Kosningabaráttu lokið - lokaumræður leiðtoganna

Leiðtogar Kosningabaráttunni við alþingiskosningarnar 2007 lauk fyrir stundu með lokaumræðum leiðtogum stjórnmálaflokkanna í Ríkissjónvarpinu. Kjörstaðir opna eftir 12 klukkustundir og sólarhringur er í fyrstu tölur í kosningunum. Örlögin ráðast því brátt og nú er teningunum kastað og fátt sem leiðtogarnir sex geta gert.

Að margra mati hefur þetta verið mjög daufleg og beinlínis leiðinleg kosningabarátta. Finnst mér svo vera, mér finnst hitinn í henni aldrei hafa hafist í raun að ráði. Hún þaut framhjá manni eins og laufblað í vindi. Málefnaátök þessarar kosningabaráttu voru ekki mikil. Helst var tekist á um velferðarmálin. Umhverfismálin, sem ég taldi lengi vel að yrði aðalmálið, gufuðu upp eftir Hafnarfjarðarkosninguna 31. mars.

Mér fannst leiðtogaumræðurnar í kvöld frekar dauflegar. Þar kom svosem fátt nýtt fram að ráði. Þetta voru daufari umræður en á Stöð 2 á miðvikudagskvöldið. Það var beitt og lífleg umræða, brotin upp með skemmtilegri one-on-one yfirheyrslu spyrils á leiðtoga. Þar var nýstárleg leiðtogaumræða og áhugaverð. Þetta var hefðbundið kvöldið-fyrir-kjördag-spjall hjá Ríkissjónvarpinu. Klassískt og gott vissulega, en að sama skapi litlausara. Elín Hirst og Þórhallur Gunnarsson stýrðu umræðum fimlega og flestir leiðtogar stóðu sig vel.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komu best út sem fyrr að mínu mati. Mér finnst Ingibjörg Sólrún hafa styrkst á lokasprettinum og hún kemur fram af meiri öryggi og festu en var lengi vel eftir formannskjör hennar fyrir tveim árum. Geir er auðvitað mjög reyndur stjórnmálamaður og býður fram reynslu sína og er fimur í umræðum af þessu tagi, að sama skapi er hann þó ekki eins hvass og Davíð Oddsson var, en hann beit frá sér og gat læst klónum grimmilega í andstæðingana í takt við köttinn.

Jón Sigurðsson talar fyrir flokki sem horfist í augu við sögulegt afhroð - þar ríkir óvissa um hversu mikið höggið verði á morgun. Steingrímur J. Sigfússon kom fram með svipuðum hætti og á miðvikudag, hann hefur mikla reynslu og verður næstþaulsetnasti þingmaðurinn um helgina. Steingrímur hefur verið snillingur í að tala sig frá málum, en gerir það fimlegar en margir landsbyggðarfulltrúar flokksins sem tala gegn stóriðju án þess að benda á aðrar lausnir í atvinnumálum. Það var mjög áhugavert að heyra skoðanir hans á málum, en enn er þögn VG í þessum málum ansi áberandi.

Ómar Ragnarsson er í talsverðum vanda. Flokkurinn hans virðist engu flugi vera að ná. Það var því varla furða að Þórhallur spyrði Ómar hvað væri orðið um fólkið sem gekk með honum niður Laugaveginn í fyrrahaust. Það virðist hafa gufað upp frá umhverfismálunum eða fylkja sér til annarra átta. Það er auðvitað erfitt fyrir flokksformann að mæta til svona umræðna tólf tímum fyrir opnun kjörstaða og talandi fyrir flokki sem mælist ekki í neinni alvöru stöðu. Guðjón Arnar stóð sig ágætlega og hefur bætt sig síðustu vikurnar.

Eins og fyrr segir hefur þetta verið mjög bragðdauf kosningabarátta málefnalega séð. En þegar að litið er á skoðanakannanir er hún bráðlifandi og fersk, fáir vita hvað er að fara að gerast. Staða ríkisstjórnarinnar er mjög í óvissu og svo gæti farið að saga hennar yrði öll innan 30 klukkustunda. Staðan er lífleg séð útfrá pælingum stjórnmálaáhugamanna og ég sem hef skrifað talsvert um pólitík og kannanir hef haft gaman af þessu og vona að lesendurnir hafi notið þess líka.

Nú er baráttunni lokið - örlagadagurinn er framundan. Það eru spennandi tímar framundan á hvaða veg sem þessar kosningar munu fara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Borgþórsson

Sæll Stebbi  Þessi kosningabarátta hefur verið mjög dauf.  Oft hér á árunum áður tókust  menn á með málefni og stefnur.  Það var miklu skarpari skil á vinstri og hægri stefnu.  VG eru þeir einu sem skera sig úr, þar eru en leifar af gömlu kommunum. 

Halldór Borgþórsson, 11.5.2007 kl. 22:22

2 Smámynd: Steingrímur Páll Þórðarson

Þetta verður spennandi kosning - vona þó að stjórnin haldi velli.

Steingrímur Páll Þórðarson, 11.5.2007 kl. 22:40

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Fannst þetta mjög skemmtilegar umræður í kvöld.

Allir formenn stjórnarandstöðuflokkana töluðu um að ekkert atvinnuleysi væri, hvernig var það þegar þessi stjórn tók við?

Steingrímur sagðist geta talið upp í allt kvöld sprotafyrirtæki um allt land þó svo að þau eigi ekki að geta verið til vegna stóriðjunnar.

Svona mætti áfram telja

Nokkuð ljóst hvað maður krossar við á morgun

Ágúst Dalkvist, 11.5.2007 kl. 23:29

5 Smámynd: Þorleifur Leó Ananíasson

Mér fannst þetta nú mun eðlilegri umræður en hafa verið á stöð2 og viðmælendum gefinn kostur á að svara spurningum nokkurn veginn andskotalaust. Að mínu mati var Guðjón Arnar ótvíræður sigurvegari í þessari rimmu og enn einu sinni kom Jón Sigurðsson illa út, enda að reyna að verja vonlausan málstað.  Það er mín skoðun að vilji menn trausta stjórn næstu 4 árin þá sé aðeins einn möguleiki þar á, en það er stjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri-Grænna.  Áframhaldandi stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri álíka brandari og núverandi meirilhluti í Reykavík þar sem eini frambjóðandi Framsóknar var skafinn upp úr kjörkassanum á lokasprettinum, en heldur nú Sjálfstæðisflokknum í heljargreipum.

Þorleifur Leó Ananíasson, 11.5.2007 kl. 23:45

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sæll Stefán eg les þina pisla með áhuga ,hefi verið fjarri góðu og slæmu  Gamni nuna i 25 daga/nu spurjum við bara að leikslokum og vonum að allt fari vel fyrir okkar flokk/hvað tekur svo við er spurning sem eg get ekki svarðað,en vonadi eitthvað  gott fyrir Land og Þjóð' /Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 11.5.2007 kl. 23:53

7 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Held að menn sjái nú bara það sem þeir vilja sjá í svona þáttum. Fannst Jón Sigurðsson koma ágætlega út úr þessum þætti. Rólegur og yfirvegaður. Stefnir í sögulegt afhroð Framsóknar segir þú Stefán. Tel reyndar að í þessu kjördæmi komi annað uppúr kjörkössunum. Trúi því og treysti að fólk hér á svæðinu í Eyjafirði og í kring kjósi Framsókn ef það vill sjá vaxtabrodd í íbúaþróun og atvinnusköpun á svæðinu. Íbúar á Austurlandi hljóta að sjá hverjir það voru sem stóðu hvað keikastir að þeirri jákvæðu byggðarþróun sem er að gerast á Austurlandi. Það var Framókn með maddömu Valgerði í fylkingarbrjósti. Jafnframt tel ég að sú verði einnig raunin hér ef flokkurinn fær til þess brautargengi. Einnig trúi ég því að Eyfirðingar, Þingeyingar og fjórðungurinn allur sjái framtíð í þingmannsefnunum Höskuldi Þórhallssyni og Huld Aðalbjarnardóttur.

Með kveðju

Jóhann Rúnar Pálsson, 12.5.2007 kl. 00:37

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Halldór: Algjörlega sammála. Í ljósi gamalla pólitískra tíma og málefnaátaka með hvössum hætti er þetta svolítið nýtt að menn rífist helst um skoðanakannanir og mælingar en ekki málefni. Þetta var í ljósi málefna þunnur þrettándi í kosningabaráttu og vonandi er þetta ekki fyrirboði þess að ekkert mál brenni á leiðtogunum með áberandi hætti.

Steingrímur Páll: Vonum það besta. Það getur allt gerst í kosningunum, en vonandi fellur þetta vel fyrir okkar flokk.

Hallur: Takk fyrir ábendinguna.

Ágúst: Takk fyrir hugleiðingarnar. Já, það ætti að liggja vel við okkur hvar krossinn endar með morgni.

Leibbi: Takk fyrir góðar pælingar Leibbi. Sammála með Jón, hann er ekki að ná tökum á sínum málum og stefnir í að þetta fari illa hjá flokknum, sögulegt afhroð verði ekki umflúið. Tel að sama stjórn sitji ekki áfram, það stefnir í aðra tíma. Spennandi hverjir þeir verði.

Halli: Takk fyrir góð orð og að lesa vefinn.

Jóhann Rúnar: Það verður áhugavert að sjá útkomu Framsóknarflokksins eftir sólarhring. Sögulegt afhroð er fyrirsögn þess sem kannanir segja í dag. 10% yrði afhroð, enda hefur Framsókn aldrei farið undir 15% í kosningum. Það er erfitt að segja til um hvað gerist en kannanirnar á lokasprettinum er ekki ánægjuleg vísbending fyrir Framsókn. Höskuldur er mjög mætur maður, á sama aldri og ég og alinn upp á sama bletti á Akureyri. Mun ekki tala gegn honum, það er mjög einfalt mál.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.5.2007 kl. 02:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband