Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - stjórnin heldur

Könnun (5. apríl)Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig þónokkru fylgi, VG er að missa flugið hratt og ríkisstjórnin heldur velli ef marka má nýjustu könnun Gallups. Engu að síður er VG enn næststærsti flokkurinn þrátt fyrir fylgistap tvær vikukannanir í röð, mælist með 21,1% fylgi nú en hafði 24% fyrir viku og er nú innan við tveimur prósentustigum stærri en Samfylkingin, sem dalar milli vikna og mælist nú með 19,5% en hafði 19,9% fyrir viku.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 6,1% milli vikna. Hann mældist með 34,5% í síðustu viku en hefur nú 40,6% fylgi. Flokkurinn fengi fleiri alþingismenn í slíkri mælingu en hann hefur fengið kjörna áður í sögu sinni. Þetta er besta mæling Sjálfstæðisflokksins í könnunum Gallups í vel á annað ár. Íslandshreyfingin missir fylgi milli vikna. Hún mælist nú með 4,5% en hafði 5,2% í síðustu viku. Frjálslyndir bæta við sig 0,1%, er með 5,4% fylgi í stað 5,3%, og er því enn á mörkum þess að missa þingmenn sína fyrir borð. Framsóknarflokkurinn dalar enn og mælist með 8,1% fylgi í stað 8,3% fyrir viku.

Ríkisstjórnin heldur velli í könnuninni með 48,7% fylgi og 32 þingsæti. Athygli vekur sífellt hrap vinstri grænna, sem eru á hraðri leið niður í 20% mörkin. Engu að síður mælist VG með meira en tíu prósenta fylgisaukningu frá alþingiskosningunum 2003. Framsóknarflokkurinn er aðeins með 8% og hlýtur að vera skollin á gríðarleg örvænting þar, sérstaklega vegna könnunar Félagsvíndastofnunar hér í Norðausturkjördæmi. Þar voru þrír framsóknarmenn fyrir borð og aðeins Valgerður Sverrisdóttir mældist inni. Virðist Framsóknarflokkur eiga erfiða daga fyrir höndum og þeim þar dugar ekkert minna en kraftaverk til að eiga séns á að halda kjörfylginu. Sama gildir um Samfylkinguna.

Þessi mæling hlýtur að vera áfall fyrir Íslandshreyfinguna, sem síðast mældist með þolanlegt start, sem hefur minnkað hægt og hljótt greinilega. Þar er staðan orðin sú að enginn þingmaður mælist inni. Verður fróðlegt að sjá hvað ráð þau Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson hafa upp í erminni. Það að flokknum haldist ekki betur á fylginu flokkast sem áfall fyrir hópinn. Það virðist vera erfið barátta framundan þar að óbreyttu. Sama gildir um frjálslynda sem svamla um í gruggugu vatni og hafa ekkert grætt á innflytjendatillögum sínum, sem hafa drepið kaffibandalagið svokallaða.

Það er merkilegt að sjá könnun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu á meðan vinstriblokkin dalar nokkuð. Það vekur athygli í ljósi þess að bæði Samfylking og VG dala ásamt Íslandshreyfingunni og Framsókn. Það tapa semsagt allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn og segja má að vinstrisveiflan til Samfylkingarinnar og VG sé nú stopp. Þetta er merkilegt landslag sem þarna sést. Fylgið er allavega á miklu flökti og mikil spenna framundan.

Á laugardag eru fimm vikur til alþingiskosninga. Kannanir sýna mjög breytta mynd frá síðustu kosningum. Tilkoma nýrra flokka hefur merkileg áhrif á heildarmyndina og greinilegt t.d. að nýtt hægri grænt framboð hefur helst tekið af því vinstri græna. Hratt fall VG niður listann er táknrænt en flokkurinn hefur tapað umtalsverðu fylgi á skömmum tíma, sex prósentustigum á tveim vikum. Hver veit nema að pælingin um að fleiri framboð hjálpi ríkisstjórninni en skaði stjórnarandstöðuflokkana fái byr undir báða vængi. 

Samfylking og VG hafa ekki nema 40% samtals í þessari könnun og eru sem blokk því jafnstór Sjalfstæðisflokknum. Þessi könnun er að því leyti nokkur tímamót. Ríkisstjórnin heldur þar velli í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma. Það er því margt sem vekur mikla athygli nú. En það er enn langt til kosninga.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með rúm 40% og VG með 21%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Þetta eru ótrúlegar sveiflur á milli kannana. Enda eru margir tölfræðingar farnir að efast um vísinlega aðferðarfræði þessara kannana.

En engu að síður, standa jafnaðarmenn í stað. VG eru á mikilli niðurleið síðustu 2 vikurnar, Sjáfstæðisflokkurinn sveiflast mikið á milli vikna, bætir nú miklu við sig. Þetta er að verða spennandi.

Eggert Hjelm Herbertsson, 5.4.2007 kl. 09:41

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Gæti ekki verið meira sammála, spennandi 5 vikur framundan..... allt á réttri leið og spár með VG sem ég hef m.a. séð hér á síðunni að ganga eftir.... þeir fara að komast í léttvínsfylgið.

Herdís Sigurjónsdóttir, 5.4.2007 kl. 10:02

3 identicon

Þetta er mjög jákvæð útkoma fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Íslandshreyfingin 0, kemur fáum á óvart.
Afturhladsstoppflokkurinn er að missa fylgi sem er jákvætt fyrir framtíð Íslands.
Sf virðist vera að festast í 19-20%, skoðanalausi bæjarstjórinn undirstrikaði hvernig flokkur sf er skoðana&stefnulaus flokkur.
Ríkisstjórnin heldur velli, nú er bara að bretta upp ermarnar og fá góðan meirihluta.

Með b.kveðju.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 10:25

4 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég er hissa á þessum sveiflum hjá sjálfstæðisflokki. Annað kemur lítið á óvart. Átti von á að VG mundi missa flugið smá.

Íslandsflokkurinn er í vandræðum, þeir eru ekki komnir með neina stefnuskrá og lista og ég held þeir séu brunnir á tíma. Framsókn stendur í stað en eru nýbyrjaðir á auglýsingaherferð sem ég veit ekki hvort hafi náð inní þessa mælingu.

Ég er himinlifandi að innflytjendastefna frjáslynda er ekki að auka fylgið þeirra. Samfó hefur svo ekki náð neinu sérstöku fram að færa þannig að auðvitað standa þeir í stað. Það verða spennandi vikur framundan.

Kristján Kristjánsson, 5.4.2007 kl. 10:31

5 identicon

MIKIL ER ÞÓRÐARGLEÐIN og mikið rýkur nú moldin í logninu, Sjallar fá alltaf miklu minna fylgi í kosningum en skoðanakönnunum, í mesta lagi 35% nú. Og Framsókn missir geysimikið fylgi yfir til Vinstri grænna vegna stóriðjustefnu sinnar, sem hefur ekki verið til mikilla heilla fyrir Framsókn. Og Ómar fær út á sína grænu stefnu mun meira fylgi en Frjálsblindir með sínar xenó- og rectófóbíur.

Enda þótt 5% fylgi þurfi á landsvísu til að fá jöfnunarþingmenn þarf einungis tæplega 1% fylgi á landsvísu til að fá kjördæmakjörinn þingmann, 10% í galdrakjördæminu, Norðurlandskjördæmi vestra. Flokkar með 5% fylgi á landsvísu fá hins vegar jöfnunarþingmenn, enda þótt þeir fái engan kjördæmakjörinn þingmann. Addi Kitta Gau, Ómar og Margrét munu því verða þingmenn í vor, hvernig sem allt veltist annars og snýst í henni Verslu, og 23. mars sýndu 15% landsmanna áhuga á að kjósa Ómar.

Páskalambinu hefur verið slátrað en eiturefnamælingar á hvalketi liggja enn ekki fyrir.

Steini Briem (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 14:00

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er gamaldags og ég er á móti því að halda brúðkaupsveislur áður en giftingin er afstaðin.  Afturámóti er auðvitað besta mál að lofa gott sjóveður þó ekki sé komið út á miðin og fiskurinn fstur á önglinum. Við frjálsblindir erum jákvæðir og fögnum því að öllum líði sem best og við viljum að bjartsýnin í röðum okkar viðfangsmanna blómstri. Þessi skoðanakönnun gefur nú ekki neina endanlega vísbendingu um hvar Þjóðhátíðin verður haldin. Þess vegna segi ég nú eins og okkar vísu menn hafa ævinlega sagt- og gera enn. "Þetta er rétt miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir meðan það var rétt". Ég treysti mér til að spá þjóðinni svona 63 þingmönnum. 

Árni Gunnarsson, 5.4.2007 kl. 17:41

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin og pælingarnar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.4.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband