Jóhannesi Geir sparkað úr Landsvirkjun

Jóhannes Geir Sigurgeirsson Það vekur mikla athygli að forysta Framsóknarflokksins hafi ákveðið að sparka Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, fyrrum alþingismanni flokksins úr Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, af formannsstóli í Landsvirkjun. Jóhannes Geir hefur verið stjórnarformaður Landsvirkjunar í áratug, en hann tók við embættinu af Helgu Jónsdóttur, bæjarstjóra í Fjarðabyggð og fyrrum borgarritara, skömmu eftir að hann féll af þingi í kosningunum 1995.

Jóhannes Geir var þingmaður Framsóknarflokksins hér i NE kjörtímabilið 1991-1995, en hann skipaði þriðja sætið á lista flokksins, á eftir Valgerði Sverrisdóttur, í kosningunum 1987, 1991 og 1995 og náði aðeins kjöri í kosningunum 1991. Framsókn klofnaði í kosningunum 1987 vegna sérframboðs Stefáns Valgeirssonar en vann góðan sigur í kosningunum 1991 og hlaut þá þrjá menn undir forystu Guðmundar Bjarnasonar. Jóhannes Geir féll í kosningunum 1995 vegna fækkunar þingmanna í kjördæminu.

Það eru stórtíðindi að forysta Framsóknarflokksins slái af Jóhannes Geir. Hann var áhrifamaður hjá flokknum hér og var auk þingmennskunnar um árabil í stjórn KEA og stjórnarformaður KEA um langt skeið. Eftirmaður hans verður Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrum pólitískur aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, sem er ennfremur fráfarandi varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi. Það mun hafa komið til hvassra orðaskipta vegna þeirrar ákvörðunar að slá Jóhannes Geir af innan ráðherrahóps Framsóknarflokksins.

Mun þetta vera ákvörðun Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, sjálfs. Fróðlegt hvað Valgerður hafi sagt um þetta fall fyrrum samstarfsmanns síns í stjórnmálum, maður sem hún skipaði sjálf oftar en einu sinni til formennsku, verandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tæp sjö ár. Það er kaldhæðnislegt að heyra þessi tíðindi örskotsstundu eftir að birtist skoðanakönnun Gallups sem sýnir Framsóknarflokkinn í sögulegri fylgislægð hér í kjördæminu, sem hefur í áratugi verið lykilsvæði Framsóknarflokksins í stjórnmálum, eiginlega allt frá stofnun flokksins.

Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða eftirmál þessi tíðindi hafa, sem eru vissulega mjög stór og afdráttarlaus fyrir Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum bændahöfðingja hér nyrðra.

mbl.is Jóhannes Geir víkur úr stjórnarformennsku í Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Blessaður. Það er ýmislegt sem framsókn gerir sem gæti nú komið þeim illa. Þetta er doldið loðið dæmi. Sjálfstæðiskveðjur frá Selfossi

Ásdís Sigurðardóttir, 25.4.2007 kl. 20:50

2 Smámynd: S. Hjörtur Guðjónsson

Snýst þetta ekki bara um það að framsókn þarf að koma vonarpeing sínum í meir áberandi stöðu sem og að koma honum í frekari þjálfun áður en hann verðu leiddur fram sem komandi leiðtogi flokksins.

En hitt er og skiljanlegt að hann sé settur til hliðar.  Maðurinn er búinn að sitja þarna í 12 ár og er það ekki nokkuð ríflegt í því embætti sem ætti að vera leiðandi fyrir eitt stærsta fyriræki ársins.

S. Hjörtur Guðjónsson, 25.4.2007 kl. 21:03

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þetta er það sem maður fær þegar spilltir pólitíkusar stjórna öllu. Þess vegna styð ég kvótakerfið annars væri sama spillingin í fiskveiðiúthlutunum. Sennilega mun ég geta sætt mig við einkavæðingu orkufyrirtækjanna bara til að losna við svona Alfredóa sem einungis hafa komist í sína valdastóla vegna einhverra ósýnilegar  hæfileika sem enginn veit um.

Grímur Kjartansson, 25.4.2007 kl. 21:34

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Ennþá skýtur Framsókn sig í lappirnar.Nú er Páll Magnússon látin ryðja Jóhannesi Geir úr formannsstóli Landsvirkjunar.Nú er þessi heiðursmaður ekki  nýtilegur lengur.Ég hefði nú haldið,að Framsóknarfl.hefði ekki efni á meiri ágjöfum,en þetta verklag form.Jóns Sigurðssonar sýnir í hnotskurn hvað við getum vænst af honum.

Kristján Pétursson, 25.4.2007 kl. 21:51

5 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Var það stjórn Landsvirkjunar sem Árni Johnsen fékk sæti í þegar hann var enn á reynslulausn?  Eða var það einhver önnur ríkisstofnun?  Ég man það ekki.  En það var slæmt dómgreindarleysi, að mínu mati, af Framsóknarflokknum að skipa hann þar.  Eða var það Framsóknarflokkurinn sem skipaði hann?  Ég bara man það ekki.

Annar held ég að fáir stjórnmálaflokkar geti státað af hreinum skildi í skipunum í stöður.  Skildir stjórnarandstöðunnar eru jú hreinni en það er væntanlega, ef litið er til fortíðar, aðeins vegna þess að þeir hafa ekki verið í aðstöðu til að óhreinka þá.

Ég hef oft haldið því fram að stjórnmálaflokkar þjóni fyrst og fremst því hlutverki að vera farvegir fyrir spillingu.  Allavega væri vel hægt að komast af án þeirra og kjósa 63 hæfa einstaklinga til að sitja á þingi í stað 63 einstaklinga sem koma af listum sem fólki hefur verið leyft að kjósa.

Hreiðar Eiríksson, 25.4.2007 kl. 23:17

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Hreiðar: Árni Johnsen sat í stjórn RARIK áður en hann sagði af sér þingmennsku. Hann hélt því sæti í gegnum málið og var endurskipaður verandi enn á skilorði af Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra. Árni er ekki lengur í stjórn RARIK. Held að sá tími hafi runnið út 1. júlí 2006. En það eru hinsvegar sautján dagar þar til að hann verður þingmaður að nýju, illu heilli að mínu mati. En fólk kaus hann, eins ömurlegt og það annars var.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.4.2007 kl. 23:21

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aldrei hátt af öðrum bar,

átti ei mátt að glíma,

lifði á fláttskap framsóknar

fram að háttatíma. 

Stefán Vagnsson frá Hjaltastöðum. (ef ég man rétt)

Árni Gunnarsson, 25.4.2007 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband