Viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafnar

Ingibjörg Sólrún og Geir Viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um myndun nýrrar ríkisstjórnar hófust í Ráðherrabústaðnum fyrir tæpum hálftíma, skömmu eftir að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til stjórnarmyndunar. Það er mikilvægt að flokkarnir hefji verkið strax og fróðlegt að sjá hvernig að Geir og Ingibjörgu Sólrúnu muni ganga við verkið.

Það er ljóst skv. ummælum forseta Íslands í morgun að tímaramminn verður vika til tíu dagar í mesta lagi. Ég á ekki von á þessar viðræður muni taka langan tíma þannig séð. Auðvitað tekur alltaf einhvern tíma þó að fara yfir helstu málefnaáherslur og mynda grunn að stjórnarsáttmála, skipta ráðuneytum og manna nýja ríkisstjórn, en það mun varla taka óeðlilega langan tíma. Ég verð mjög hissa ef þetta tekur meira en viku í sjálfu sér. Það er þó ljóst að yfir viss lykilmál verður að fara og mynda sameiginlegan málefnagrunn sem máli skiptir. Mjög verður með því fylgst hvort að áherslur um einkarekstur og uppstokkun lykilmála, t.d. landbúnaðarkerfinu, nái í gegn.

Ég var að sjá á fréttasíðum rétt í þessu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerir lítið úr tilboðum Steingríms J. og Jóns Sigurðssonar um forsæti í samstarfi við þá. Ekki er ég hissa. Það er auðvitað fyrst og fremst vandræðalegt yfirboð hjá einkum vinstri grænum sem greinilega vildu tveggja flokka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en misstu atburðarásina út úr höndunum á sér og eru nú að reyna að hugga Framsóknarflokkinn með frekar hlægilegum hætti eftir að hafa niðurlægt þá með "kostaboði" um ekkert. Steingrímur J. lítur út eins og maðurinn sem vaknar eftir partýið og sér bara tóm glös og tómar skálar og öskrar hvað hefði eiginlega orðið um geimið.

Framsóknarflokkurinn er í sjálfu sér auðvitað illa rúinn og stendur verulega illa með formanninn pólitískt landlausan utan þings og væntanlega ennfremur ríkisstjórnar bráðlega og örvæntingin þar yfir að missa völdin er greinilega orðin mjög mikil, enda sýnist manni á skrifum fornra valdamanna þar að grasrót flokksins hafi ekki fylgt forystumönnum Framsóknar í því að fara til stjórnarsamstarfs. Þetta varð greinilegt af skrifum Ingvars Gíslasonar og tali Steingríms Hermannssonar hversu ótraustur flokkurinn er í raun orðinn og hann var í raun enginn kostur orðinn lengur fyrir Sjálfstæðisflokkinn umfram allt.

Heilt yfir er vandræðagangur flokkanna sem eru á leið í stjórnarandstöðu þónokkur og ekki er það óskiljanlegt lítandi á þá veigamiklu staðreynd að aðeins 20 einstaklingar munu manna stjórnarandstöðubekkina á næstu fjórum árum að öllu óbreyttu. En það er eins og það er og það er vissulega ánægjulegt að það sé komin þíða í erfið samskipti VG og Framsóknarflokks. Þess þá betur mun þeim lynda saman við að byggja sig upp í stjórnarandstöðu.

En nú er horft fram á veg og mikilvægt að viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gangi hratt og vel fyrir sig og niðurstöður í þeim efnum komist fljótlega á hreint. Mér sýnist að góður grunnur hafi myndast persónulega á milli Geirs og Ingibjargar Sólrúnar og bind vonir við að þau nái fljótt og vel saman um þau mál sem mestu skipta á næstu árum.

mbl.is Fyrsti formlegi stjórnarmyndunarfundurinn að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband