Par auglýsir eftir staðgöngumóður í Mogganum

Það vakti mikla athygli mína og eflaust fleiri annarra að sjá auglýsingu í sunnudagsblaði Moggans þar sem par óskar eftir konu sem gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir það. Kemur sérstaklega  fram að notaður yrði fósturvísir frá parinu. Eins og flestir vita er ekki löglegt að gera slíkt hérlendis, því yrði slíkt gert erlendis. Það er mjög merkilegt að sjá slíka auglýsingu, en það leikur varla vafi á því að þetta sé í fyrsta skipti sem svona nokkuð gerist hérna heima. Ef það eru önnur tilfelli endilega bendið þá á það.

Fjallað var um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 og rætt við lækni sem sagðist ekki telja rétt að taka fyrir þann möguleika að fólk geti eignast barn með þessum hætti og bendir á það sem við blasir að fyrir sum pör sé þetta eini möguleiki þeirra til að eignast börn. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki hvaða lög gilda í þessum efnum utan Íslands, en hér heima er eflaust móðir barns skráð móðir hans með afgerandi hætti. Eflaust er þetta opnara erlendis. Þetta allavega opnar spurningar og pælingar sem hafa lítið verið í deiglunni hérna heima.

Það er altént svo að ekkert sem bannar fólki að fara út til að fara í gegnum svona ferli. Á Stöð 2 var rætt við nokkrar konur og þær spurðar um hvort þær væru tilbúnar til að ala barn annars fólks og voru þær ekki beint jákvæðar fyrir því. Það verður fróðlegt að heyra umræðuna um þetta. Það er þó hægt að fullyrða að þessi Moggaauglýsing opnar pælingar í þessum efnum og fróðlegt að heyra ýmsar skoðanir.

Þar sem ljóst er að slíkt er ekki löglegt hér heima er það úr sögunni, en mér finnst ekki rétt að loka á slíkt erlendis þar sem slíkt er löglegt. Að því leyti tek ég undir skoðanir læknisins sem rætt var við á Stöð 2.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Stefán (góðan daginn!), þetta vekur óneitanlega margar spurningar. Helzt þeirra í mínum huga er sú, hvort tækni- eða glasafrjóvgun viðkomandi staðgöngumóður komi til með að fara fram með þeim óásættanlega hætti, að margir fósturvísar séu látnir verða til, en aðeins einn notaður og hinum "fleygt" eða þeir notaðir til "tilrauna og aðgerða", eins og til stóð í "stofnfrumufrumvarpinu". -- Í heldur lengri grein, með tengingu við annað mál (ættleiðingu í stað fósturdeyðingar!), er fjallað um þessa s.k. "staðgöngumæðrun" HÉR.

Jón Valur Jensson, 23.4.2007 kl. 07:45

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Annað vafaatriði, sem ég ætlaði að nefna, er sá möguleiki, að "staðgöngumóðirin" fari að upplifa svo sterkar tilfinningar til barnsins, sem hún gengur með, að hún vilji helzt eiga það sjálf! Þær lagaþrætur og erfiðleikar, sem af því gætu spunnizt (því að óneitanlega eru kynforeldrar barnsins hjónin, sem kostuðu þungunina), gera þetta lítt fýsilegan kost í sjálfum sér (fyrir utan hina mótbáruna, sem ég nefndi). Þetta er eflaust aðalástæðan fyrir því, að læknir, sem rætt er við í Mbl. í dag, telur heppilegast að fá náinn ættingja til að annast meðgönguna, enda má ætla, að þá geti málið gengið nokkurn veginn með friði og spekt. -- Reyndar er kunnugt um eitt dæmi um staðgöngumóður hér á landi, eins og fram kom í viðtali við annan lækni í Rúv í gær, en þar var einmitt um systur kynmóðurinnar að ræða.

Jón Valur Jensson, 23.4.2007 kl. 09:01

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir þessar pælingar Jón Valur.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.4.2007 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband