12.5.2007 | 18:26
Kveðja til Halldórs
Stjórnmálaferli Halldórs Blöndals lýkur í dag. Umboð Halldórs sem kjördæmaleiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og alþingismanns rennur út á miðnætti og brátt verður ljóst hversu marga alþingismenn Sjálfstæðisflokkurinn í kjördæminu hlýtur. Það eru auðvitað mikil þáttaskil fyrir okkur sjálfstæðismenn hér að Halldór hætti pólitískum störfum fyrir flokkinn á svæðinu, enda hefur hann verið þingmaður okkar í tæpa þrjá áratugi, eða allt frá desemberkosningunum 1979 og var varaþingmaður 1971-1979.
Hér á Akureyri hóf Halldór Blöndal þátttöku í stjórnmálum á námsárum sínum í MA og hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér á svæðinu. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð 7 af 8 formönnum flokksins. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar kjörinn fulltrúi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995, samgönguráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005.
Halldór vann væntanlega sinn sætasta pólitíska sigur í alþingiskosningunum 1999. Þá tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í NE Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Fram að því höfðu framsóknarmenn ríkt sem ósigrandi risar yfir kjördæminu og verið alltaf langstærstir. Þetta var ógleymanlegur sigur fyrir okkur hér. Segja má reyndar að Halldór og Tómas Ingi Olrich hafi verið sterkt forystutvíeyki fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á þessu svæði um árabil. Þeir voru mjög ólíkir stjórnmálamenn en unnu saman vel fyrir flokkinn. Þeir unnu saman í landsmálunum í um tvo áratugi.
Í prófkjörinu í NE árið 1987 sigraði Halldór og Tómas Ingi varð þá í þriðja sæti. Árið 1991 voru þeir efstir á listanum. Sama var í kosningunum 1995 og 1999, í síðarnefndu kosningunum varð Tómas Ingi kjördæmakjörinn. Í kosningunum 2003 voru þeir saman í forystu flokksins í Norðaustrinu. Það voru þeirra síðustu kosningar í forystu hér. Hér blasa nú við mikil þáttaskil, enda báðir okkar efstu menn hættir í stjórnmálaforystu og það hefur orðið mikil uppstokkun innan Sjálfstæðisflokksins og nýjir tímar svo sannarlega framundan þar undir forystu nýs leiðtoga, Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Það hefur allt frá fyrsta degi verið mér sannur lærdómur að vinna í flokksstarfinu hér undir forystu Halldórs. Hann er svo sannarlega mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu, en hann er alveg hafsjór af fróðleik.
Halldór er mikill öðlingur, með hjarta úr gulli sem fer þó sínar leiðir. En er á hólminn kemur er enginn traustari og öflugri en hann. Ég gæti eflaust skrifað mun lengri grein um Halldór og farið yfir allt sem ég tel merkilegt við þau þáttaskil að hann stígur af hinu pólitíska sviði. Ég tel hinsvegar að verk hans tali í raun sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann hefur unnið fyrir umbjóðendur sína. Þar hefur verið lögð sál og hjarta í hvert verkefni.
Það hefur alltaf verið barist af krafti. Aldrei hefur hann gefist upp fyrr en tryggt sé að barist hafi verið til sigurs eða áherslurnar hafi allavega náð á leiðarenda. Það varð oft þung og erfið barátta, stundum frekar auðveld. Það er eins og gengur. Ég segi eins og forveri Halldórs á leiðtogastóli hér fyrir norðan, Lárus Jónsson, að stjórnmálin verða aldrei neinn hægindastóll. Þar eru alltaf verkefni til staðar.
Það hefur best sést á Halldóri sem hefur unnið sitt verk af dugnaði og alúð. Hvort sem við erum fyrir norðan eða austan getum við verið sátt við hans verk, enda hefur hann verið baráttumaður. Við minnumst hans þannig. Ég vil við pólitísk leiðarlok þakka Halldóri fyrir farsæla forystu og gott verk að kvöldi langs dags við verkin og færi honum og Rúnu bestu kveðjur um góða og farsæla framtíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.