Ríkisstjórnin heldur velli - spennan minnkar

Staðan í kosningunum kl. 06:00 Það er orðið nokkuð ljóst að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur haldið velli í alþingiskosningunum í gær. Talningu er þó ekki enn lokið og úrslit því ekki orðin ljós. Ég var að koma heim í Þórunnarstrætið nú á sjötta tímanum eftir mjög skemmtilega nótt. Á Hótel KEA var skálað, sungið, klappað og faðmast yfir sigri í Norðausturkjördæmi. Það var glæsilegt að sigra kjördæmið af Framsókn og ánægjulegt að Stjáni er nýr fyrsti þingmaður kjördæmisins og Ólöf okkar Nordal er orðin alþingismaður. Óvissan er um jöfnunarsætið þó að Höski Þórhalls virðist hafa náð kjöri.

Þetta hefur verið alveg rosalega spennandi nótt. Ég hef upplifað kosninganótt frá 1987, að vaka til morguns yfir óljósri stöðu. Þetta minnir mig á þá kosninganótt með að ekkert er víst. Þá féll stjórn en svo virðist vera að stjórnin hafi haldið í gegnum nóttina eftir að hafa fallið nokkrum sinnum og ekki verið hugað líf. Staða Framsóknarflokksins hefur vakið mesta athygli en sögulegt afhroð flokksins er orðin staðreynd. Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, tókst þó að ná kjöri á síðustu metrum en Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og Jónína Bjartmarz virðast ekki munu ná kjöri á þing.

Samfylkingin hélt velli í kosningunum og það er greinilegt að þar er fjöldi nýrra þingmanna á leið inn. Láru Stefánsdóttur mistökst greinilega að ná kjöri í Norðaustrinu en Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri, virðist á leið á þing. Hjá Sjálfstæðisflokknum virðist Sigga Andersen vera komin á þing og sama gildir um Ragnheiði Elínu. Finnst það vond ef Ragga Ríkharðs nær ekki inn. Hjá frjálslyndum virðist Magnús Þór vera fallinn og það er mér persónulega mikið gleðiefni. Sigurjón Þórðarson er líka algjörlega búinn að vera og Sleggjan mikla fauk upp fyrir í Norðvestri. Jón Magnússon og Grétar Mar virðast vera á leið á þing. Hjá VG er t.d. Guðfríður Lilja ekki á leið á þing en hinsvegar Atli Gíslason, sem var lengi ljóst að yrði.

Það er ekki enn búið að telja og ekki fyrr en öll kjördæmi eru búin er hægt að lýsa því yfir formlega hverjir verði þingmenn árin 2007-2011. Það stefnir þó í breytingar. Stjórnin virðist halda. Það er þó hinsvegar afgerandi skoðun mín að þetta samstarf sé í raun úr sögunni og réttast væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að líta til samstarfs með Samfylkingunni. Það virðist vera val kjósenda ef marka má tölurnar. En enn er spurt að leikslokum með heildarstöðuna.

mbl.is Fréttaskýring: Bjargar Íslandshreyfingin stjórnarmeirihlutanum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband