Lokadagur: pælingar um stöðuna í Norðaustri

Það er komið að lokum kosningabaráttunnar í Norðausturkjördæmi. Á morgun ráðast örlögin á kjördegi. Í dag voru allir flokkar með fjölskylduhátíð á miðbæjarsvæðinu hér á Akureyri. Ég fór niður í bæ og skemmti mér vel í góðri stemmningu þar. Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir utan kosningaskrifstofu sína í Hafnarstræti með góða fjölskyldustund, góð skemmtiatriði og góðar veitingar. Það var þó kalt í miðbænum, enda var slydda síðdegis og frekar napurt þannig séð. Það er spáð snjókomu á morgun, svo að enginn vorbragur er yfir þessari lokastund kosningabaráttunnar.

Ég hitti marga frambjóðendur og stjórnmálaspekinga á rölti um miðbæinn. Það var áhugavert að rabba um stöðuna og spá í spilin með morgundaginn. Þó flestir hafi sínar spár eru flestir hugsi yfir því hvað gerist. Þeir spekingar sem ég hef helst talað við voru sem véfrétt yfir því hvaða stjórn yrði mynduð eftir kosningarnar, óvissan er hin mesta lengi. Það eru auðvitað spennandi pælingar í spilunum og fáir sem vilja fullyrða að stjórnin haldi, en margir vilja þó varla trúa því að svo fari, þó kannanir sýni hana frekar veikburða kvöldið fyrir kjördaginn.

Það snjóaði í bænum í dag eins og fyrr segir. Ég vona að þessi vorkuldi sé ekki fyrirboði á vinstra hret sem myndi fylgja vinstristjórn að mínu mati. Kjósendur verða að hugsa sitt ráð mjög vel. Það þarf líka að hugsa sig vel um hér í Norðausturkjördæmi hverjir muni vinna að hag byggðanna og standi fyrir farsæla stefnu, t.d. í atvinnumálum. Það er gott að eiga vini í öllum flokkum, enda var áhugavert að labba um bæinn og taka gott spjall. Fékk mér pylsu og veitingar og naut þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu.

Þetta var rólegri dagur-fyrir-kosningar en fyrir ári þegar að ég var í forystu kosningavinnunnar hér og á fullu síðasta daginn. Það var mikil vinna en nú hefur þetta verið öllu rólegra. Í fyrra var ég flétta pylsum á funheitu grilli og spjalla við fólk við veitingaborðið með Oktavíu, Kristján Þór og Sigrúnu Björk mér til hliðar. Við vorum ekki saman í þeim verkefnum þetta árið og aðrir á þeim básum. Það var notalegt og gott að geta labbað rólegur um bæinn og tekið spjallið við fólk og spáð í þau spil sem eru í stöðunni.

Ég var reyndar hugsandi um það í dag hvort að þessi dagur fyrir kjördag nú væri betri eða verri á Akureyri fyrir Sjálfstæðisflokkinn en var fyrir ári í sveitarstjórnarkosningunum. Mér finnst það í rauninni. Finnst betri vindar í stöðunni. Fyrir ári var baráttan fyrir endurkjöri Kristjáns Þórs sem bæjarstjóra og hópsins okkar erfiðari en hafði verið fjórum árum áður og kannanir voru okkar mjög erfiðar á lokasprettinum. Finnst staðan betri nú, enda blasir við öllum að fylgi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu mun aukast umtalsvert hvernig sem fer í raun, enda voru kosningarnar vorið 2003 okkur óvenjuvondar.

Það er lokadagur, 11. maí, í dag. Það er viðeigandi dagur á lokadag kosningabaráttunnar. Nú eru örlög frambjóðenda í kjördæminu í höndum mín og annarra kjósenda hér. Það verður fróðlegt að sjá hver dómur kjósenda verður og hver verði dómurinn um hversu margir Akureyringar fari á þing. Með því fylgist ég sérstaklega á morgun og við öll sem hér í bæ búum. Staða okkar hefur verið vond á þessu kjörtímabili. Það stefnir í breytingar þar á, á morgun ræðst hversu mjög hún batnar.

Nú tekur biðin eftir úrslitum við... það verður gaman að greina nýtt pólitískt landslag kjördæmisins eftir sólarhring.... þegar að kjósendur hafa talað. Þeirra er valdið núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik !

Og jú,........ hretið náði suður í Borgarfjörð, í gær (11.V.), með landnyrðíngs gjólu, ofan af Langjökli, þótt ögn náði sólarljós að ylja, um stund.

Bjartviðrið, á Suðurlandi og hjá frændum mínum; Vestlendingum er vonandi fyrirboði þess, að núverandi stjórnarstefna bíði þess afhroðs, hvers hún á sannarlega skilið.

Stefán ! Þá ég tók benzín, á vinnubifreiðina, í morgun, hér heima í Hveragerði; þá sýndi krónustöðugluggi; á dælunni, kr: 127.60 brúttó, þótt síðan kæmi sjálfsafgreiðluafsláttur til frádráttar. Mig minnir, að þegar ég átti hálfúrbræddan Chevrolet Malibu árg. 1979, í Jan.árið 1995, hafi benzínverðið verið um 93 - 94 kr.

Bara lítið dæmi, um ógeðfellda stjórnarhætti , sem við höfum búið við, allt of lengi. Hví ætlist þið Sjálfstæðismenn til, að við hin, óbreyttir og skrumlausir Íslendingar mærum  þetta andstyggðarstjórnarfar, hvert ríkt hefir svo lengi, okkar á meðal ? Gæti nefnt mýmörg dæmi, um svíðingshátt Geirs H. Haarde; og hans knecktis, gagnvart fjármunum landsmanna, farið dýpra og dýpra ofan í vasa landsmanna. Hver var svo, að tala um stjórnarfar ýmissa ríkja Afríku og Asíu ?

Blekkinga blaður; þinna manna, gengur ekki endalaust, Stefán Friðrik.

Vona, að þið norðan heiða farið að sjá merki sumarkomunnar, Stefán minn.

Með beztu kveðjum, til Eyfirzkra sunnan frá Árnessýslu láglendi / Óskar Helgi Helgason     

   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 00:35

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka þér fyrir hugleiðingarnar Óskar Helgi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.5.2007 kl. 02:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband