Raunaleg sorgarskrif Jóns Sigurðssonar

Jón SigurðssonÞað er greinilegt á pistlaskrifum Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, að hann syrgir mjög sinn hlut. Það er ekki undrunarefni. Það ætti varla að koma framsóknarmönnum að óvörum að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé lokið. Það hefur blasað við stóran hluta vikunnar að þetta væri mjög tæpt og grunnur samstarfsins væri í raun ekki lengur til staðar. Það hefur verið staðfest stig af stigi allt þar til yfir lauk.

Ég skil vissulega vel að framsóknarmenn séu ósáttir. Átti aldrei von á þeir yrðu syngjandi sælir og glaðir yfir valdamissinum. Umfram allt ættu þeir þó að vera ósáttir við sjálfa sig. Framsóknarflokkurinn galt verulegt afhroð í alþingiskosningunum 12. maí sl. Flokkur sem tapar tæpum helmingi þingmanna sinna í einu vetfangi hlýtur að finna fyrir erfiðri stöðu sinni og vanmætti - þar hljóta að vakna efasemdir um hvort flokkur með slíkt afhroð á bakinu hafi í raun umboð til að halda áfram stjórnarsetu. Svo virðist ekki vera af skrifum fornra forystumanna Framsóknarflokksins og ýmissa trúnaðarmanna sem allt frá kjördegi töluðu með þeim hætti að komið væri að leiðarlokum og staða flokksins væri í raun ávísun á stjórnarandstöðuvist.

Mér fannst grein Ingvars Gíslasonar, fyrrum menntamálaráðherra og kjördæmaleiðtoga þeirra hér í Norðurlandi eystra hinu forna, sérstaklega áberandi skilaboð til forystu Framsóknarflokksins og flokksmanna allra í raun um stöðu mála. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að framsóknarmenn tali og skrifi eins og allt sé eins og það var fyrir 12. maí. Afhroð Framsóknarflokksins í þeim kosningum, sem var í senn sögulegt og lamandi pólitískt áfall, var áberandi og umfram allt skilaboð til forystu flokksins um að hann ætti að pása sig. Eðlilegt var þó fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ræða við Framsóknarflokkinn eftir kosningar, en meirihluti stjórnarinnar var ekki á vetur setjandi.

Mér finnst það mjög raunalegt að sjá hvernig að sumir framsóknarmenn skrifa um stöðu mála, sérstaklega formaður Framsóknarflokksins sem fékk gríðarlegan skell fyrir tæpri viku þegar að hann fékk höfnun í Reykjavík norður, var hafnað um kjör til Alþingis. Hver voru skilaboð kjósenda til hans, hver voru skilaboð kjósenda til Framsóknarflokksins? Allir sem líta raunsætt á málin sjá hver sá dómur var. Hrunið í Reykjavík var táknrænt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Hann hélt nokkurnveginn velli t.d. hér í Norðausturkjördæmi, en héðan kom þó tæpur helmingur þingflokks Framsóknarflokksins eftir kosningarnar. Hann varð ekki fyrir algjöru svartnætti en næstum því.

Framsóknarflokkurinn þarf að fara í algjöra naflaskoðun og stokka sig upp. Hann fær gullið tækifæri til þess í stjórnarandstöðu. Ég tel að það hefði ekki gengið að halda þessu samstarfi áfram. Framan af vikunni var ég þeirrar skoðunar og eflaust fleiri sjálfstæðismenn að láta ætti reyna á þennan valkost þó mjög dauðadæmdur væri í raun. Mér fannst það vera gert og í raun finnst mér það gríðarlegt vanþakklæti hjá Framsóknarflokknum að virða það ekki að viðræður um þennan valkost fóru fram. Þeir voru sjálfir verulega tvístígandi og hikandi. Það komu engin afgerandi skilaboð úr grasrótinni eða afgerandi tal hjá forystu Framsóknarflokksins. Hik þeirra var þeim dýrkeypt.

Nú er þessu samstarfi lokið. Það markar þáttaskil fyrir báða flokka og fyrir íslensk stjórnmál almennt. Jón Sigurðsson stendur mjög illa í þessari stöðu verandi utan þings og væntanlega að missa ráðherrastól, sem hefði getað tryggt honum aðkomu að þingstörfum með áberandi hætti. Svo verður ekki. Það verður nú hlutskipti formanns Framsóknarflokksins að vinna að innra starfinu utan Alþingis. Það gætu tækifæri falist í því fyrir Framsóknarflokkinn, en áfallið er lamandi. Ég geri mér fulla grein fyrir því og skil sársauka flokksmanna í Framsókn.

En rætur endalokanna liggja í afhroði Framsóknarflokksins á laugardaginn. Það er mjög einfalt mál og það verður eflaust lykilverkefni trúnaðarmanna Framsóknarflokksins eftir að hann yfirgefur Stjórnarráðið að byggja sig upp til næstu verkefna á vegferð sinni.


mbl.is Jón Sigurðsson: Staðfestir trúnaðarbrest milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Já það er erfitt að tapa þó svo maður tali nú um eitthvað minna en  sæti í rískisstjórn.

Málið er þó einfalt Framsóknarflokkurinn er að uppskera eins og sáð hefur verið. Þessi ár hafa einkennst af öðru fremur af skandölum, vinarplotti, fjölskylduívilnunum, einkavinavæðingu og almennu virðingaleysi gagnvart fólkinu , því sama og átti að kjósa F.

Magnús Jónsson, 18.5.2007 kl. 17:15

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þeir hljóta að hittast mjög fljótlega og velja nýjan formann.
Ég held að Jónínumálið og skipta um stjórnarformann í lv svo stuttu fyrir kosningar hafi ekki gert flokknum neitt gott.

Óðinn Þórisson, 18.5.2007 kl. 17:56

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Finnst þetta skrýtin greining Stefán. Það sem Jón er að tala um er baktjaldamakk Sjálfstæðismanna. Framsóknarmenn voru ekkert á leiðinni í að endurnýja stjórnarsamstarfið síðastliðinn sunnudag þegar Geir fór síðan að ýta undir að ræða um áframhald án þess að hafa nein áform um slíkt í raun. Það eina sem Sjálfstæðisflokkurinn stefndi á var að sá fræjum sundurlyndis meðal VG og Samfylkingar og að vinna sér tíma til að koma á stjórn með Samfylkingunni. Mér finnst nú Framsóknarflokkurinn hafa átt betra skilið af hendi sjálfstæðismanna eftir 12 ára stjórnarsamstarf en að láta nota sig svona. Geir gat einfaldlega gert það ljóst á sunnudag eða mánudag að hugur hans stefndi ekki í þessa átt og þá hefðu allir getað gengið frá samstarfinu sáttir. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 18.5.2007 kl. 18:03

4 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Það er mín skoðun að framsóknarflokkurinn hefði komið best út úr þessu ef þeir hefðu strax slitið ríkisstjórnarsamstarfinu í ljósi útkomu kosninganna. Þá er það löngu ljóst að framsókn á ekki mörg trygg atkvæði á höfuðborgarsvæðinu og því ætti formaður flokksins ekki að bjóða þar fram. Það hefur mjög neikvæð áhrif á kosningabaráttu flokks ef fréttamenn eru í sífellu að nefna það við formanninn að samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum sé hann ekki inni á þingi. Fáránlegt. Formaðurinn á að vera í norðausturkjördæmi og flokkurinn á að berjast fyrir landsbyggðina. Hananú.

Jóhann Þorsteinsson, 18.5.2007 kl. 20:57

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Magnús: Vandi Framsóknar liggur víða. Fyrst og fremst í fylgistapi vegna innanbúðarvanda. Pólitísk endalok Halldórs og eftirleikur þess var harmleikur fyrir flokkinn sem hann hefur ekki enn yfirstigið utan flokksins, í augum kjósenda.

Óðinn: Staða Jóns er auðvitað mjög erfið. Hann er í raun utan lykilstöðu stjórnmálanna og verður nær algjörlega utangarðs í vetur. Ég tel að hann verði hættur sem formaður fyrir þann tíma.

Guðmundur: Mér finnst þetta ekki skrýtin greining. Ég fann það á mörgum sjálfstæðismönnum að þetta væri vonlaust samstarf. Það hafa verið þreifingar og ég efast ekki um að það var á milli fólks á öllum básum. Það var held ég dauðadæmt frá upphafi að halda í þetta samstarf á einum manni, sérstaklega eftir talanda Bjarna Harðarsonar um daginn í Silfri Egils. Það var greinilegt að Þorgerður Katrín var ekki glöð við að heyra tal hans þar. En þetta er bara svona. Staðan innan Framsóknar var líka eldfim með blaðaskrif reyndra forystumanna um að framsókn væri umboðslaus. Heilt yfir minnkuðu sífellt líkur á þessu. Þetta gekk einfaldlega ekki lengur upp og er úr sögunni. Framsókn veitir ekki af að fara í stjórnarandstöðu og byggja sig upp.

Jói: Framsókn þarf að byggja sig upp. Staða þeirra hefur oft verið svört en alltaf hafa þeir rifið sig upp. Er ekki í vafa um að það gerist núna. Eins og staðan er orðin er með ólíkindum að Valgerður Sverrisdóttir leiði ekki flokkinn og það væri réttast að hún tæki forystu hans yfir, enda sá forystumanna flokksins sem hefur besta umboðið frá kjósendum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.5.2007 kl. 21:20

6 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Ég er þeirrar skoðunar að áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið illframkvæmanlegt með eins þingmanns meirihluta.  Ekki vegna þess hve samstarfið hafi verið slæmt, því að ég held að öll 12 árin hafi flokkarnir unnið saman af heilindum, heldur vegna þess að í báðum flokkum eru ólík viðhorf til ýmissra mála og erfitt að hrinda hlutum í framkvæmd ef allir þurfa alltaf að vera ánægðir.  Þetta hefði því trúlega orðið okkur skattborgurunum dýrt.

Hitt er annað að ég er ekki allskostar sannfærður um að það sé gott, við ríkjandi stjórnskipulag, að stjórnarflokkar hafi mjög mikinn meirihluta á Alþingi.  Miðstjórnir flokkanna geta, við slíkar aðstæður, farið að mestu leiti sínu fram og þá er hætta á því að misráðnum ráðstöfunum verði þröngvað í gegnum löggjafarsamkomuna.   En við þetta verður ekki ráðið.  Sjálfstæðisflokkurinn er, hefur verið og verður sennilega áfram, stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi.  Samfylkingin, sem hefur byggt tilveru sína á andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn, er nú genginn í eina sæng með honum.  Þetta er ákveðinn galli við stjórnskipulagið.  Kjósendur ráða ekki samsetningu framkvæmdavaldsins. 

Ég held að við fáum góða ríkisstjórn.  Á sama hátt fannst mér sú síðasta líka vera góð.  Ég sakna þess hins vegar að Sjálfstæðismenn hrósi forsetanum fyrir aðkomu hans (eða aðkomuleysi) í þessu stjórnarmyndunarferli.   Hann hefur gengið mun styttra en stjórnarskráin heimilar og sýnt stjórnskipaninni þá virðingu sem fyrr.

Hreiðar Eiríksson, 18.5.2007 kl. 22:17

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg hefði ekki af óreindu haldið að Jón Sig.felli i þessa grifju,mer fynnst hann hafa sett niður kallin!!!Guðni er bara Guðni/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 18.5.2007 kl. 22:35

8 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll aftur Stefán

Þú ert að misskilja hvað ég er að setja út á greininguna. Minn punktur er sá að Framsókn var ekki á leiðinni í að endurnýja stjórnina fyrr en Geir óskaði eftir því og ýtti undir það að slíkt yrði gert. Hann leikur síðan sama leikinn og Davíð 1995 og semur annað á meðan hann heldur stjórnarmyndunarumboðinu. Það er það sem mér og fleiri Framsóknarmönnum finnst ómaklegt eftir 12 ára samstarf. Ef Geir ætlaði ekkert að halda þessu áfram þá þurfti ekkert að draga slitin á langinn Framsóknar vegna. Eina ástæðan var að koma í veg fyrir vinstri stjórn.

Kv. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 19.5.2007 kl. 20:28

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Stjórnin hélt velli í kosningunum og það var eðlilegt að láta á þann kost reyna og það var gert. Styrkleikar flokkanna höfðu breyst verulega eftir kosningar og vitað mál að það yrði tæpt að halda áfram á einum manni. Framan af fannst mér vera stuðningur við það innan Sjálfstæðisflokksins en það breyttist eftir því sem leið á.

Hik framsóknarmanna með stöðu sína var mjög mikið og áberandi að sjá sérstaklega skrif fyrrum leiðtoga innan flokksins þar sem talað var fyrir stjórnarandstöðu. Þetta hafði áhrif á að þreifingar hófust. Hinsvegar slitu framsóknarmenn samstarfinu og þá var eðlilegt að halda í aðrar áttir.

En það höfðu klárlega þreifingar hafist fyrir fimmtudaginn, að mestu óformlegar en staða þeirra breyttist þegar að ljóst var að stjórnin myndi ekki halda áfram.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.5.2007 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband