Mun skuggi Silvíu Nætur skemma fyrir Eiríki?

Eiríkur Hauksson Eftir þrjár vikur mun Eiríkur Hauksson syngja lagið Valentine Lost í Helsinki. Stóra spurningin er hvort að Eiríki takist að komast upp úr undanriðlinum. Það verður fróðlegt hvort að skuggi Silvíu Nætur skemmi fyrir Eiríki í keppninni nú. Á síðasta ári söng Silvía Nótt sig út úr keppninni með bæði eftirminnilegum og magnþrungnum hætti. Hún stuðaði allt og alla í Aþenu en vakti um leið mikla athygli. Hún öðlaðist þó sögulegan sess í keppninni er púað var á hana fyrir og eftir flutning sinn.

Eiríkur Hauksson er maður sögu í Eurovision. Hann hefur keppt þrisvar og er mjög reyndur, bæði sem tónlistarmaður og áhugamaður um Eurovision. Hann býr að þeirri reynslu í þessari þriðju ferð sinni út. Lagið er vissulega mjög gott, textinn venst en er ekkert meistaraverk þó. Mörgum, þar á meðal mér, finnst íslenska útgáfan mun betri, hún rennur betur í gegn finnst mér og hljómar betur í heildina. Myndbandið við lagið vakti athygli og hann hefur fengið mikla bylgju stuðnings héðan að heiman.

Það er ekki auðvelt að bera saman Silvíu Nótt og Eirík Hauksson, þau eru ólík eins og dagur og nótt. Sem söngvarar á leið í Eurovison eru þau enn ólíkari en sem persónur. Ísland fer tvær mjög ólíkar leiðir á þessu ári og hinu síðasta. Þjóðin var ekki öll á bakvið Silvíu Nótt. Hún var mun umdeildari flytjandi í keppninni. Mörgum fannst og finnst reyndar enn að annað lag hefði átt að fara og sigur hennar varð umdeildur. Lagið sem slíkt varð miklu minna áberandi en karakterinn sjálfur. Í tilfelli Eiríks er þetta söngvari að flytja lag, en ekki lag sem er borið upp af miklum karakter sem hefur alla athygli á sér en ekki laginu. Þetta er því allt mjög ólíkt.

Silvía Nótt stuðaði mjög þá sem héldu utan um keppnina. Karakterinn varð ansi yfirdrifinn. Hef reyndar oft hugsað um það hvernig að Ágústa Eva Erlendsdóttir gat haldið dampi í gervi þessarar glamúrgellu þetta lengi. Þetta hefur eflaust tekið mikið á og verið þungur baggi að bera. Held að framkoman vikuna í Aþenu hafi skemmt mjög fyrir okkur. Þetta show varð einum of. Það sem byrjaði sem fínn local-brandari endaði sem súr og dýr brandari á erlendu sviði. Floppið varð mikið og áfallið varð gríðarlegt, bæði fyrir karakterinn og skaparann og síðast en ekki síst þá sem höfðu stutt hana hér heima, sem reyndar urðu sífellt færri eftir því sem styttist í stóru stundina.

Eiríkur er ekki alveg öfundsverður að fylgja á eftir þessu mikla show-i sem var í Aþenu í fyrra. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þessi skuggi sem fylgir honum, skuggi Silvíu Nætur, skipti máli eður ei. Hann hefur einhver hliðaráhrif hið minnsta. Eiríkur ætti að geta með hressilegri framkomu og sínum karakter verið þar á eigin forsendum og varla munu skuggar fortíðar sliga hann. Lagið er gott og hefur allt til að bera að komast lengra. Hann fékk allavega góða dóma í norrænu deildinni um daginn, sem skiptir máli fyrir stolt okkar Íslendinga fyrst og fremst.

Það verður mikið áfall nái Eiríkur ekki að komast á úrslitakvöldið þann 12. maí. Það verður strax litlausara kosningakvöldið komist hann ekki áfram. Augu allra landsmanna verða á því sem gerist í Helsinki þann 10. maí og við vonum að andar fortíðar, hvort sem það er umdeild glamúrgella eða einhver annar, hafi ekki neikvæð áhrif á stöðu mála er á hólminn kemur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Eiríkur er alveg maður til að fara út á eigin forsendum og hann gerir það. En Silvía Nótt var svo stuðandi í fyrra og hún var svo fjölmiðlalega afgerandi að skuggi hennar er enn til staðar, jafnvel þegar að kosið er, sérstaklega í þeim löndum þar sem hún stuðaði mest. En vonandi auðvitað hefur þetta engin neikvæð áhrif. Eiríkur hefur sögu að baki í keppninni og er mjög reyndur og vonandi kemst hann áfram. Reyndar náði hann ekkert spes árangri áður í keppninni en nú fer hann með alvöru rokk og flott lag og vonandi fær það góðan dóm frá Evrópu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.4.2007 kl. 00:37

2 Smámynd: Ólafur Arnar Pálsson

Humm... sigur Silvíu nætur umdeildur? Sigraði hún ekki með hátt í 80% greiddra atkvæða?

Humm... var áfallið gríðarlegt, bæði fyrir karakterinn og skaparann? Ég veit ekki betur en að bæði skaparinn, leikarinn og karakterinn hafi verið mjög ánægðir með niðurstöðuna í Aþenu, t.a.m. það að fá svona mikið baul á sviðinu. Silvía nótt er ádeila ekki fígúra eða fyrirmynd á borð við Sollu stirðu.

Leiðinlegt þegar menn eru að bulla svona opinberlega og spila sig sem svaka sérfræðinga... reyndar ekki merkileg umræða en engu að síður... rétt skal vera rétt!

Annars segi ég bara... Áfram Eiríkur rauði!

Ólafur Arnar Pálsson, 20.4.2007 kl. 00:51

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Allt við Silvíu Nótt var umdeilt. Það er mjög einfalt mál. Þátttaka hennar var umdeild, eftir að laginu var flashað á netinu, og það voru margir sem stuðuðust af karakter hennar í undankeppninni. Það er alveg ljóst að ungt fólk flykktist um hana og hún fékk mikið af atkvæðum þaðan. Held að þetta hafi fyrst og fremst verið ákall um eitthvað nýtt og hún var goð margra ungmenna, öll munum við eftir smástelpunum sem klæddu sig í gervi hennar á öskudegi. Margir hinna eldri voru ósáttir. Held þó að þetta hafi farið úr böndununum vikuna í Aþenu. Þetta fór einfaldlega yfir strikið. Það sem var local-brandari hitti ekki í mark þar. Þetta fór eins og það fór. Hinsvegar er ég ekki að segja að þetta hafi verið misheppnað hjá Ágústu Evu. Hún gerði viss afrek í þessum karakter og vakti mikla athygli. Hún varð landsfræg í gegnum þennan karakter. En ég held að margir hafi fengið nóg af karakternum fyrir margt löngu.

Og auðvitað vona ég líka að Eiríkur komist áfram. Ég studdi það lag mjög afgerandi í keppninni hér heima og taldi það vera langbest. Eiríkur mun vonandi ná góðum árangri.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.4.2007 kl. 01:04

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það sem Silvía Nótt hefur "afrekað" er að áhugi á íslenska flytjandanum er meira en nokkru sinni. Fólk er forvitið um íslenska keppandann. En það skemmtilega er að flestir eru jákvæðir gagvart Eiríki, það er að segja íslensku útgáfunni. Hvernig væri að Eiríkur héldi sig við hana?http://www.youtube.com/results?search_query=eirikur&search=Search

Benedikt Halldórsson, 20.4.2007 kl. 10:24

5 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég er innilega sammála Benedikt - Sylvía skók undirstöður Júróvisíon með sínu geggjaða akti sem ég er fullviss að fór nákvæmlega eins og fyrir var lagt.  Ég er sannfærður um að sú athygli sem næturdrottningin fékk verða bara til góða fyrir Eika H.  

Pálmi Gunnarsson, 20.4.2007 kl. 12:05

6 Smámynd: Gaukur Úlfarsson

Gott gott.. það er fínt að hafa eitthvað til að verjast fallinu þegar við náum ekki tilsettum árangri.. þegar Jónsi fékk litlar undirtektir, þá kölluðum við þetta Júgóvision og þegar Selma komst ekki áfram voru það búningarnir sem þjóðin kenndi um ófarirnar. Greinilegt að nú er búið að undirbúa jarðveginn/fallið með því að kenna Silvíu um ef ílla fer. Alltaf skal þetta vera einhverju að kenna.. þessu var einmitt gert grín að með Silvíu (þ.e. þessum tendens til þess að kenna öðrum um og hvað við erum sjúklega tapsár) þegar að útgrátin Silvía (tákngervingur þjóðarinnar) kenndi Carolu hinni sænsku um ófarir sínar, að hún hefði legið með formanni keppninar og mútað honum til að fella okkur úr keppninni.. samsæriskenningar-brandari sem fór framhjá flestum því íslendingar voru svo uppteknir af því að vera særðir í þjóðarstoltinu sínu..

Hvenær ætlar þjóðin að átta sig á því að þessi keppni er brandari útí eitt og að engin þjóð með heilbrigt sjálfsálit tekur henni alvarlegar en ef um alþjóðlega hundasýningu væri að ræða?? 

Gaukur Úlfarsson, 20.4.2007 kl. 14:55

7 identicon

Þótt Eiríkur handa okkur veiði

atkvæðagnótt

munum við áfram súpa seyði

af Silvíu Nótt.

Már Högnason (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 15:24

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Steini: Eiki er Íslendingur, punktur. :)

Benedikt: Silvía Nótt fékk auðvitað mikla athygli í Grikklandi og var mjög áberandi karakter. Við græddum athygli á henni, en það var umdeild athygli. Auðvitað vona ég að Eiki græði bara á því, þetta eru bara pælingar um stöðuna eins og ég vildi setja fram enda held ég að margir velti því fyrir sér hvernig muni ganga.

Pálmi: Þakka þér fyrir kommentið. Tek undir það með þér að ég vona að Eiki njóti bara góðs af því sem gerðist hjá fyrri keppendum.

Gaukur: Takk fyrir kommentið og fínar pælingar.

Már: Takk fyrir góða vísu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.4.2007 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband