Fylgi flokkanna á fleygiferð - stjórnin fallin?

Könnun (9. maí 2007) Þegar að tveir sólarhringar eru þar til að kjörstaðir opna er athyglisvert að fylgjast með könnunum á lokaspretti kosningabaráttunnar. Þær sýna mjög misjafna stöðu - fylgið er á fleygiferð. Í könnun Félagsvísindastofnunar sem kynnt var á Stöð 2 í gærkvöldi birtist sú mynd að ríkisstjórnin væri fallin; mældist með 30 þingsæti en kaffibandalagsflokkarnir hefðu meirihluta og 33 þingsæti.

Á þessum sama miðvikudegi birtist fyrst könnun sem sýndi Framsóknarflokkinn í hæstu fylgishæðum árum saman, með 14,6% og níu þingsæti, í raðkönnun hjá Gallup, sem er langmesta fylgið í formannstíð Jóns Sigurðssonar og gaf byr undir báða vængi þeim sögusögnum að flokkurinn væri jafnvel að fara að endurtaka fylgisaukninguna á lokaspretti kosningabaráttunnar vorið 2003.

Síðan birtist fyrrnefnd könnun á undan leiðtogaumræðum á Stöð 2. Þar mældist Framsókn svo fallin niður á fyrri slóðir í vikubyrjun hjá Gallup; innan við 9% fylgi og aðeins fimm þingsæti í hendi. Munurinn milli þessa kannana er með ólíkindum. Reyndar er athyglisvert að líta á þrjár raðkannanir Gallups dag eftir dag. Á mánudag var fylgið 7,6%, á þriðjudag 9,8 og í gær var það eins og fyrr segir 14,6%. Hækkunin milli kannana þriðjudags og miðvikudags er reyndar svo ótrúlega mikil að langt er síðan hefur sést annað eins. Beðið er eftir næstu raðkönnun til að sjá hvort Framsókn helst á þessum lokasprettabónus í kosningabaráttunni hjá Gallup.

Í könnuninni á Stöð 2 stendur Samfylkingin mjög nærri kjörfylginu. Fylgið þarna er 29,1%, aðeins tveim prósentustigum undir kjörfylginu og flokkurinn með 19 þingsæti í hendi. Þetta er besta könnunin fyrir Samfylkinguna í óratíma og ekki undrunarefni að Ingibjörg Sólrún væri alsæl í leiðtogaumræðunum. Fyrr sama dag birtist hinsvegar raðkönnun Gallups sem sýndi Samfylkinguna fjórum prósentustigum neðar, með stöðuna í rétt rúmlega 25%. VG er í könnuninni á Stöð 2 með 16,2% og 11 þingsæti í hendi en Gallup-könnunin sýnir VG í frjálsu falli með 14% og aðeins níu sæti, sem er orðin óveruleg aukning fyrir VG frá vorinu 2003.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur horfst í augu við ótrúlegar sveiflur þessa vikuna. Í raðkönnun Gallups á mánudag var fylgið rúm 41% og flokksmenn brostu út í eitt og töldu glæsilegan sigur í sjónmáli. Á þriðjudag sljákkaði fylgið um þrjú prósentustig og sama gerðist í raðkönnun gærdagsins. Staðan var þá að flokkurinn var í rúmum 35%, aðeins tveim prósentustigum yfir kjörfylginu og væri að bæta litlu þannig séð við sig. Munurinn milli daganna þriggja er áminning til Sjálfstæðisflokksins um að ekkert er gefið í þessum kosningum og lokaspretturinn skiptir miklu. Enda er ekki furða að Geir Haarde brýni sitt fólk til dáða þessa síðustu sólarhringa.

Það er athyglisvert að fylgjast með frjálslyndum þessa dagana. Þeir virðast vera að rokka á milli 5 og 6,5% og á milli þess að vera með þrjá eða fjóra þingmenn. Þeir eru semsagt á svipuðu róli undir forystu Guðjóns Arnars og í kosningunum 2003. Athyglisverðustu tíðindi þessara kannana er að þær sýna Magnús Þór varaformann og Sleggjuna að vestan, Kristinn H. Gunnarsson, kolfallna. Það ætti að lækka eitthvað kjaftastuðullinn á þingi verði það ofan á. En að öllu gamni slepptu verður fróðlegt hvernig gengi frjálslyndra verður eftir tvo daga. Íslandshreyfingin er ekki að ná neinu alvöru flugi en rokkar hjá Gallup til og frá en vantar enn þónokkuð.

Þessar kannanir í gær, raðkönnunin hjá Gallup og Stöðvar 2 könnunin, eru í fljótu bragði kannski ólíkar að nokkru leyti og virðast í hrópandi ósamræmi hvor við aðra. En þær segja eitt. Sú skelfilega tilhugsun að til sögunnar komi vinstristjórn vaknar við að líta þessar kannanir augum. Þær sýna að staðan er að breytast á lokasprettinum og ekkert er gefið um eitt né neitt. Fylgið er á fleygiferð. Þeim fækkar sífellt sem ganga í flokk sextán og eru kristnaðir einum flokki alla sína tíð. Fólk er í auknum mæli að hugsa hlutina allt til enda og tekur ákvörðun seint og um síðir eftir mikinn þankagang, jafnvel í kjörklefanum eitt með sjálfu sér.

Kosningarnar eftir tvo daga eru mjög spennandi. Þær eru kannski steindauðar málefnalega séð, en kannanalega séð virðist allt vera opið. Staða Sjálfstæðisflokksins virðist góð á pappírnum en það er ekkert fast í hendi með eitt né neitt fyrr en talið hefur verið upp úr kössum. Þessar kannanir færa eflaust flokksfélögum mínum kraft til að vinna af krafti. Heilt yfir verður áhugavert að sjá síðustu 48 klukkutíma baráttunnar.

Það eru bara röskir 48 klukkutímar þar til kjörstaðir opna og örlagastundin er í sjónmáli, stundin þegar að tölurnar streyma inn, tölurnar sem skipta máli er á hólminn kemur. Þó að kannanir séu oft á tíðum óttalegur leikur að tölum og þingsætum eins og tindátum í spilamennsku eru þær fróðlegar og góðar. Sjálfum hefur mér alltaf þótt gaman af að stúdera þær og það hafa lesendur hér séð vel.

En þær hverfa allar í skuggann þegar að tölur koma úr kjördeildum, úrslitin fara að ráðast. Þá verða þær aðeins fjarlæg minning. Kannanir sýna nú hvað getur mögulega gerst síðustu dagana, en enn er 1/3 óákveðinn og þegar að hann tekur af skarið ráðast örlögin. Þá verður enn skemmtilegra að greina vindana sem ráða því sem gerist á næstu árum!

mbl.is Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: KRISTJÁN SVEINBJÖRNSSON

Skynja það svo að flestir fagni því að ríkisstjórnin falli enda vilja 70%  aðra ríkisstjórn en nú er. Þessi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks er kominn á tíma, out of date.

Eigum við ekki að skipta út liðinu, fá nýtt lið?

Þekkjum það að nýir vendir sópa best.

Innan Samfylkingarinnar er traust og öflugt lið. Tel rétt að kjósa Samfylkinguna í þessum kosningum. 

KRISTJÁN SVEINBJÖRNSSON, 10.5.2007 kl. 09:41

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Mér finnst það nú einkennileg stærðfræði ef rúmlega 59% fylgisaukning telst óveruleg. Úr 8,8% í 14%

Sigurður Sveinsson, 10.5.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband