Björgunarþyrlu til Akureyrar - lausn í sjónmáli?

Kristján Þór JúlíussonEins og flestum er kunnugt hefur verið uppi sterk krafa héðan frá Akureyri um að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar skuli vera staðsett hér á Akureyri. Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar og fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, ítrekaði þessa skoðun sína og bæjaryfirvalda á Akureyri, allra bæjarfulltrúa og umfram allt skoðun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í sjónvarpsviðtali í vikunni.

Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er.

Það er algjör grunnkrafa við þau þáttaskil sem blöstu við eftir brotthvarf varnarliðsins og ljóst væri að fjölga yrði björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun. Það er algjört glapræði að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er nýja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar.

BjörgunarþyrlaÞað verður að dreifa kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum sem fylgir brotthvarfi Varnarliðsins rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla.

Skoðun Kristjáns Þórs Júlíussonar og afgerandi tal hans skiptir máli. Þó að kosningabarátta sé hér á fullu hafin er þetta mál sem er ekki flokkspólitískt. Það er skoðun allra hér, enginn vafi á því. Það að kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og lykilmaður í sveitarstjórnarmálum hér á Akureyri í áratug tali svo afgerandi mun vonandi verða til þess að höfuðborgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vakni til lífsins í þessu máli!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán.

Þetta er sko þörf umræða, þyrlur hafa oft ekki getað komist yfir landið vegna veðurs og jafnvel þurft að þræða ströndina norður í land. Það er alveg glórulaust að ætla að láta Landhelgisgæsluna reka 4 vélar og staðsetja þær allar á sama stað. Auðvitað væri best að vera með eina þyrlu á Akureyri, jafnvel aðra á Hornafirði og þá tvær í Reykjavík eða á Suðurnesjum. Svo er náttúrlega spurning, af hverju ekki bara að bjóða út þetta þyrlu/sjúkraflug? Sé ekki ástæðu til þess að ríkið reki þyrlur í þessu verkefni þegar einkaaðilar sjá annars um allt sjúkraflug á flugvélum.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 14:02

2 identicon

Þetta er nú ekki einfallt mál. Þyrlur eru erfið verkfæri og krefjast óhemju viðhalds.  Það að vera með 4 stk af björgunarþyrlum er aðeins "trygging" fyrir því að 2-3 séu flughæfar á hverjum tíma. Einnig kemur inní þetta mönnun vélanna og hún er mun kostnaðrminni ef þær eru á sama stað heldur en ef vélunum er dreift.  Hvort grundvöllur sé til að staðsetja vélar á Reykjavík, Akureyri, Egilsstöðum og hvað er gerlegt væri best að byggja á vandaðri þarfagreiningu en alls ekki, undirstrika alls ekki einfaldri pólitískri ákvörðun. Við hljótum að vera sammála um það að markmiðið er áð ná í slasað og sjúkt fók innan okkar lögsögu á skömmun tíma og hagkvæman hátt og það er best að reikna og kanna það almennilega. 

Kveðja

Sveinn V. Ólafsson 

flugvélaverkfræðingur

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 14:44

3 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Ef við setjum á sem skemmstum tíma inni formúluna er ljóst að hagkvæmni verður að víkja - getum við verðlagt mannslíf ?

Rúnar Haukur Ingimarsson, 28.3.2007 kl. 15:00

4 identicon

AUÐVITAÐ á að vera björgunarþyrla á Akureyri! Þarf að ræða það eitthvað?!

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 15:02

5 identicon

Eins og staðan er í dag þá á Landhelgisgæslan í erfiðleikum með að halda sér réttum megin við núllið og tekst það sjaldnast. Sú hugmynd að koma upp þyrluútibúi á Akureyri er ekki raunhæf miðað við rekstrarskilyrði Gæslunar. Kostnaðurinn við uppbyggingu aðstöðu er bara of mikill og rekstrarkostnaður við eina þyrlu með öllum þeim mannskap sem henni fylgir er mjög hár og væri það mjög óhagstæð rekstrareining miðað við að hafa allan mannskap og þyrlur á sama stað. Ef að ein þyrla væri ávalt staðsett á Akureyri þyrfti að fjölga þyrlunum úr 4 til að alltaf sé öruggt að það séu þyrlur í lagi og ekki sé komið að reglubundnu viðhaldi. Áður en þyrla fer til Akureyrar þarf að bæta rekstrarskilyrði Gæslunnar til muna.

Hans Orri Straumland (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 15:43

6 Smámynd: Bergur Þorri Benjamínsson

Sveinn og Hans.Það er vafalaust rétt að það að hafa 4 þyrlur til í landinu þýðir að að jafnaði séu 2-3 til taks.Þetta hlýtur að þýða að hægt sé að hafa 1 hér til taks að jafnaði! Peningamálinn þarf að leysa með réttum en það er hægt bara ef vilji er til þess. En þið vitið líka að flugþolið er mest takmarkandi þáttuinn og það er það sem skiptir ÖLLU máli!

Bergur Þorri Benjamínsson, 29.3.2007 kl. 00:19

7 identicon

Ef að vel væri staðið að björgunarþyrlu útgerð Íslendinga ætti að vera þyrla á Vestfjörðum, Norðausturlandi, Hornafirði og Suðvesturhorninu. Eldsneytis flugvél þyrfti að vera til staðar á landinum og þyrlurnar með búnað til eldsneytistöku á flugi. Fleiri þyrlur eins og TF-SIF þyrftu að vera til staðar vegna slysa á þjóðvegum landsins og útbúnar og mannaðar miðað við þau störf.

    Forgangsröðun í þjóðfélaginu virðist bara ekki vera rétt og allar úrbætur sem snúa að öryggi borgaranna virðast taka allt of langan tíma. Umræðan um kostnað verður of hávær og verðmiði settur á líf og limi íbúanna. Að minu mati á að setja öryggi landsmanna í algeran forgang og veita í það öllu því fé sem þarf. Hvert mannslíf sem tapast vegna þess að einhverstaðar er verið að spara er er algerlega óásættanleg fórn og á ekki að líðast í ríku og sterku nútíma þjóðfélagi.

Hans Orri Straumland (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 16:18

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð komment. Gaman að lesa þau.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.3.2007 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband