4 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri

Ég horfði á athyglisverðan umræðuþátt Ríkissjónvarpsins frá Egilsstöðum á kosningaskrifstofunni í Hafnarstræti í kvöld með Ólöfu Nordal, verðandi alþingismanni, og fleira góðu flokksfólki. Helgi frændi minn Seljan og Jóhanna Vigdís stjórnuðu umræðum. Talað var um umhverfis- og atvinnumál. Líflegt spjall og gaman að fylgjast með, enda alltaf líflegir framboðsfundir fyrir austan. Það var áhugavert að heyra umhverfisspjallið. Guðfinna stóð sig vel í þeim hluta. Vandræðalegt var mómentið fyrir Ósk Vilhjálms þegar að spurningin um Ómar Ragnarsson kom úr sal.

Mér fannst miklu meira fútt í seinni hlutanum. Þar voru fjórir flokksleiðtogar í Norðausturkjördæmi í frontinum; Kristján Þór, Valgerður, Kristján Möller og Sigurjón Þórðar. Auk þeirra voru þarna Guðfríður Lilja og Ásta Þorleifs. Áhugavert að heyra skoðanir þeirra. Sérstaklega mikilvægt að heyra skoðanir um álver við Bakka. Það er mjög mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa í norðanverðum hluta þessa kjördæmis. Það er með réttu aðalkosningamálið víða, einkum skiptir máli fyrir Þingeyinga að þeir fái að nýta orku sína með þessum hætti.

Þetta mikilvæga mál þarf að ræða vel og nauðsynlegt að fara hringinn og fá skýr svör. Með réttu ætti að halda íbúakosningu í Norðurþingi um þetta mikilvæga mál. Það er talað fjálglega um íbúalýðræði og mikilvægi þess. Mér finnst oft vinstri grænir vilja skakkt íbúalýðræði; þ.e.a.s. kosningar sem falla bara eftir þeirra skoðunum. Enda má ekki gleyma því að vinstri grænir í Hafnarfirði og fleiri reyndar töluðu með þeim hætti að það skipti í sjálfu sér engu máli hvað upp úr kössunum kæmi; samt yrði nei ofan á varðandi stækkun álvers Alcan.

Vinstri grænir og Íslandshreyfing eru blanko í atvinnumálum. Steingrímur J. hefur verið tómur hvað þau mál varðar er spurt er um það hér í Norðaustri þessar örlagaríku pólitísku vikur um hvað eigi að gera á Húsavík ef þessi innspýting eigi ekki að koma. Það er bara sagt pass. Það gerðist líka í kvöld. Gott og vel, þau mega hafa vissulega hafa þá skoðun. En þetta er óábyrgt. Þetta tóma spil er blanko í gegn hjá vinstri grænum. Til þess að geta talið upp einhverja atvinnuuppbyggingu á svæðinu taldi Steingrímur J. upp bjórverksmiðju, mjög glæsilegt fjölskylduframtak á Árskógssandi, en bíddu nú við, var ekki Steingrímur J. á móti bjórnum?

Það stefnir í spennandi kosningar hér. Við fáum væntanlega ekki fleiri kjördæmakannanir. Það er unnið vel hjá öllum flokkum. Það er spenna yfir stöðunni og fáir sem vita hvað kemur upp úr kössum á laugardag og aðfararnótt sunnudags, en hér liggja úrslit varla fyrir fyrr en undir morgun í síðasta
lagi. Ég lít svo á að atvinnu- og samgöngumál séu hér lykilmál. Staða mála á Húsavík verður lykilmál. Það sjá allir. Sumir hafa skýra stefnu varðandi það hvað eigi að gerast þar, aðrir segja pass.

Vonandi munu pass-flokkarnir í atvinnumálum og uppbyggingu svæðanna hér ekki fá góða kosningu hér í Norðausturkjördæmi á laugardag. Ég stóla sérstaklega á það að Þingeyingar og íbúar á öllu kjördæmissvæðinu hugsi þau mál vel áður en kosið er hvert skal stefna til framtíðar miðað við svör á Egilsstöðum í kvöld um framtíðarmöguleikana miklu við Bakka. Þeir skipta mjög miklu máli. Stöndum vörð um framtíð þessa svæðis með afgerandi hætti!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég treysti því að mínir heimamenn standi sig í kosningunum og kjósi rétt fyrir sig.   Suðurlandskveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 9.5.2007 kl. 00:22

2 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Sæll enn og aftur Stefán!

Þú bregst ekki frekar en fyrri daginn í pælingunum hér á blogginu. Hef haft gaman af þessum pælingum þínum. Á til með að "mæra" þig aðeins að hætti Húsvíkinga. Fannst hreint út sagt stóriðjuandstæðingarnir þarna í kvöld fara heldur hraklega út úr þessum umræðum varðandi atvinnuuppbyggingu o.fl.. Er algjörlega sammála síðustu efnisgreinum þínum hér fyrir ofan. Kemur til með að skipta gríðarlega miklu máli fyrir svæðið í kringum Húsavík, þ.m.t. Eyjafjörðinn hvernig skipast í næstu ríkisstjórn m.t.t. stóriðju við Bakka. Í mínum huga er það Framsóknarflokkurinn sem hefur verið allan tíma í frontinum fyrir þeirri uppbyggingu (með stuðningi Sjálfstæðismanna) með Valgerði Sverrisdóttur í forsvari. Tel að fyrir þá sem vilja sjá þessa stóriðju rísa hér fyrir Norðan þá sé besti kosturinn að kjósa Framsókn.

Jóhann Rúnar Pálsson, 9.5.2007 kl. 00:31

3 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Er hægt að kjósa rétt - er eitthvað að treysta á öll þessi kosningaloforð

Hugleiðingar um þær á blogginu mínu þar lofar Kristján Þór ......

Rúnar Haukur Ingimarsson, 9.5.2007 kl. 08:21

4 Smámynd: Gaukur Úlfarsson

Ég er sammála mörgu sem þú skrifar einsog oft áður Stefán, finnst samt mikilvægt að benda á að sú gagnrýni sem VG hafa fengið varðandi atvinnumálin finnst mér ekki sanngjörn. Í atvinnumálum eru VG nokkuð meira til hægri en gengur og gerist hjá öðrum flokkum. Á meðan Íhaldið plantar niður álverum hingað og þangað til þess að "leysa" atvinnuvanda landsbygðarinar, í stað þess að láta fólkið sjá um það sjálft, vilja VG styrkja samgongurnar, fjarskiptin og hlúa að jarðveginum til þess að íbúarnir verði samkeppnishæfir á markaðnum.

Þetta finnst mér reyndar sýna hvað þessar hægri-vinstri pólitík er afstæð.

Gaukur Úlfarsson, 9.5.2007 kl. 10:00

5 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll bloggvinur.

Ég hélt þú værir ekki talsmaður ríkisforsjár í atvinnumálum en annað sýnist vera uppi á teningnum. Þú tekur undir með forystumönnum stjórnarflokkanna sem sjá ekki annað ráð en laða hingað sem flest risaálver með því að láta meitihluta sinn í stjórn Landsvirkjunar falbjóða íslenskar orkulindir. Mottó þeirra er "Öll egg í eina körfu". Á næstunni ræðst hvort Alcoa tekst að gleypa Alcan og þá þrengir enn að samningsstöðu þeirra sem halda vilja áfram stóriðjurúllettunni á kostnað almennings. Er ekki vænlegra að hlúa að jarðvegi fyrir fjölbreytt atvinnulíf og segja skilið við þá hugsun að það sé stjórnmálamanna þykjast geta úthluta ðfyrirtækjum hingað og þangað?

Hjörleifur Guttormsson, 9.5.2007 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband