Sjálfstæðismenn stærstir í NA - Framsókn hrynur

Könnun í NorðausturkjördæmiNý skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi var birt í kvöld, 38 dögum fyrir kosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn í mikilli sókn og mælist hér stærstur flokka og með yfir 30% fylgi og í vænlegri stöðu. VG og Samfylking bæta við sig á meðan að Framsóknarflokkurinn hrynur hreinlega. Íslandshreyfingin nær hér nokkru flugi, greinilega á kostnað VG.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast með þrjú þingsæti í könnuninni en VG með tvö. Framsóknarlokkur mælist aðeins með einn þingmann og myndi missa þrjá. Frjálslyndir og Íslandshreyfingin mælast ekki með þingmann. Skv. því eru inni; Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Nordal (Sjálfstæðisflokki), Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson og Lára Stefánsdóttir (Samfylkingu), Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman (VG) og Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki). Ekki var sagt hvaða framboð hefði jöfnunarsætið þó líklegast sé að það færi til VG eða Sjálfstæðisflokks í þessari mælingu.

Sjálfstæðisflokkurinn: 32,1% - fékk 23,5% í kosningunum 2003
Samfylkingin: 25,2% - fékk 23,4% í kosningunum 2003
VG: 21,7% - fékk 14,1% í kosningunum 2003
Framsóknarflokkurinn: 12,3% - fékk 32,8% í kosningunum 2003
Íslandshreyfingin: 5,9%
Frjálslyndir: 2,1% - fékk 5,6% í kosningunum 2003

Stöð 2 var með góða umfjöllun á málum kjördæmisins á fundinum í Safnaðarheimilinu. Þáði ég boð um að sitja fundinn og hafði mjög gaman af að vera þar viðstaddur, fylgjast með umræðunum og sjá hvernig mælist í þessari nýju og athyglisverðu skoðanakönnun. Það voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög Framsóknarflokkurinn er í vörn. Þessi staða er auðvitað reiðarslag fyrir Valgerði Sverrisdóttur og hennar fólk. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, mælist fallinn þarna og þeir missa fyrir borð heil þrjú þingsæti. Valgerður er þar ein, hún var greinilega slegin yfir útkomunni sem skiljanlegt er.

Kristján Þór Júlíusson, kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins og fyrrum bæjarstjóri hér á Akureyri, brosti sínu breiðasta. Í könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast níu prósentustigum yfir kjörfylginu og í gríðarlegri sókn. Ólöf Nordal er gulltrygg sem kjördæmakjörin í þessari mælingu og mjög stutt er í Þorvald Ingvarsson, lækningaforstjóra og formann Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Framsóknarmenn fengu fjóra kjördæmakjörna í þessari mælingu árið 2003 og ég get ekki betur séð en að Þorvaldur sé inni þarna í þessari stöðu sem jöfnunarmaður, mjög stutt í hann sem kjördæmakjörinn meira að segja, hann nagar á hæla sumra þarna.

Kristján L. Möller var greinilega glaður í kvöld. Enda ekki óeðlilegt. Þetta er besta könnunin fyrir Samfylkinguna hér í Norðausturkjördæmi í langa tíð. Vinkona mín, Lára, er inni í þessari mælingu. Það eru vissulega mikil tíðindi, enda er orðið mjög langt síðan að sést hefur í hana í könnun sem þingmannsefni. Það er greinilegt að Samfylkingin er að sækja í sig veðrið og greinilegt að stærstu tromp Samfylkingarinnar eru Akureyrsku konurnar Lára og Margrét Kristín Helgadóttir. Enda munu þau flagga þeim vel til að dassa niður yfirbragð miðaldra karlanna í tveim efstu sætum, þeirra Kristjáns og Einars Más. Möllerinn getur vel við unað þessa stöðu.

Þessi könnun var augljóslega gríðarlegt áfall fyrir VG. Það sá ég á Steingrími og hans fólki á staðnum. Þeir eru vissulega nokkuð yfir kjörfylginu en þetta er fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Björn Val Gíslason ekki inni. Birst hafa kannanir síðustu vikur sem hafa jafnvel sýnt fjóra vinstri græna á þingi í kjördæminu, ein könnunin sýndi meira að segja sundþjálfarann og varabæjarfulltrúann Dillu Skjóldal inni. Með fullri virðingu fyrir Dillu segi ég hreint að hún fer ekki á þing, nema þá ef einhverjir framan við hana forfallist. Sveiflan til VG er greinilega að hnigna. Það er greinilegt að VG er að tapa mjög til Íslandshreyfingarinnar.

Valgerður Sverrisdóttir var greinilega felmtri slegin þegar að hún fékk þessa könnun í hendur. Hún er nú fyrsti þingmaður kjördæmisins og forystumaður langstærsta flokksins í kjördæminu. Fari þetta á einhvern viðlíka veg og þessi könnun greinir frá er sá sess fokinn út í veður og vind og hún orðin leiðtogi örflokks í kjördæminu. Birkir Jón væri fallinn eins og fyrr segir. Það er því langt í Höskuld Þórhallsson. Enda var þessi staða greinilega mikið áfall fyrir þá framsóknarmenn sem sátu fundinn úti í sal. Framsókn er annars komin af stað á fullu og í dag kom auglýsingablað frá þeim í öll hús kjördæmisins og þeir eru komnir á full swing í auglýsingum heilt yfir.

Íslandshreyfingin er að fá heldur betur gott start hérna á svæðinu. Þau mælast með tæp 6%, þrátt fyrir að hafa hvorki kjördæmaleiðtoga og framboðslista. Þau tóku því auðvitað ekki þátt í þættinum í kvöld. Það er greinilegt að Íslandshreyfingin er að taka mikið fylgi af VG, enda er sveiflan sem verður mjög umtalsverð þaðan. Enda var greinilegt að þetta voru óvæntustu tíðindi könnunarinnar heilt yfir. Þetta var eitthvað sem ég átti allavega ekki von á. Fari Íslandshreyfingin að mælast mikið ofar gæti orðið spurningamerki hvort að þau fari hreinlega að mælast með mann inni. Það verður fróðlegt að sjá hver muni leiða lista þeirra, enda skiptir það máli fyrir framtíðina.

Frjálslyndi flokkurinn á greinilega í talsverðum erfiðleikum. Flokkurinn er ekki að ná flugi hér og virðist eiga erfiða baráttu fyrir höndum. Sigurjón Þórðarson er nýr maður í framboði hér, hann á mikið verk framundan í sinni baráttu og greinilegt að þar vantar þeim talsvert flug til að eiga séns á manni inn. Ef marka má þetta er Sigurjón fallinn af þingi. Gamla sæti Sigurjóns í Norðvesturkjördæmi var úti í könnuninni í kjördæmaþættinum í Norðvestur og ekki virðist hann hafa valið sér öruggt skjól með tilfærslunni hingað.

Þetta var virkilega vandaður og vel gerður þáttur í kvöld úr Safnaðarheimilinu. Góðar umræður og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra tveggja gömlu kjördæma sem mynda Norðausturkjördæmi. Egill Helgason var með athyglisverða umfjöllun og vandaða á pólitískri sögu kjördæmisins og kom með góða fróðleiksmola. Í þættinum var að mestu rætt um atvinnu- og samgöngumál. Það er alveg ljóst að þetta verða stóru málefni kosningabaráttunnar á landsbyggðinni.

Tekist var á um Vaðlaheiðargöng og álver við Bakka. Flestir flokkar styðja álverið. Afstaða Samfylkingarinnar kom þar vel fram á meðan að VG er eini flokkurinn sem hikar í þeim efnum. Allir vilja Vaðlaheiðargöng að sjálfsögðu en menn deila um það á hvaða grunni þau eiga að koma. Mér fannst Kristján L. Möller ekki svara því vel hvort hann vilji fresta göngum fyrir austan, sem eru fyrir löngu þörf, verði Vaðlaheiðargöng ríkisframkvæmd að öllu leyti. Flestir leiðtogarnir voru vel fyrirsjáanlegir í þessum efnum.

Áberandi var að heyra umræðuna um stjórnarmyndun í þeim hluta er Egill spurði leiðtogana. Kaffibandalagið er greinilega steindautt þó það sé mikið á reiki hver eigi að gefa því dánarvottorðið þó allir viti að enginn heill grunnur er þar eftir vegna innflytjendatals frjálslyndra. Annars fannst mér Sigurjón einhvernveginn utanveltu í þessu tali, enda trúi ég því ekki að hann sé eins vitlaus í þessum efnum og kjördæmaleiðtogarnir hans í Reykjavík. Valgerður var í mikilli vörn og Steingrímur J. var að afsaka hitt og þetta, t.d. afstöðuna til álvers við Bakka á meðan að Kristjánarnir brostu sínu breiðasta og nutu dagsins.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Norðausturkjördæmi eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin er að bæta við sig og Íslandshreyfingin sýgur fylgi frá vinstri grænum með áberandi hætti. Framsókn sígur mjög, rétt að tala um hreint hrun, og frjálslyndir virðast landlausir hér rétt eins og fyrri daginn. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Það er allavega ljóst að vinstri grænir hafa misst flugið umtalsvert og Framsókn sleikir sárin og keyrir af stað í auglýsingakynningu nú strax.

Stöð 2 á heiður skilið fyrir góða umfjöllun. Ekki aðeins var þessi góði pakki sendur út héðan, ennfremur las Logi Bergmann kvöldfréttirnar héðan. Vel gert hjá þeim og vandað. Hrósa Sigmundi Erni og hans liði fyrir vandaðan pakka og mikinn metnað í framsetningu. Þeir hjá RÚV geta lært mikið af metnaðinum sem Sigmundur Ernir sýnir með öflugri stjórn á fréttastofunni.

Eftir þáttinn átti ég mjög gott spjall við Egil Helgason um stjórnmálastöðuna. Alltaf gaman að hitta Egil og taka gott spjall. Egill er langfremsti stjórnmálaskýrandi landsins og það er mikils virði fyrir Stöð 2 að hafa jafn öflugan mann í þessum pakka og hann. Sigmundur og Svansí stóðu sig svo vel í spurningunum. Það var gaman að fá þau hingað í heimsókn. Þetta var gott kvöld í Safnaðarheimilinu.

Það verður fróðlegt að sjá mælingu flokkanna í Suðurkjördæmi eftir viku, en þá verður útsending frá Selfossi og umræður leiðtoga flokkanna og birt könnun Félagsvísindastofnunar á fylgi framboðanna sem verða þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég hafði gaman af þessum þætti. Hins vegar virðist ekki vera mikill málefnaágreiningur á milli þessara leiðtoga, að undanskildu smá röfli á milli Valgerðar og Steingríms.

Jafnaðarfólk getur mjög vel við þessa könnun unað - ég átti vona á talsvert lægri tölum. Vorum að mælast með niður undir 15% fyrir ekki svo löngu síðan, og VG með allt að 36% í kjördæminu þegar mest var, ef ég man þetta rétt.

Eggert Hjelm Herbertsson, 4.4.2007 kl. 22:18

2 Smámynd: Pétur Björgvin

Fyrir utanbæjarfólk sem les þennan ágæta pistil má ég til með að koma með litla ábendingu utan úr þorpi. Með ,,safnaðarheimilinu" á Stebbi við Safnaðarheimili Akureyrarkirkju en þau eru fleiri safnaðarheimilin á Akureyri. Við erum alltaf að verða ,,ríkari" hér fyrir norðan, höfum m.a.s. átt safnaðarheimili í Glerárhverfi frá því á síðustu öld. (-:

Tek undir það Stebbi að það er gaman þegar fjölmiðlarnir ,,fyrir sunnan" taka sér góðan tíma í að sinna okkur fyrir norðan. 

Pétur Björgvin, 4.4.2007 kl. 22:27

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Get sérlega vel unnt Sjálfstæðisflokknum á Norðurlandi og Kristjáni Þór góðu gengi þó ég sé annars krati. Í mínum huga eru Sjálfstæðisflokksmenn á norðurlandi "góðu og traustu" sjálfstæðisflokksmennirnir. Ég get þó ekki neitað því að líklega litast það af afa mínum heitnum Tryggva Jónssyni frystihússtjóra á Dalvík og um eitthvert árabil oddviti Sjálfstæðisflokksins þar. Í ofanálag kynntist ég Kristjáni Þór á túninu framan við Hólaveginn þar sem hann átti heima við hliðina á Öllu frænku, með þeim hætti að snemma sumars þegar ég var ný-kominn að sunnan til að vera hjá ömmu og afa á Dalvík, lentum við í harkalegum slagsmálum ég og Kristján, útaf einhverju sem ég man ekki hvað var, -en ég leit á Kristján sem besta vin minn það sumar á Dalvík eftir það. 

Reyndar eru enn betri fréttir að vinur minn Kristján Möller skuli vera rétta svona vel úr kútnum fyrir Samfylkinguna , og svo að Íslandsfylkingin sé að leggja Frjálslynda. -Allt góðar fréttir að norðan.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.4.2007 kl. 22:44

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, þetta eru mikið tíðindi, takk fyrir þessi skrif, ég sá ekki fréttirnar í kvöld.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.4.2007 kl. 22:53

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Eggert: Ég met það svo að Samfylkingin sé að ná að haldast á fylgi sínu hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Þau unnu sigur hér á Akureyri í fyrra og vinna með okkur sjálfstæðismönnum. Held að sig þeirra hafi fyrst og fremst verið hér. Held að þau séu að ná því eitthvað til baka. Um leið er VG að síga og Ómar og co eru að taka þaðan nokkuð fylgi. En þetta er rétt að hefjast og mikið enn eftir.

Jón: Takk fyrir góð komment. Sammála þér með þessar mælingar og röðun á mönnum. Erfitt að spá hver eigi jöfnunarmanninn. Er wild-card auðvitað. En þetta sýnir vissar línur, sem er gaman að rýna í. Takk fyrir góð orð um skrifin mín.

Pétur Björgvin: Takk kærlega fyrir ábendinguna og kommentið. Þetta er auðvitað safnaðarheimilið mitt, enda er ég búsettur hér í hverfinu. En við eigum tvö safnaðarheimili hér á Akureyri, en ég bætti þessu allavega inn eftir á, enda mikilvægt að benda á að þetta var auðvitað úr safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

Helgi Jóhann: Takk kærlega fyrir þetta komment. Ég vissi ekki að þú værir frá Dalvík ættaður. Ég var í bæjarvinnunni á Dalvík í fjögur ár, enda búsettur þar um skeið. Ég sló lóðina hjá Öllu frænku þinni öll þau ár með fleiri góðu fólki. Hún var yndisleg kona, hreint út sagt. Hún var ein þeirra sem ávallt gaf okkur eitthvað, einhverjar smáveitingar þegar að við slógum lóðina. Mikil perla sú kona, þótti mjög vænt um hana. Það eru ekki margir sem eru svona hugulsamir held ég við þá sem slá með þessum hætti, en þessi kynslóð var auðvitað einstök. En ég þakka þér fyrir þessa sögu og skrifin.

Ásdís: Takk fyrir góð orð, gott að þú hafðir gaman af skrifunum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.4.2007 kl. 23:19

6 Smámynd: Jóhann H.

Miðað við þetta þá er jafnvel heiðurssæti á lista íhaldsins ekki svo slæmt...

Jóhann H., 4.4.2007 kl. 23:19

7 identicon

SAFNAÐARHEIMILIÐ var rétti staðurinn, því þar sem tveir menn koma saman, þar er allur Framsóknarflokkurinn. Óhreinu börnin hennar Evu, kosningastjóra Framsóknar á Akureyri, eru greinilega þvottekta og segir ekki meira af litla drengnum í Norðaustrinu. Hann kemst ekki á þing og votta ég Evu samúð mína. Við drekkjum sorgum okkar saman síðar. Íslands óhamingju verður allt að vopni.

Ómar er alltaf á uppleið, 40% Húsvíkinga nú þegar á móti álveri á Bakka og þeir Bakkabræður græða nú ekki mikið á því að bera fötur fullar af myrkri þar fram og til baka. Húsvíkingar eru skynsamir menn og meirihluti þeirra mun brátt sjá í gegnum þá óperasjón alla. Vilja mun frekar annan og betri starfa, stóraukna ferðaþjónustu með betri samgöngum, skynsamari og betri veiðistjórnun fyrir alla aðila, hærri laun með minni þenslu í Reykjavík og Reyðarfirði, stórbætta vegi, meðal annars alla leið að Dettifossi, stærsta fossi í Evrópu, sem Landsvirkjun hefur verið að spá í að eyðileggja eins og allt annað, jarðgöng undir Vaðlaheiði og þriflegar konur, beggja vegna Búðarár.

Steini Briem (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 23:21

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Höfuðástæðan fyrir tilvist Íslandshreyfingarinnar er að koma í veg fyrir að stóriðjuflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Frjálslyndir geti myndað hreina stóriðjustjórn eftir kosningar. Þessir þrír flokkar fengu 52 prósent alls í síðustu kosningum í Norðausturkjördæmi en hrapa niður í 46 prósent núna.

Sama tap á fylgi stóriðjuflokkanna varð á landsvísu í tveimur síðustu könnunum yfir landið allt og í því efni getur Íslandshreyfingin leikið lykilhlutverk í því sem sást svo vel í þessum könnunum, - að stóriðjuflokkarnir höfðu ekki möguleika á myndun starfhæfrar meirihlutastjórnar vegna þess að nógu mikið fylgi fór fram þeim til Íslandshreyfingarinnar.

Í könnun Fréttablaðsins missti Sjálfstæðisflokkur 3 prósentustig á landsvísu og Frjálslyndir 2, - en Íslandshreyfingin fékk 5 prósent. Auðvitað var þetta ekki alveg svona einfalt vegna annarra hreyfinga milli flokka en höfuðatriðið, blasti þó við, - minna fylgi stóriðjuflokkanna þriggja.

Íslandshreyfingin liggur einmitt á því svæði í litfrófinu vinstri-hægri sem skipt getur sköpum um það að tímamót verði í næstu kosningum.   

Ómar Ragnarsson, 4.4.2007 kl. 23:29

9 Smámynd: Kolgrima

Alltaf hægt að treysta því að þú setjir mann inn í málin, Stebbifr! Sá því miður ekki þáttinn.  Takk fyrir góða umfjöllun.

Kolgrima, 4.4.2007 kl. 23:47

10 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Sem gamall Krata frambjóðandi að austan, hlýt ég að gleðjast yfir góðu gengi nafna míns frá Siglufirði, enda er hann sannur vinur landsbyggðarinnar að mínu mati. Hins vegar harma ég, að sú mæta kona, Valgerður Sverrisdóttir, sem hefur staðið sig vel í öllum störfum, sem henni hafa verið falin, skuli ekki fá meiri umbun en þessi niðurstaða gefur til kynna. Með góðri kveðju frá Siglufirði,KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 5.4.2007 kl. 05:37

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jóhann Hafsteinn: Mikið rétt.

Steini: Kjarnmiklar pælingar, fínt til lestrar. Er þó ekki sammála öllu, en það væri hundleiðinlegt ef allir væru sammála um allt.

Ómar: Gaman að fá þig sem gest hér við að skrifa pælingar. Þakka þér kjarngott innlegg og pælingar um stöðu mála.

Kolgríma: Þakka þér kærlega góð orð um skrifin.

Kristján: Gaman að lesa, skemmtilegar pælingar. Er vissulega sammála þér um að Valgerður er að fá þungan skell, að mörgu leyti óverðskuldaðan. En á móti kemur að Framsókn er allsstaðar að lepja dauðann úr skel. Engin undantekning hér, en þetta er svo áberandi hér því að þetta er og hefur alla tíð verið sterkasta vígi Framsóknar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.4.2007 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband