Hver verður næsti forseti Frakklands?

sarko-sego Sjötti forseti Franska fimmta lýðveldisins verður kjörinn í dag. Nýr forseti mun taka við völdum í Elysée-höll eftir ellefu daga, er Jacques Chirac, lætur af forsetaembætti eftir tólf ára forsetasetu. Allar skoðanakannanir benda til þess að Nicolas Sarkozy, fyrrum innanríkisráðherra, verði kjörinn forseti Frakklands í dag og vinni Segolene Royal nokkuð afgerandi.

Sarkozy vann sigur í fyrri umferðinni, þann 22. apríl,  með rúmlega 30% atkvæða en Royal hlaut rúm 25%. Næst þeim varð miðjumaðurinn Francois Bayrou með tæp 20%. Þjóðernisöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen sem komst óvænt í seinni umferð forsetakosninganna 2002 fékk rúm 11% þá. Kjörsókn í þessari fyrri umferð forsetakosninganna var hin mesta frá forsetakosningunum 1974, er Valery Giscard d´Estaing var kjörinn eftirmaður Georges Pompidou.

Flestir hafa í gegnum þessa kosningabaráttu talið að þetta yrði einvígi Sarkozy og Royal. Fjölmiðlar í Frakklandi hafa allt frá vorinu 2006 talað um forsetakosningarnar 2007 sem Sarko-Sego kosningar. Þau eru hefðbundnar andstæður vinstri og hægri og því eru valkostirnir eins afgerandi og þeir geta í raun orðið fyrir franska kjósendur. Þungu fargi var létt af sósíalistum við úrslit fyrri umferðarinnar, þó að Sarkozy hafi unnið Royal, enda óttuðust margir að eins færi fyrir Royal og Lionel Jospin vorið 2002 er hann var sleginn harkalega út af taflborði franskra stjórnmála í einu höggi er hann tapaði mjög óvænt.

Þessar kosningar marka endalok litríks stjórnmálaferils Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem hefur verið lykilspilari í frönskum stjórnmálum í áratugi og verið áberandi þar allt frá valdadögum stríðskempunnar Charles De Gaulle. Það verður fróðlegt hver úrslit verða í dag - einu kappræður kosningabaráttunnar fóru fram í vikunni. Þar missti Royal stjórn á sér í garð Sarkozy, en það funaði á milli þeirra. Kannanir hafa sýnt mjög vel að bilið breikkaði milli Sarko og Sego eftir kappræðurnar.

Forseti Frakklands er einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims. Það verður fylgst vel með því hvort að hægri- eða vinstribylgja verður í Frakklandi í dag er nýr húsbóndi í Elysée-höll verður kjörinn.

Það hefst nýr tími í frönskum stjórnmálum í dag hvernig sem fer. Nýr forseti verður fyrsti franski þjóðhöfðinginn fæddur eftir seinni heimsstyrjöldina og verður því leiðtogi nýrra tíma nú þegar að Jacques Chirac hættir.

mbl.is Sego eða Sarko? Vinstri eða hægri? Vinna eða velferð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Nicolas Sarkozy, klárlega. Það sem Royal búðingnum hefur mistekist er að reyna að höfða til miðjufylgisins í pólitíska landslaginu þarna í Frakklandi. 

Sveinn Arnarsson, 6.5.2007 kl. 15:07

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Nú líst mér á þig Svenni. Algjörlega sammála þér um þetta. Sarkozy er ekki fullkominn en það sannaðist vel í baráttunni að hann var mun betur færari um að takast á við þetta verkefni en Royal, þó ágætis kona sé. Henni tókst ekki að ná miðjunni með sér að fullu og svo fór sem fór. Mjög vondur skellur fyrir sósíalista sem hafa ekki ráðið í Elysée-höll í sautján ár við næstu forsetakosningar og ekki haft landsstjórnina á sínu valdi frá árinu 2002. Annars eru þingkosningar í næsta mánuði.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.5.2007 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband