Viðbrögð framsóknarmanna við Jónínumálsskrifum

Jónína Bjartmarz Ég hef fengið talsverð viðbrögð frá framsóknarmönnum vegna skrifa minna um málið margfræga tengt veitingu ríkisborgararéttarins til Luciu Celeste Molina Sierra, tengdadóttur Jónínu Bjartmarz, bæði hér í kommentum á heimasíðunni og eins tölvupósta um málið. Það eru ekki allir sammála skrifunum, sumir telja greinilega óþarfa að skrifa um málið og öðrum finnst eðlilegt að skrifa um það.

Það eru auðvitað misjafnar skoðanir á skrifunum, enda varla við öðru að búast. Ég held að þessi vefur væri ekki spennandi ef allir sem hér koma inn væru sammála hverju orði. Met það mikils þó að heyra í fólki um skrifin, þetta mál og svo bara varðandi kosningarnar. Fæ miklu meiri komment en bara hér á vefnum. Það er alltaf gaman að lesa tölvupóst frá þeim sem lesa. Þeir sem eru ósammála senda oft ágætis línu, stundum koma miður skemmtileg komment frá nafnlausum en flestir eru kurteisir og málefnalegir.

Persónulega tel ég að mjög margir hafi verið mun hvassari í skrifum um þetta Jónínumál en ég. Vissulega hef ég skrifað um það nokkrar færslur og velt upp álitaefnum og óhikað haft á því skoðanir, enda hví ekki? Við lifum í samfélagi skoðana, fólk er að blogga allan daginn til að hugsa um það sem er að gerast, koma skoðunum niður á blað fyrir sig og þá sem vilja líta í heimsókn. Þegar að ég byrjaði að blogga skrifaði ég bara fyrir mig og nokkra félaga sem höfðu gaman af að lesa. Lesendahópurinn hefur stækkað talsvert. Ég hef þó ekkert breyst.

Ég skrifa þegar að ég finn hjá mér þörf að gera það. Stundum skrifa ég mikið, stundum lítið. Stundum skrifa ég hikandi til að pæla mig áfram í málinu, stundum með hvöss og afgerandi skrif. Þó koma þau öll frá hjartanu, enda á maður að skrifa sé maður sannfærður um hvað sé rétt. Ég hef aldrei verið halelúja-maður fyrir einn flokk eða einhvern einn mann. Það er enginn fullkominn í þessum heimi. Sjálfur þoli ég ekki þá sem verja sinn flokk algjörlega út í dauðann. Það er mikilvægt að þora að vera gagnrýninn, meira að segja á garðinn sinn.

Þannig skrifa ég og þannig verður þetta bara. Það gildir það sama um þetta Jónínumál eins og skrifin um veðrið á Akureyri. Vilji ég skrifa og telji þörf á að koma einhverri skoðun frá mér kemur hún bara. Svo fæ ég bara viðbrögð. Eina sem ég vil er málefnalegt spjall um skrifin. Sjálfur hef ég alla tíð vanið mig á að vera málefnalegur og reyna að skrifa með þeim forsendum um öll mál. Og ætlast ekki til annars en að þeir sem svari geti verið málefnalegir líka.

Þeir sem hafa eitthvað að segja en vilja ekki segja það hér geta óhikað haft samband. Það er alltaf gaman að kynnast góðu fólki með skoðanir. Það er líka stóri kosturinn við þennan vettvang að maður kynnist alltaf nýju fólki og böndin við góða vini sem lesa verða alltaf traustari. Það er engin skylda hér að vera sammála um allt.

Jónínumálið er bara eitt þeirra mála sem þarf að skrifa um í dagsins önn og það gerum við svo mörg, held að ég hafi hvorki verið orðhvatastur í þeim efnum eða svosem hógværastur - en mitt á milli einhversstaðar, en það er þá bara gott að fá viðbrögð þeirra sem lesa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Haltu þínu striki, fyrir alla muni. Hef reyndar litlar áhyggjur af þér hvað það varðar, en það er sjálfsagt að lýsa yfir stuðningi fyrst þú ert að fá ágjöf í bland

Jón Agnar Ólason, 6.5.2007 kl. 02:48

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Heill og sæll Jón Agnar

Ég er svo sannarlega í góðum gír í að skrifa. Ég held að ég hafi aldrei staðið sterkar við skrifin en núna. Enda fæ ég góð viðbrögð á skoðanir mínar, eðlilega eru ekki allir sammála þegar að maður er að skrifa um hitamál. En ég hef sýnt það á vefnum að ég þori að láta vaða, skrifa af krafti og það heldur svo sannarlega áfram. Allavega ég held mínu striki heldur betur. Takk fyrir góðu orðin. Það er alltaf gott að eiga góða lesendur.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.5.2007 kl. 03:02

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er einn af sauðtryggum fastagestum þínum.   Takk fyrir málefnalegan og góðan vef sem ég myndi ekki vila vera án.

Sigurður Þórðarson, 6.5.2007 kl. 06:26

4 Smámynd: rn

Um að gera að halda áfram á þessari braut, oft gott að lesa lýsingar annarra á atburðum líðandi stundar og pælingar þeirra þar að lútandi. Hef fylgst með skrifum þínum um JB og yfirleitt verið sammála þér. Eitt sem ég hef þó verið að velta fyrir mér í þessu sambandi, kemur 24 ára reglan þessu máli ekkert við? Finnst hún einhvern veginn algerlega hafa gleymst í þessu en ég hef svo sem lítið vit á þessu ;)

rn, 6.5.2007 kl. 08:58

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þetta er flottur og málefnalegur vefur hjá þér Stefán

Varðandi Jónínumálið þá er þetta mál að sjálfsögðu mjög erfitt fyrir hana og flokkinn en það var eðlilegt að ræða það og það hefur þú gert mjög vel.

Óðinn Þórisson, 6.5.2007 kl. 10:28

6 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Þú mátt eiga það að vera einn almálefnalegasti pólitískastipenninn hérna á moggablogginu. Ég fæ allavegana það á tilfinningunni að þú sért að skrifa frá hjartanum en ekki með pólískar upphrópanir til að reyna að vekja athygli á pólitískum málstað. Haltu áfram ótrauður..

Ingi Björn Sigurðsson, 6.5.2007 kl. 10:54

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þú ert sanngjarn í þínum skrifum. Ástæðan fyrir því hversu hvass ég hef verið er að ég er kominn með upp í kok af því að Framsóknarmenn svari ekki fyrir sig órökstuddum dylgjum og óhróðri. Slík endurtekin skrif og framsetning endar á því að fólk fer að trúa því. Þú ert ekki einn af þeim sem ég er að vísa til, svo því sé til haga haldið.

Gestur Guðjónsson, 6.5.2007 kl. 11:21

8 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Tek undir með Gesti Guðjónssyni og fleirum varðandi þín skrif. Gaman að koma inn á þessa síðu og mættu fleiri taka þig til fyrirmyndar varðandi greinarskrif. Nauðsynlegt að "mæra" þá aðeins sem gera vel þó maður sé ekki alltaf sammála skoðunum þeirra á málefnum.

Jóhann Rúnar Pálsson, 6.5.2007 kl. 12:04

9 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Hvaða "Jónínumál" er verið að tala um.  Ég kannast ekki við neitt slíkt mál.  Þetta mál sem verið er að fjalla um væri nær að kalla "BjarnaBen-málið" því að ef einhver hefur brotið eitthvað af sér, eða gert eitthvað óeðlilegt, þá er það formaður allsherjarnefndar Alþingis. 

Engum virðist finnast það koma málinu við að það var undirnefnd allsherjarnefndar, skipuð Bjarna, Guðjóni og Guðrúnu, sem tók ákvörðun um að mæla með því að Alþingi veitti þennan ríkisborgararétt.  Hafi eitthvað misferli átt sér stað, þá var það framið af þessum þremur einstaklingum, einum eða fleiri.  Bjarni Benediktsson var formaður þessarar undirnefndar og einnig formaður allsherjarnefndar.  Hann hlýtur þar með að bera ábyrgð á þessu meinta "misferli". 

Hvaða ákvörðun tók Jónína í málinu?  Hvar ritaði hún nafn sitt eða setti penna á blað vegna málsins?  Í hverja hringdi hún?  Enginn hefur getað sýnt fram á aðkomu Jónínu að málinu.  Ekki aðra en að hún hafi sagt tengdadóttur sinni að það væri hægt að sækja um að Alþingi veitti ríkisborgararétt.  Ekki er það spilling; þ.e. að segja útlendingum rétt til um íslenska löggjöf.

Hvernig ætti 24 ára reglan að koma málinu við?  Hún snýst ekki um ríkisborgararétt.  Ég er eiginlega ekki hissa á því að fólk skuli tengja málið svona frjálslega við Jónínu ef það skilur ekki um hvað málið fjallar.  Því ekki bara að hengja leigubílstjórann sem skutlaði stelpunni með umsóknina.  Mér skilst að hann sé flokksbundinn VG.

Hreiðar Eiríksson, 6.5.2007 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband