Ná Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz á þing?

Jón Sigurðsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum í Reykjavík. Þegar að þrjár vikur eru til kosninga mælast Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, utan þings æ ofan í æ. Örlög þessarar ríkisstjórnar munu að mínu mati ráðast fyrst og fremst með því með hvort að formaður Framsóknarflokksins nái kjöri á Alþingi, þ.e.a.s. haldi ríkisstjórnin hvort eð er meirihluta sínum. Ef Jón nær ekki á þing er að mínu mati erfitt að líta á Framsóknarflokkinn sem stjórntækan.

Kannanir eru Framsóknarflokknum mjög erfiðar nú um stundir. Það að formaður flokksins sé að mælast svo veikur og utan þings marga mánuði í röð og sjái ekki til sólar hlýtur að sliga mjög flokkinn. Sérstaklega miðað við að þetta er maður sem ekki hefur verið lengi í stjórnmálum og ætti því varla að bera þungar byrðar fortíðar með sér. Kannski er það þó eftir allt veikleiki hans, að vera ekki sterkur stjórnmálamaður með fortíð, hafa ekki suma þungann pólitískt og Halldór Ásgrímsson hafði í þingkosningunum 2003, sem leiðtogi sem leiddi vagninn rétta leið að lokum.

Í dag birtist könnun í Reykjavík suður sem er enn eitt áfallið fyrir Framsóknarflokkinn. Þar mælist Jónína Bjartmarz enn utan þings og vantar enn þónokkuð upp á að eygja von á öruggu þingsæti. Það verður Framsóknarflokknum gríðarlegt áfall nái hann ekki fótfestu í Reykjavík og þurrkist út. Það myndi um leið lama borgarstjórnarflokk Framsóknarflokksins umtalsvert og verða flokknum þung byrði. Ég tel stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks feigt sem alvöru samstarfskost, haldi það velli, nái þessi forni flokkur valda og áhrifa ekki fótfestu í höfuðborginni er á hólminn kemur, í takt við skoðanakannanir.

Það er vandséð hvernig að Sjálfstæðisflokkurinn geti horft til þess samstarfs fái Framsóknarflokkinn þennan þunga dóm í Reykjavík sem kannanir sýna æ ofan í æ. Reyndar er sviðin jörð um allt land skv. könnunum fyrir flokkinn. Meira að segja gömlu lykilvígin hafa bognað til. Staða Framsóknarflokksins hér í Norðaustri mælist ekki góð. Það er orðið óralangt síðan að Framsókn mældist með fleiri en tvo þingmenn hér. Í síðustu kosningum fengu framsóknarmenn hér fjóra menn en hafa hrapað mjög síðan. Í Suðurkjördæmi á Guðni Ágústsson í vök að verjast og Siv Friðleifsdóttir heyr þunga baráttu í Kraganum.

Á vef sínum í dag kemur Björn Ingi Hrafnsson með varnarræðu til framsóknarmanna. Þar er talað fyrir því að standa vörð um Jón og Jónínu í Reykjavík og halda lykilmönnum á landsbyggðinni. Eins og staðan er núna sér flokkurinn ekki mikla von í nýju þingmönnum sínum í Reykjavík. Allar kannanir sýna Guðjón Ólaf og Sæunni Stefáns kolfallin í Reykjavík. Höskuldur mælist úti í Norðaustri, langt er í Samúel Örn í Kraganum og Helgu Sigrúnu í Suðrinu og Herdís lifir í voninni í Norðvestri. Svona mætti lengi telja. Það verður Framsókn þungt högg að enda með aðeins lykilmennina inni og jafnvel aðeins Birki Jón sem eina einstaklinginn undir fertugu inni.

Það er vörn yfir merkjum Framsóknarflokksins í þessari kosningabaráttu. Það blæs ekki byrlega fyrir flokknum þrem vikum fyrir kosningar. Þar er lifað í voninni um að það sama endurtaki sig og gerðist á lokasprettinum 2003. Þar var tapaðri skák snúið við og Framsókn náði að spila síðustu leiki skákarinnar sér í vil. Sama lukkustjarnan er ekki komin til sögunnar en framsóknarmenn bíða og vona. Á meðan berst formaður Framsóknarflokksins fyrir pólitísku lífi sínu í Reykjavík og umhverfisráðherrann stendur veikt í von um endurkjör. Þetta er ekki glæsileg staða fyrir flokk sem hefur haft völd áratugum saman.

Nú er komið að örlagastundu fyrir Framsóknarflokkinn. Hvernig mun lífróðrinum ljúka? Þetta er stór spurning, sem brátt fæst svar við. Það verða þung örlög fyrir elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins falli taflið ekki þeim í vil á lokasprettinum. Þar verður þungur skellur þann 13. maí fari allt á versta veg. Hvað verður um Jón Sigurðsson falli hann fyrir borð, verði hafnað af kjósendum í sinni fyrstu og örlagaríkustu kosningabaráttu?

Spurningarnar eru margar - svörin fást ekki að fullu fram fyrr en síðla kvölds 12. maí en munu þó eflaust afhjúpast að vissu marki þó stig af stigi dag hvern næstu þrjár vikurnar.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Svo virðist sem dagar Framsóknarflokksins séu taldir.  Það er ljóst, að Jón Sigurðsson hefur ekki það sama persónufylgi og  Halldór Ásgrímsson hafði í síðustu kosningum.  Flokkurinn hefur yfir sér eins konar 19. aldar blæ, sem ekki höfðar til kjósenda í dag.  Miðjumoðið hefur runnið sitt skeið, fólkið við flokka með ákveðnar skoðanir og skarpa framtíðarsýn.  Af sömu ástæðum á Samfylkingin erfitt uppdráttar um þessar mundir.  Þar virðist sjálfsmyndin ómótuð og stefna flokksins illa skilgreind.   

Júlíus Valsson, 21.4.2007 kl. 19:48

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, það er erfitt að vera Framsóknarmaður í dag og fer versnandi er ég hrædd um.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2007 kl. 22:11

3 Smámynd: Ibba Sig.

Rosa er þetta fínn pistill hjá þér Stebbi. 

Og ég tek undir með Baldri, tel að Jón sé ekki að skora hjá kjósendum með því að tala sífellt niður til þeirra.  Í fyrsta viðtalinu sem ég sá gæjann í neitaði hann að svara einni spurningu fréttamans á þeirri forsendu að hann væri á svo miklu hærra þekkingar-leveli en fréttamaðurinn! Ekki gott. 

Ibba Sig., 21.4.2007 kl. 22:26

4 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Þetta er í þriðja skipti frá 9/4 sem þú hefur pistil á orðunum "Það blæs ekki byrlega hjá Framsóknarflokknum"  (Nennti ekki að skrolla aftar.)

Nú ræður þú að sjálfsögðu hvað og hvernig þú skrifar á síðuna þína, en maður hlýtur að velta fyrir sér stressstiginu hjá Sjöllum við að horfa á Framsóknarflokinn taka svo rosalega dýfu. Það er augljóst að ykkur er ekki rótt, sérstaklega eftir að Geir gerði kosningabandalag við Jón í beinni útsendingu. Líkurnar á áframhaldandi stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins minnka frá degi til dags. Ég skil því vel áhyggjur þínar.

Ein af skýringunum á slakri stöðu Frammara er sú að flestir kjósendur þeirra voru á móti innrásinni í Írak. Önnur er líklega sú að flestir (þ.á.m. frammarar) voru með óbragð í munni yfir atgangi ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálinu. Það má tína til fjölmörg mál í þessum dúr sem kjósendur framsóknar eiga erfitt með að kyngja, þó það vefjist ekki fyrir kjósendum Sjálfstæðisflokksins.

Annars, ljómandi síða hjá þér. Hef verið lesandi í tvö eða þrjú ár.

Jóhannes Stefánsson,  XS

Jóhannes Freyr Stefánsson, 21.4.2007 kl. 22:28

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Júlíus: Þeir eru kannski ekki taldir, en svona staða myndi þýða að flokkurinn þyrfti að stokka sig alveg upp og reyna aftur við það verkefni að verða sterkur valkostur. Held að Framsókn deyji ekki, en það er klárlega vandræðagangur þar, forystan er ekki að fá samhljóm og ef hún fer svona illa eins og kannanir segja verður að leita að nýju upphafi þar með nýrri forystu. Það er bara þannig.

Baldur: Takk fyrir góð orð. Jón er samt að slípast mikið til, hann hefur lagast nokkuð frá því, en enn er nokkuð í land. Hann hefur styrkt flokkinn inn á við, en ekki út á við. Svipað og Michael Howard með breska Íhaldsflokkinn á sínum tíma.

Ásdís: Já, það er erfitt. Verður spennandi að sjá hvort þeim tekst að snúa vörn í sókn.

Ibba: Takk fyrir góð orð. Helgi Seljan, frændi minn, tók þetta fyrsta viðtal við Jón. Það var honum erfitt og það var vont upphaf fyrir hann. Eftirminnilegt viðtal. Reyndar hefur Jón slípast nokkuð til síðan þá, hefur lækkað röddina og breytt aðeins um stíl, en hann hefur samt ekki enn náð rétta taktinum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.4.2007 kl. 22:31

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Jóhannes

Heimurinn stendur ekki og fellur með Framsókn. Hér á Akureyri vorum við sjálfstæðismenn í samstarfi með Framsókn í fjögur ár. Meirihlutinn féll vegna þess að Framsókn missti tvo af þrem bæjarfulltrúum sínum. Sjálfstæðismenn héldu sínu. Við mynduðum meirihluta með Samfylkingunni eftir kosningar. Það var nokkuð einstakur meirihluti, enda var það í fyrsta skipti þar sem þessir tveir flokkar unnu saman frá stofnun Samfylkingarinnar árið 2000.

Staða Sjálfstæðisflokksins er mjög góð í öllum skoðanakönnunum. Það hefur ekki birst könnun í allri kosningabaráttunni sem sýnir Sjálfstæðisflokkinn undir 35%. Það er mjög sterkt. Það er enda ljóst skv. könnunum að landsmenn treysta Geir H. Haarde fyrir forystu. Hann hefur sterka stöðu. Framsókn verður að sækja sitt fylgi sjálf.

Annars segi ég afdráttarlaust í þessum pistli að samstarf stjórnarflokkanna geti ekki gengið nái Jón ekki kjöri. Annars sýnist mér ekkert samstarf vera útilokað. Fái Sjálfstæðisflokkurinn góða kosningu og Framsókn fái skell er það samstarf einfaldlega úr sögunni og aðrir kostir á borðinu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.4.2007 kl. 22:37

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það er greinilegt að Sveinn Elías hefur ekki verið að fylgjast með samfélaginu undanfarin ár, bara með fyrirsagnalegum stórkarlayfirlýsingum stjórnarandstöðunnar, sem klæjar í fingurna að fá að útdeila þeim gæðum sem skapast hafa í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þegar nær dregur, og kjósendur setjast niður með sjálfum sér og velta fyrir sér hvað sé þjóðinn fyrir bestu, mun styrkur Framsóknar koma betur í ljós, því vandi hans og um leið styrkur er að vera hófsamur flokkur. Það er ekki töff og kúl og því gefa menn sig síður upp. En það er vegna hófseminar og skynseminnar sem aðrir flokkar líta svo oft til Framsóknar til samstarfs. Ætla ekki að fylla síðu bloggvinar míns Stefáns með upptalningu á þeim atriðum þar sem Framsókn hefur fengið sitt fram, en ég nefni eitt. Íbúðalánasjóð.

Framsókn á eftir að koma standandi niður. Hvort öll hárin verða á honum, verður aftur á móti að koma í ljós.

Gestur Guðjónsson, 21.4.2007 kl. 23:44

8 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég hef sagt mörgum Framsóknarmönnum,að íhaldið væri skipulega að gleypa þá,hæla þeim stöðugt fyrir framúrskarandi samstarf,láta þá bera ábyrgð á þeim verkum sem óvinsælust voru,en fleyta rjómann af þeim málum sem vinsælust hafa verið.Íhaldið hefur gert Framsókn að einhverjum undirmálsflokki í þessu sanstarfi og þykjast nú ekki  aðspurðir skilja ástæður fyrir fylkistapi þeirra.Sennilega er íhaldið búið að ná um 20-30% af Framsóknarfylginu,það er ekki óeðlilegt að þeir séu ánægðir með samstarfið.

Kristján Pétursson, 22.4.2007 kl. 00:09

9 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Flokkurinn hefur alla tíð átt erfitt uppdráttar í Reykjavík. Ef ég man rétt þótti það mikill sigur þegar Ólafur Jóhannesson prófessor var kjördæmakjörinn í Reyljavík. Þrátt fyrir hatursfullar árásir á hann í ræðu og riti. En hann hafði lýðhylli og stóð af sér öll gjörningaveður. Líklega hafa fáir stjórnmálamenn orðið fyrir eins vægðarlausri gagrýni og hann.

Get ekki tekið undir að FRamsókn hafi 19. aldar blæ. Þó eftir því hvað við er átt. Ef  átt er við að hann sé þjóðlegur umbótaflokkur þá er það góð stefna og ætluð t.d. til að viðhalda sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Einkennilegt að þeir sem vilja ganga inn í ESB telji það ókost að hafa þjóðarímynd þótt það sé eitt af skilyrðum til að hverfa ekki í þjóðarhafið og verða hjáleiga ESB.

Það er Kaffibandalagið og Pulsubandalagið sem hafa skapað skörp skil í þessum kosningum og þá líkur til að stjórni haldi velli, sem er ekkert  verri kostur en eitthvað annað.

Miklar líkur eru til að Jónína og Jón komist inn ef þau verjast vel hatursfullri árás stjórnarandstöðunnar sem hefur fyrst og fremst að markmiði að komst til valda með orðaglamri að markmiðið fremur en ábyrga stefnumörkun.

Sá umrætt viðtal Helga Seljan við Jón Sigurðsson og var það frekar stirt vegna þess að Helgi var augljóslega ekki vanur spyrill. Hann á enn langt í land að verða afburða góður sjónvarpsmaður. Það verðu langsótt því mér finnst langt frá að hann sé hlutlaus og minnir mig ég hafi sett það inn á síðuna hans.

Auk þess mætti hann vera meira jákvæður og setja sig inn í þau mál sem hann tekur fyrir. En æfingin skapar meistarann og til þess þarf mikla sjáfsgagnsrýni, hógværð og festu.

Með kveðju.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 22.4.2007 kl. 00:25

10 identicon

Már Högnason (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 08:21

11 Smámynd: Óðinn Þórisson



Það er alltaf gaman að velta fyrir sér "ef".
Hvað ef Halldór hefði sleppt því að skipta sér af því hver yrði næsti formaður, hvað ef Guðni hefði tekið slaginn og í dag verið formaður, hvað ef Daný hefði ekki gefst upp, væri þá staða Framsóknar eins og hún er í dag ?

Ef Jón kemst ekki inn þá gera Framsóknarmenn lítið annað en endurskipuleggja sig frá grunni en ég er sammála Þrymi.

Óðinn Þórisson, 22.4.2007 kl. 11:05

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Þrymur: Já, það er mjög varhugavert að afskrifa Framsókn, enda hafa þeir oft tekið kosningar á 10-20 dögum, stundum skemmri tíma.

Gestur: Það verður fróðlegt hvernig fer fyrir Framsókn er á hólminn kemur. Þetta er merkileg staða. Það eru teikn á merki í könnun Fréttablaðsins að Framsókn sé að bæta við sig og því verður auðvitað spurt að leikslokum. Efast um að Framsókn nái kjörfylginu en þeir gætu farið í 14-16% ef vel fer á lokasprettinum.

Sigríður Laufey: Takk fyrir góðar pælingar. Það er alveg rétt að Framsókn hefur aldrei staðið rosalega sterkt í Reykjavík en þaðan komu þó þrír þingmenn flokksins síðast. En það verður fróðlegt að sjá hvernig fer núna.

Óðinn: Ef Íraksstríðið hefði ekki átt sér stað með þeirri fléttu sem varð með þátttöku innan ríkisstjórnar væri Halldór eflaust enn forsætisráðherra og í framboði núna í Reykjavík. Hann hefði tekið einar kosningar í viðbót ef ekki hefði sverft að honum t.d. vegna Íraksmálsins. Ef Halldór og hans armur hefði ekki skipt sér af innanflokksmálunum væri Guðni formaður núna væntanlega með Siv sem varaformann. Það er mín spá.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.4.2007 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband