Spennandi óvissa yfir franska forsetakjörinu

sarko-sego Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna, þar sem eftirmaður Jacques Chirac, forseta Frakklands í tólf ár, verður kjörinn, fer fram á sunnudag. Flest bendir til þess að Segolene Royal og Nicolas Sarkozy hljóti flest atkvæði og taki þátt í seinni umferðinni þann 6. maí. Samt vofir mikill andi óvissu yfir forsetakjörinu. Kannanir sýna að þriðjungur kjósenda hefur ekki enn tekið opinbera afstöðu og því fátt öruggt.

Opinberri kosningabaráttu lauk í Frakklandi núna kl. 22:00 og engar skoðanakannanir verða birtar eftir það. Teningunum er því kastað! Síðustu kannanir gefa til kynna mjög opna stöðu, þó að forskot Sarkozy og Royal sé ansi mikið er ekki neitt hægt að útiloka. Í kosningunum 2002 höfðu Chirac forseti og Jospin forsætisráðherra nokkuð forskot og allir töldu þá örugga áfram. Það urðu því vissulega stórtíðindi er þjóðernisöfgamanninum Jean Marie-Le Pen tókst að komast í seinni umferðina og slá því Lionel Jospin út úr frönskum stjórnmálum. Það vakti heimsathygli.

Það er greinilegt að franskir sósíalistar eru ansi smeykir um stöðu Royal og ganga ekki út frá öruggri stöðu hennar fyrr en talning hefur farið fram og farmiði í seinni umferðina er öruggur. Skipting atkvæða í margar áttir til vinstri árið 2002 gekk frá möguleikum Jospin. Fáum hafði órað fyrir því að Le Pen ætti alvöru möguleika þá og mynduð var blokk til að koma í veg fyrir kjör hans. Sósíalistar gengu að kjörborðinu með óbragð í munni og kusu Chirac forseta. Hann fékk 82% atkvæða í þeim kosningum, sínum síðustu á litríkum stjórnmálaferli. Þetta var sætur sigur Chiracs yfir vinstrinu, sérstaklega eftir tapið í þingkosningunum 1997.

En nú er semsagt komið að kjördegi. Í Frakklandi lýkur kosningabaráttunni rúmum sólarhring áður en gengið er að kjörborðinu. Klippt er á auglýsingar og kannanir - landsmenn fá frið fyrir öllum ágangi. Þetta er því ansi fjarri því sem gengur og gerist síðasta sólarhringinn hér heima þegar keyrslan er oft einna mest í auglýsingum. Tólf frambjóðendur eru í kjöri í fyrri umferðinni. Stóra spurningamerkið er miðjumaðurinn Francois Bayrou. Honum tókst fyrir mánuði að komast upp að hlið Sarkozy og Royal, en síðan misst aðeins flugið.

Nýjustu kannanir sýna að möguleikar Bayrou aukast til muna nái hann í seinni umferðina. Hann myndi sigra hvort þeirra sem væri við þær aðstæður. Sarkozy hefur haft forskot á Royal nú um nokkuð skeið og virðist sigurviss með hægriblokkina nær alla að baki sér. Sérstaklega munar þar um að báðir núlifandi forsetar hægritímans í frönskum stjórnmálum, erkifjendurnir Valery Giscard d´Estaing og Chirac forseti, hafa lýst yfir stuðningi við hann. Það kom mjög að óvörum að Giscard skyldi frekar styðja Sarkozy en Bayrou.

Þetta verða svo sannarlega spennandi kosningar. Fróðlegt verður að sjá hver mun hljóta kjör á forsetastól og ríkja í Elysée-höll frá 17. maí, er Chirac hverfur af hinu pólitíska sviði. Verður seinni umferðin Sarko-Sego stund eins og svo lengi hefur verið spáð, eða mun Bayrou koma á óvart? Með þessum kosningum verður víða fylgst enda er forseti Frakklands einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims.

mbl.is Styttist óðum í kosningar í Frakklandi; þriðjungur kjósenda óákveðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hef svona aðeins verið að fylgjast með aðdraganda kosninganna í France. mundi samt ekki treysta mér til að kjósa annaðhvort þeirra, er ekki hrifin af þeim.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2007 kl. 00:37

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Mikið er ég fegin að þurfa bara að kjósa á Íslandi....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.4.2007 kl. 01:47

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Ásdís: Já, þetta eru mjög sterkir kostir til hægri og vinstri. Líst best á Sarkozy, en hann er samt í það harðasta að mínu mati, en á móti kemur að frönsk stjórnmál eru í eðli nokkuð til vinstri við okkar pólitík.

Guðný Anna: Það tek ég svo sannarlega undir. :)

Björgvin: Það verður fróðlegt hversu kosningu Royal fær og hversu sterk hún kemur út úr fyrri umferðinni. Fyrr verður erfitt um þetta að spá.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.4.2007 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband