Fróðlegur fundur með Valgerði Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Ég var í kvöld á fundi með Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra og fyrsta þingmanni Norðausturkjördæmis, sem við aðstandendur bæjarmálavefritsins Pollsins héldum með henni í kvöld. Er hún þriðja í röð leiðtoga flokkanna í kjördæminu við komandi kosningar sem mætir til slíkra funda, en öllum þeim sem leiðir hér lista er boðið til slíkra funda. Eftir eiga því að koma eftir páskana þeir Kristján Þór Júlíusson, Sigurjón Þórðarson og leiðtogi Íslandshreyfingar í kjördæminu, sem ekki er enn vitað hver verður.

Flutti Valgerður stutta kynningu í upphafi, en síðan var orðið einfaldlega gefið laust og gripu flestir tækifærið til að rabba um pólitíkina frá víðum grunni. Var þetta líflegt og gott spjall, svona algjörlega mér að skapi. Naut þessa mjög vel allavega. Stærstu umræðuefnin sem skipta máli að okkar mati eru að sjálfsögðu málefni Akureyrar og Eyjafjarðar. Valgerður hefur verið þingmaður þessa svæðis í tvo áratugi og verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2003, er auk þess þungavigtarmanneskja í pólitísku starfi almennt sem lykilráðherra í ríkisstjórn landsins. Það var því gaman að skanna málefni svæðisins og landsmálanna heilt yfir með henni.

Við erum fjarri því sammála um alla hluti, en það er virkilega gaman að taka svona spjall engu að síður. Sýn okkar á þessum vef eru skiljanlega málefni Akureyrar og nærsvæðis. Það er og mun vera upplegg allra fundanna. Verst var bara að við fengum ekki nægilega góðan tíma, en hún þurfti að fara suður með síðustu vél og sat því aðeins með okkur í klukkutíma. En það voru lífleg skoðanaskipti á fundinum og gott spjall. Hefði verið gott að hafa lengri tíma, stúdera í stöðuna í stjórnmálunum og ræða málefni utanríkisráðuneytisins en það bíður betri tíma.

Ef marka má nýjustu kannanir Gallups á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði erfið fyrir Valgerði. Framsókn mælist þar jafnan með tvo þingmenn, myndu missa tvo frá sigrinum mikla sem þau hlutu hér í kosningunum 2003. Þá vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í mun minna fylgi, spurningin virðist aðeins vera hversu mikið fylgi Framsókn og Valgerður muni missa. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum.

Valgerður mun án vafa veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af því tagi sem kannanir sýna nú og hún myndi missa sess sinn sem fyrsti þingmaður kjördæmisins. Margir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja þingmanna flokksins frá Austjörðum og innkomu nýrra frambjóðenda ofarlega á listann. Enginn Austfirðingur er í fjórum efstu sætum og því viss þáttaskil fyrir flokkinn hér.

Valgerður er fyrsta konan á ráðherrastóli í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Sérstaklega varð sögulegt þegar að hún varð utanríkisráðherra, enda með því valdamesta konan til þessa í sögu Stjórnarráðs Íslands. Valgerður er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Valgerður hefur verið þingmaður okkar hér í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt kom hún alltaf fram sem sigurvegari.

Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Hún vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með yfirburðum í baráttu við Jón Kristjánsson árið 2003.

Valgerður hefur því vissulega alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára. Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Aðeins Valgerður hlaut kjör í NE og í fyrsta skipti missti Framsókn fyrsta þingsæti kjördæmisins, missti hann til Sjálfstæðisflokks.

Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Hefur barátta hennar og flokksins verið mikil varnarbarátta og verður það að óbreyttu í kosningunum eftir tæpar sjö vikur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að sögulegur sess hennar sem fyrsta kvenkyns utanríkisráðherrans styrkir hana.

Valgerður Sverrisdóttir er eins og fyrr sagði mikil kjarnakona að mínu mati. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins.

En þetta var góður fundur í kvöld og ég þakka Valgerði kærlega fyrir komuna. Það var ánægjulegt að ræða málefni kjördæmisins við hana á þessari kvöldstund.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

VALGERÐUR er kona að mínu skapi að mörgu leyti, enda þótt ekki séum við samherjar í pólitíkinni. Sjálfsagt að vera langrækinn og höggva óvini sína í hreðjar niður, ef maður nennir að standa í því. Hins vegar bjargar það ekki landsbyggðinni að reisa eitt stykki álver á Húsavík þegar allar sjávarbyggðirnar eru að hruni komnar vegna kvótakerfisins, sem 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti. Það er nú eitt af erfiðu málunum fyrir Framsókn, eitt af óhreinu börnunum hennar Evu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 03:05

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef fram fer sem horfir, verður Steingrímur 1. þingmaður ykkar.  Hvað segja Húsvíkingar þá?  Ekkert álver og ekkert að gera nema stússa þetta í kringum túrista.

Samkvæmt hefðinni eru störf slíku tengd LÁGLAUNASTÖRF unnin á stuttu tímabili og þá mikill átroðningur á hestu perlur NA hluta landsins. 

Svona magn-túrismi er ekki bara óaðlaðandi heldur stórskemmandi fyrir landið.

Ekkert ,,grænt" við svoleiðis djobb.

Annars verðið þið flokksmenn mínir þarna fyrir norðan að koma upp með eitthvað sem er bitastætt og aðlaðandi fyrir kjósendr.  Sífellt sífr um framlög ríkisins í verkefni, sem eru þeirrar gerðar, sem ég hef leyft mér að kalla ,,handafls lausnir" skemma bara fyrir og drepa í dróma hreyfiafl íbúa.

Annars

fram til sigurs.

Kveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 28.3.2007 kl. 09:45

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð skrif og skemmtilegar pælingar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.3.2007 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband