Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - Framsókn hrynur

Kristján Þór Júlíusson Skv. kjördæmakönnun Gallups hér í Norðausturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn og tæplega 10% meira fylgi en í kosningunum 2003. VG bætir ennfremur við sig miklu fylgi á meðan að Samfylking og Framsóknarflokkur missa fylgi. Framsókn hrynur reyndar bókstaflega og missir tvo kjördæmakjörna þingmenn. Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin ná ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn: 31,3% - (23,5%)
VG: - 21,7% (14,1%)
Samfylkingin: 21,5% - (23,4%)
Framsóknarflokkurinn: 18% - (32,8%)
Frjálslyndir: 5,9% - (5,6%)
Íslandshreyfingin: 1,3%
Baráttusamtökin: 0,3%

Þingmenn skv. könnun

Kristján Þór Júlíusson (Sjálfstæðisflokki)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal

Steingrímur J. Sigfússon (VG)
Þuríður Backman

Kristján L. Möller (Samfylkingu)
Einar Már Sigurðarson

Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki)
Birkir Jón Jónsson

Fallinn af þingi
Sigurjón Þórðarson

Þetta er merkileg mæling vissulega. Þessi könnun er augljóslega gríðarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Valgerður Sverrisdóttir er nú fyrsti þingmaður kjördæmisins og forystumaður langstærsta flokksins í kjördæminu. Fari þetta á einhvern viðlíka veg og þessi könnun greinir frá er sá sess fokinn út í veður og vind og hún orðin leiðtogi 20% mínus framboðs í kjördæminu. Höskuldur virðist ekki vera að takast að skila fylgi héðan frá Akureyri. Fylgið mælist aðeins 15% hér á Akureyri t.d. sem er sama fylgi og flokkurinn hlaut hér í afhroðinu mikla í fyrra. Sú staða er alveg óbreytt, það er mjög athyglisvert.

Þessi könnun er ekki góð fyrir VG. Það er öllum ljóst. Kannanir hafa sýnt Steingrím J. og hans fólk með allt upp í 35% fylgi hér en sá meðbyr er farinn og flokkurinn stendur á pari við Samfylkinguna. Þeir eru vissulega nokkuð yfir kjörfylginu en þetta er könnun sem sýnir enn og aftur að Björn Valur Gíslason er ekki að fara að hljóta kjördæmakjör. Enda var nokkur vörn yfir tali Steingríms J. í kjördæmaþætti áðan. Birst hafa eins og fyrr segir kannanir síðustu vikur sem hafa jafnvel sýnt fjóra vinstri græna á þingi í kjördæminu. Það eru greinilega algjörir órar og Björn Valur færist sífellt fjær möguleika á þingsæti.

Samfylkingin tapar fylgi, þrátt fyrir að vera með Akureyringa í þriðja og fjórða sæti, bloggvinkonurnar mínar góðu Láru og Möggu Stínu. Þar er tveir miðaldra þingmenn í efstu sætum. Það kemur því ekki að óvörum að þeir keyra á konunum héðan frá Akureyri. Staða flokksins hér á Akureyri virðist vera góð og hefur flokkurinn styrkt sig hér aftur á kostnað vinstri grænna, enda er meiri veruleiki yfir stöðu Láru en Dillu Skjóldal, sundþjálfara og varabæjarfulltrúa hér á Akureyri. Enda munu Samfylkingarmenn heyja baráttuna á tali um möguleika Láru, sem er mesta stjarnan þeirra í stöðunni.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel og er að bæta við sig mjög miklu fylgi. Það heyrðist á tali Kristjáns Þórs í kjördæmaþættinum áðan. Hann var þar syngjandi sæll og glaður. Hann getur ekki annað. Samkvæmt þessu eru hann, Abba, Ólöf og Valdi á réttri leið og að fá mikinn meðbyr. Kristján Þór er í þessari stöðu mjög öruggur sem fyrsti þingmaður kjördæmisins og möguleikar hans á ráðherrasæti fari Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn aukast til muna með svo afgerandi kjördæmasigri hér. Kristján Þór ætlar greinilega að taka þessa baráttu sem reyndur stjórnmálamaður og hann kemur sterkur til leiks í baráttuna.

Ef marka má þessa mælingu er mjög stutt í Þorvald Ingvarsson inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er mjög góð staða. Það er ánægjulegt fyrir okkur hér að sjá sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins á svæðinu og þetta eru góð skilaboð í baráttuna. Okkar fólk þarf nú að sækja þetta fylgi. Ef marka má stöðuna viðrar vel, stórsigur blasir við og það er öllum ljóst að rödd Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á þingi og innan flokksforystunnar styrkist til muna með svona góðum sigri á heimaslóðum.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna hér. Margir eru þó enn óákveðnir og þar ráðast örlög frambjóðendanna hér í baráttusætum. Það leikur lítill vafi á því að spennandi 17 dagar eru sannarlega framundan í kosningabaráttunni hér.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG bæta við sig í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband