Vond staða Framsóknar í Kraganum - fellur Siv?

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirSkv. kjördæmakönnun Gallups í Suðvesturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn og tæplega 42% fylgi. Framsóknarflokkurinn nær ekki þingmanni, mælist aðeins með 6,5% fylgi og því er Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, utan þings. Samfylkingin stendur nærri kjörfylginu en VG hækkar mjög frá kjörfylginu vorið 2003, en missir nokkuð fylgi hinsvegar frá nýlegum kjördæmakönnunum. Frjálslyndir eru nokkuð langt frá því að ná inn manni og Íslandshreyfingin nær ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkur: 41,6% (38,4%)
Samfylkingin: 29,7% (32,8%)
VG: 14,8% (6,2%)
Framsóknarflokkur: 6,5% (14,8%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,9% (6,7%)
Íslandshreyfingin: 2,5%

Þingmenn skv. könnun

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Sjálfstæðisflokki)
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir

Gunnar Svavarsson (Samfylkingu)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason

Ögmundur Jónasson (VG)

Fallin skv. könnun

Siv Friðleifsdóttir

Þetta er merkileg mæling svo sannarlega. Þessi könnun er mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Það eru mikil tíðindi að ráðherra af kalíber Sivjar, sem einn af mest áberandi stjórnmálamönnum landsins, mælist utan þings aðeins níu dögum fyrir þingkosningar. Henni vantar talsvert enn til að teljast örugg og hljóta vondar kannanir fyrir Framsókn á höfuðborgarsvæðinu að vera grafalvarlegt áfall fyrir flokksmenn á svæðinu. Framsókn er að missa talsvert fylgi, um tíu prósentustig, frá síðustu kosningum skv. þessu. Það getur varla talist annað en gríðarlegt áfall fyrir Siv, sem greinilega rær pólitískan lífróður í kjördæmi sínu þessa dagana.

Samfylkingin styrkist nokkuð frá fyrri kjördæmakönnunum og er nærri kjörfylginu 2003. Það eru vissulega tíðindi. Það er orðið mjög langt síðan að Árni Páll hefur verið inni í könnunum sem kjördæmakjörinn og þetta því merkileg mæling hvað það varðar. Það er spurning hvort að það komi flokknum til góða að hafa kjördæmaleiðtoga úr Hafnarfirði. Það hafði klárlega áhrif í kosningunum 2003 er Guðmundur Árni Stefánsson leiddi kjördæmalistann, reyndar í eina skiptð á sínum stjórnmálaferli. Þeir hafa líkar öflugar konur á lista og ferska nýliða. Altént er ljóst að staða þeirra er mun betri þarna en hefur stefnt í um skeið.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum þingmanni skv. þessari mælingu og er yfir 40%, örlitlu yfir kjörfylginu. Staða Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, er mjög ótrygg skv. þessum mælingum og óvíst um hvort henni tækist að ná jöfnunarþingsæti á þessu. Reyndar er mikið fylgi að falla dauð niður skv. þessu svo að staðan er óljós. Hinsvegar er ég viss um að Þorgerður Katrín og hennar fólk vill sækja mun meira fylgi og tryggja stöðu Ragnheiðar betur en þetta, en fylgi upp á 45% myndi fara langt með að tryggja sjötta manninn með einum hætti eða öðrum. Þarna verður klárlega sótt fram.

VG bætir við sig mjög miklu fylgi, en hefur lækkað skv. nýlegum kjördæmakönnunum. Þarna mælist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ekki sem kjördæmakjörin, en það hefur verið staða mála um þónokkuð skeið. Ögmundur er því bara einn inni. Það er ljóst að Samfylkingin er að styrkjast á kostnað VG þarna. Það er spurning hvort að sigur stóriðjuandstæðinga í Hafnarfirði hafi komið niður á VG í kjördæminu, en augljóslega slaknaði mjög á umhverfismálunum í baráttunni eftir að það mál dó sem alvöru kosningamál á svæðinu, en á það ætlaði VG klárlega að herja. Um leið virðist Samfylkingin hafa rétt með því að hafa kosninguna í mars.

Frjálslyndir missa fylgi frá síðustu kosningum. Þeir náðu Gunnari Erni Örlygssyni á þing í þessu kjördæmi fyrir fjórum árum. Hann sagði skilið við flokkinn á miðju kjörtímabili. Nú leiðir Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, listann og vantar talsvert upp á þingsæti. Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, skipar annað sæti á lista frjálslyndra, en hann varð þingmaður á miðju tímabili við afsögn Guðmundar Árna en sagði sig úr Samfylkingunni eftir prófkjörstap. Hann er kolfallinn skv. öllum könnunum. Íslandshreyfingin nær svo ekki neinu flugi og greinilegt að varla verður Jakob Frímann þingmaður eftir níu daga.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi sólarhringar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar. Staðan virðist mjög opin og þarna gætu orðið stórtíðindi, sé litið á þessa könnun sem fyrirboða um stöðu mála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll Stefán 

Trúlega of snemmt að afskrifa Siv enn sem komið er. Eitthvað er fylgið að þokast uppá við og gæti vel skriðið í kjördæmakjör enn. Það yrði annars spennandi á kosninganótt ef ekkert þeirra nær kjördæmakjöri þeas. Jónína, Siv og Jón því væntanlega myndi amk. eitt þeirra komast inn sem uppbótarmaður. Inni/úti gæti því orðið þeirra hlutskipti þá nóttina. En ekki er sopið kálið fyrr en í ausuna er komið og það verður ekki fyrr en á kjördag.

Kv. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 3.5.2007 kl. 20:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Aldrei hef ég nú afskrifað framsóknarmenn, Guðmundur minn. Hef frekar bent á hér aftur og aftur að þeir hafi tekið kosningar á síðustu tíu dögum kosningabaráttunnar. Hitt er svo aftur annað mál að þetta er mun verri staða hjá Siv en fyrir kosningarnar 2003. Hinsvegar tel ég að hún muni varla falla. Það yrðu stórpólitísk tíðindi yrði henni hafnað með þessum hætti. Hinsvegar er staða framsóknarmanna orðin mjög grafalvarleg. Það verður fróðlegt að sjá könnun Gallups í fyrramálið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.5.2007 kl. 21:24

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, þetta eru auðvitað bara kjördæmasæti sem deilt er út þarna. Jöfnunarsætin eru rússnesk rúlletta. Það veit enginn hvað kemur út úr því. Þetta er hrein óvissa. Hinsvegar tel ég það nærri útilokað að Siv næði kjöri með svona lítið fylgi. Hún þarf að fá 9-10% til að vera alveg örugg.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.5.2007 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband