Nicolas Sarkozy á sigurbraut í Frakklandi

Nicolas Sarkozy og Segolene Royal Fyrstu skoðanakannanir í Frakklandi eftir sigur Nicolas Sarkozy í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna í dag gefa til kynna að hann verði kjörinn forseti þann 6. maí nk. með nokkuð öruggum hætti. Hann mælist með 54% í baráttunni við Segolene Royal, frambjóðanda sósíalista, skv. könnun IPSOS í kvöld. Það stefnir því í að hann sé á sigurbraut í þessum kosningum altént á þessum tímapunkti.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessar kosningar fara, en Sarkozy hefur haft mjög sterka stöðu í könnunum í nokkra mánuði. Það er orðið mjög langt síðan að Royal hefur leitt í könnunum þar sem spurt er um afstöðuna til Sarko-Sego einvígis. Segolene Royal hefur verið mjög umdeild innan rótgróna valdakjarna Sósíalistaflokksins en samt sjarmerað vinstrið mjög og mun eflaust raka meginhluta þess fylgis alls saman á bakvið sig, ekki ósvipað Lionel Jospin (þó mjög lítið þekktur væri) í seinni umferð forsetakosninganna 1995, er hann tapaði fyrir Jacques Chirac. Það er reyndar athyglisvert að heil tólf ár eru síðan að alvöru vinstrimaður komst í seinni umferðina.

Nicolas Sarkozy mun eflaust taka fullt af fylgi frá miðjumanninum Francois Bayrou sem fékk um 20% í fyrri umferðinni í dag, mun meira fylgi en mörgum hefði reyndar órað fyrir er hann gaf kost á sér. Bayrou komst reyndar á kafla kosningabaráttunnar ótrúlega nærri því að sverfa að Royal og verða keppinautur Sarkozy um Elysée-höll en tókst er á hólminn kom ekki að skáka henni. Enda hefði það orðið sögulegt í meira lagi ef vinstrimenn hefðu ekki náð frambjóðanda í seinni umferðina aðrar kosningarnar í röð. Þó að Sarkozy sé mjög afgerandi til hægri og þyki pólitískur harðjaxl getur hann höfðað til stórs hóps miðjumanna sem fylgdu Bayrou.

Það virðist að vissu marki vera hægribylgja í Frakklandi. Það sást í góðri útkomu Sarkozy og Bayrou í dag. Það verður þó fróðlegt að sjá hversu góða kosningu Segolene Royal fær í seinni umferðinni, en hún er eins og flestir vita fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á franska forsetaembættinu. Ef hún nær kjöri verður það svo sannarlega sögulegt, enda yrði ásýnd evrópskra stjórnmála mjög athyglisverð og nýstárleg með konur bæði við völd í lykilríkjum svæðisins, Frakklands og Þýskalands, en dr. Angela Merkel hefur eins og flestir vita verið kanslari Þýskalands frá nóvember 2005.

Royal er viss vonarneisti evrópskra vinstrimanna og verður því vel fylgst með mælingu á henni og vinstrinu í forsetaeinvíginu við Sarkozy. Reyndar má segja með vissu að Jacques Chirac, fráfarandi forseti Frakklands, verði ekkert hoppandi glaður með sigurvegarann hvor sem hann verður, þó hann hafi lýst yfir stuðningi við Sarkozy. Milli þeirra hefur verið kuldalegt en þeir hafa greinilega grafið stríðsöxina sem svo mjög hefur svifið yfir samskiptum þeirra frá forsetakosningunum 1995 er Sarkozy studdi frekar Edouard Balladur en Chirac í fyrri umferðinni.

Það eru spennandi vikur í frönskum stjórnmálum. Nýr forseti verður svarinn í embætti þann 17. maí. Chirac hefur ekki fyrr kvatt og látið lyklana að Elysée-höll í hendur eftirmannsins en það skella á þingkosningar. Þar verður enn ein sterka mælingin á hægri og vinstri. Kosið verður 10. og 17. júní. Þar kemur mæling á valdablokk nýja forsetans og hversu sterkur hann/hún verður í raun næstu fimm árin og hvort til komi kannski stirð valdasambúð hægri og vinstri líkt og árin 1997-2002.

mbl.is Ný könnun: Sarkozy með meira fylgi en Royal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband