvinningur sem þeir geta ekki gert sér vonir um að hljóta aftur. Í síðustu kosningum var Dagný Jónsdóttir stjarna. Á þeim ljóma komst Birkir Jón líka inn á þing, mörgum að óvörum.
Nú leggur Framsókn allt kapp sitt á að tryggja Akureyringinn Höskuld Þórhallsson inn á þing úr þriðja sætinu. Það yrði túlkað sem mikill varnarsigur næðist það, enda virðist fyrsta þingmannssætið að öllum líkindum fallið Valgerði Sverrisdóttur nú úr greipum. Hún þarf eiginlega pólitískt kraftaverk, eins og síðast, til að verja það. Segja má að Valgerður spili vörn, enda verður fyrri árangur ekki toppaður. Því verði reynt að ná inn þriðja manni og varnarsigri eftir vondar mælingar. Eins og allir vita hér er vonlaust að útiloka að Framsókn eflist. Það segir sagan okkur mjög vel!Samkvæmt skoðanakönnunum eiga frjálslyndir erfiða baráttu framundan. Þeir hafa ekki mælst með mann inni og aldrei fengið þingmann á þessum slóðum. Sigurjón Þórðarson berst fyrir því að halda þingsæti sínu og virðist eiga langt í land skv. síðustu skoðanakönnunum. Hann komst síðast inn með Guðjóni Arnari en verður nú einn að leiða kosningabaráttu, berjast fyrir sætinu sínu á nýjum slóðum.
Ekki er enn vitað hver leiðir framboð Íslandshreyfingarinnar, en hún segist bjóða fram í öllum kjördæmum eins og flestir vita. Það verður fylgst vel með því hér um slóðir. Ekki hafa margar sögur heyrst, en þó hefur heyrst að Jakob Frímann Magnússon fari fram hér í fylkingarbrjósti. Ekki er þó hægt að fullyrða það svosem. Flokkurinn hefur ekki mælst hér - er hér óskrifað blað algjörlega.
Eins og staðan er nú er baráttan á milli VG annarsvegar og svo allra hinna aflanna í raun. Merkileg staða það. Hörð barátta. Staða VG er með þeim hætti að allir sækja að þeim. Þeir hafa enda bætt svo miklu við sig að þeir hafa verið sem ryksuga um allt við að safna fylgi úr öllum áttum, nema að því er virðist úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru því mjög stórir nú og allir flokkar, einkum Samfylkingin og Framsókn, sækja að því að taka fylgið frá þeim sem þeir hafa áður tekið úr þeirra átt.
Í síðustu kosningum voru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur meginpólarnir. Kannanir lágu þannig óralengi að það væri staða mála hvort að Halldór Blöndal eða Kristján Möller yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Átökin voru enda mikil milli flokkanna alla baráttuna. Framsókn fékk með því nokkuð fríspil og tókst með því að skjótast verulega framúr það sem flestir töldu stærstu flokkana; sótti mikið fylgi á lokasprettinum.
Framsókn náði því að skáka báðum þessum flokkum og hlaut um tíu prósentustigum meira en þeir; urðu sigurvegarar kosninganna. Það gerist varla núna. En aðeins munaði 41 atkvæðum þó á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu er á hólminn kom. Sjálfstæðisflokkurinn rétt marði því stöðu sem næststærsti flokkurinn og Halldór Blöndal varð annar þingmaður kjördæmisins. VG var þá fjarri öllum slíkum markmiðum. Staða þeirra nú er því mjög athyglisverð - allt önnur vissulega.
Að VG verður mjög sótt. Það sést vel á byrjun kosningabaráttunnar. En það eru enn tæpar sjö vikur til kosninga og allt getur gerst. Það vitum við sem unnum í baráttunni síðast. Engum, nema kannski framsóknarmönnum, hefði órað fyrir á sama tíma fyrir kosningarnar 2003 að þeir hlytu svo sterka stöðu og fjóra þingmenn. Það er ekkert öruggt í þessum bransa.
Þetta verða spennandi kosningar - mikil barátta og beitt átök. Svo mikið er allavega víst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Facebook
Athugasemdir
Yfirgripsmikill og góður pistill frá þér Stefán eins og þín er von og vísa;-) Það eru skemmtilegir tímar framundan.
Lára Stefánsdóttir, 28.3.2007 kl. 15:37
Með Kristján L. Möller forsvari á Samfylking ekki góða möguleika. Hann talar fyrir hagsmunum smábæjar á jaðarsvæði og hefur átt erfitt með að tala fyrir hagsmunum meginhluta kjósenda á NA-landi.Samfylkingin mun sjá eftir beinskeyttari talsmanni til að leiða listann?sp. ertu á launum við að blogga, þú ert að verða mín “sér-norðlenska” fréttaveita.
Tryggvi H., 28.3.2007 kl. 16:13
Það er tvennt í þessu sem mér finnst svolítið undarlegt. Í fyrsta lagi, af hverju allir ættu að hjóla í VG vegna góðs fylgis sem þeir mælast með í kjördæminu. Það hljómar einhvernvegin eins og einhverjir aðrir(BogD væntanlega) eigi einkarétt á forystu í Norðausturkjördæmi, væntanlega vegna hefðarinnar, en tímarnir breytast og fylgið með. Þá finnst mér einnig langsótt og undarlegt að telja það áfall fyrir Kristján Þór ef hann nær ekki að verða fyrsti þingmaður kjördæmisins. Kristján Þór er að koma nýr inn og miklu nær að kenna Halldóri Blöndal og öðrum núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um ef svo fer. Kjósendur hljóta þá að vera að hegna þeim en ekki nýjum frambjóðanda sem ekkert hefur til saka unnið.
leibbi (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 16:21
Takk fyrir kommentin.
Lára: Þakka fyrir góð orð. Þetta verður mjög spennandi. :)
Tryggvi: Kristján átti góðar kosningar síðast, virðist vera erfiðara fyrir hann núna, en enn er mesti þunginn eftir. Þau í Samfylkingunni munu eflaust reyna allt sitt til að sækja meira en þetta, enda yrði þetta mjög slæm staða fyrir þá að fá jafnvel annan mann með herkjum og missa flugið frá því síðast. Því miður fæ ég ekki borgað fyrir skrifin, það væri vissulega notalegt væri svo. Þetta er alfarið mitt áhugamál og hobbý, myndi ekki nenna þessu annars. Hef gaman af þessu, hef reyndar unnið að þessum pistli í tvo daga, ekki hrist úr erminni á hálftíma svosem. En maður verður rólegur í þessu í sumar. En það er gott ef aðrir hafa gaman af skrifunum og telja þetta góðu fréttaveitu að norðan.
Leibbi: VG er að stuða sérstaklega Framsókn og Samfylkingu með því að taka mikið þaðan. Þar verða talsverð átök. Sjálfstæðisflokkurinn virðist heilt yfir sigla lygnan sjó, en það er þó ljóst að verði nýjasta könnunin að veruleika er fylgisaukningin hverfandi og þriðji maðurinn er á fallanda fæti þar hjá D. Þannig að þetta verður spennandi. Kristján Þór verður að fá fyrsta þingmanninn til að verða öruggur með að verða ráðherra og helst fara upp í 30%. Það verður áfall fyrir hann náist það ekki, enda verður hann ekki ráðherra. Hann er andlit listans og það verður unnið vel þar, ef ég þekki þau rétt, að reyna að tryggja þann sigur. Tel þó nokkuð öruggt að KÞJ verði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Þau eru með sterkan lista og ættu að öllu eðlilegu að sækja fylgi vel um allt kjördæmið út á hann.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 28.3.2007 kl. 16:32
Góð greining Stebbi eins og þér er von og vísa. Varðandi Framsókn, þá gera þeir ekki meira en að hanga í tveimur mönnum og verður NA líklega eina kjördæmið sem þeir fá fleiri en einn þingmann. Það er mín spá með exbé að þeir fái ekkert "móment" eins og þeir náðu seinast, alveg sama hversu mikið sem þeir reyna að auglýsa. Það var "kúl" hjá sumum að kjósa B seinast, verður augljóslega ekki í ár. Formaðurinn kemst ekki einu sinni inn að mínu áliti.
VG er augljóslega á flugi og verður að teljast hreint ótrúlegt ef flokkurinn nær að verða sá stærsti í NA kjördæminu. Allt yfir 25% myndi teljast stórsigur fyrir flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn þarf líka að bæta sig, misstu mikið til Framsóknar í síðustu kosningum, en virðast ekki vera að taka mikið af því fylgi aftur til baka.
Guðmundur Auðunsson, 28.3.2007 kl. 18:01
VINSTRI GRÆNIR eru með pálmann í höndunum og Steingrímur verður fyrsti þingmaður kjördæmisins. VG fá stóran hluta af fylgi Framsóknar, sem segir okkur að mjög stór hluti Norðlendinga vill ekki sjá stóriðju á Norðurlandi. Valgerður leiðir hins vegar litlu Framsókn sem vill endilega hrúga upp álverstildri á Húsavík, sem enginn mannskapur er til að vinna í á svæðinu, enda frystihúsið rekið af útlendingum. Frjálsblindir fá örfá atkvæði frá óánægðum Sjöllum, sem eru á móti kvótakerfinu, eins og reyndar fólk í öllum flokkum, því 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti kvótakerfinu.
Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 19:30
Ég er bjartsýnn og hef fengið góðar viðtökur. Akureyringar eru mjög óhressir með óvissa stöðu Brims og vilja líka ná fram breytingum á skattakerfinu. Þeir vilja hækka skattleysismörk svo að láglauna- og meðaltekjufólk sé ekki lengur skattpínt af Sjálfstæðisflokknum.
Ég er sannfærður um að þú getur tekið undir ýmislegt af þessu. Ég skora á þig að merkja X-F í vor!
Sigurjón Þórðarson, 28.3.2007 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.