Hverjir verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins?

Þorgerður Katrín og Geir H. HaardeNú þegar að ljóst er orðið að Sjálfstæðisflokkurinn er með umboð til stjórnarmyndunar og flest stefnir í að hann myndi stjórn með Samfylkingunni á næstu dögum er spurt hverjir verði ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt í stöðunni að uppi séu vangaveltur í þeim efnum. Það hefur verið ljóst alla vikuna að Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda áfram í ríkisstjórn, enda voru það skýr skilaboð frá kjósendum.

Að mínu mati þarf að líta til úrslita í alþingiskosningunum þegar kemur að því að velja ráðherra í ríkisstjórninni. Það er reyndar ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum að því marki að hann hlaut sigur í öllum kjördæmum og á fyrsta þingmann allra kjördæma landsins. Það er merkilegur sigur og ber vitni góðu starfi í þessum kosningunum og athyglisverðum árangri eftir sextán ára samfelldri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, lengst af í forsæti ríkisstjórnar. Það ber líka vitni þess að flokkurinn hefur endurnýjað sig, bæði forystu og almennan mannskap, mjög vel.

Þegar að litið er á úrslit kosninganna blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi sérstaklega í þrem kjördæmum; hér í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi. Mestu fylgi bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig í Suðurkjördæmi, 6,8%, í Norðausturkjördæmi var fylgisaukningin 4,5% og í Kraganum bætti flokkurinn við sig 4,2%. Þetta á að mínu mati að vera ávísun á það að horft verði til þessara kjördæma og forystumönnum þessara kjördæma verði sýnt með áberandi hætti að þeirra verk sé metið. Að sama skapi bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig óverulega í Reykjavík. Í norðurhluta borgarinnar bætti flokkurinn aðeins við sig 0,9% og í suðurhlutanum bætti hann við sig 1,2%. Í Norðvesturkjördæmi missti flokkurinn 0,5% fylgi.

Það blasir við að Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir séu öruggir ráðherrar í væntanlegu stjórnarsamstarfi. Miðað við góðan árangur í Suðurkjördæmi er staða Árna M. Mathiesen nokkuð trygg ennfremur, enda á hann langa þingreynslu að baki og hefur verið kjördæmaleiðtogi allt frá árinu 1999, í Reykjanes- og Suðvesturkjördæmum áður en hann færði sig nú yfir í Suðurkjördæmi. Það gengur engan veginn upp að Norðvesturkjördæmi hafi áfram tvo ráðherra í þessari stöðu og þar verður að koma til uppstokkun á stöðu mála. Eðlilegt er að Reykjavík hafi allavega einn ráðherra til viðbótar.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að Norðausturkjördæmi fái ráðherrasæti í sinn hlut. Í síðustu kosningum missti kjördæmið ráðherrastól og forsetaembætti Alþingis; Tómas Ingi Olrich var sleginn af í maí 2003 sem menntamálaráðherra í desemberlok 2003 og tilkynnt þá líka að Halldór missti forsetastól þingsins í október 2005. Þetta var mjög eftirminnileg pólitísk aftaka á báðum okkar forystumönnum, sem eftir var tekið. Það var ljóst að árangurinn vorið 2003 hér var afleitur og við gátum sjálfum okkur um kennt. Hinsvegar kemur ekkert annað til greina nú en okkur verði umbunað fyrir að bæta vel við okkur fylgi og leiðtogi okkar verði ráðherra.

Sá átta manna hópur sem við á eftir þessa fyrrnefnda upptalningu er að mínu mati eftirtaldir:
Geir H. Haarde
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Árni M. Mathiesen
Björn Bjarnason
Kristján Þór Júlíusson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Sturla Böðvarsson
Einar K. Guðfinnsson

Mér finnst aðrir varla koma til greina eftir það sem á undan er vikið. Nafn Bjarna Benediktssonar gæti hæglega blandast í þessa runu líka, en það gengur varla upp þó að hann verði tekinn fram fyrir kjördæmaleiðtoga og sitjandi ráðherra í taflið. Það verður þó að ráðast að mínu mati. Svo má vera að horft verði til annars en röðun á lista. Hinsvegar finnst mér einboðið að fyrstu þingmenn kjördæmanna sem hafa leitt flokkinn til glæsilegs sigurs í kringum landið gangi fyrir ráðherraembættum og eða embættum sem deilt verður út. Ekki gengur lengur að Norðvestrið fái tvo ráðherrastóla og það verður að breyta því. Mjög einfalt mál í sjálfu sér.

Það spyrja eflaust einhverjir sig um stöðu kvenna. Að mínu mati er aðeins ein kona afgerandi ráðherraefni, og það er varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Verði horft annað er verið að ganga framhjá kjördæmaleiðtogum og mönnum með langa pólitíska reynslu á ýmsum sviðum. Það gengur ekki upp að mínu mati. Staða mála er því einföld. Ég legg þennan kapal fram og ég mun væntanlega á morgun greina stöðu hvers og eins og hverja af þessum átta til níu ég telji að verði á ráðherralista formanns Sjálfstæðisflokksins í næstu viku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Hvað ætlarðu eiginlega að hafa margra manna ríkisstjórn, það kemur ekki fram? Þú telur upp átta sjálfstæðismenn en er ekki líklegt að helmingaskipti verði, þ.e. Samfylking fái jafn marga ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn?

Ekki trúi ég að þeir verði 16 hjá 300 þúsund manna þjóð þegar 15 ráðherrar þykja ærið nóg í 63 milljóna landi, Frakklandi. Og boðuðu ekki flokkarnir sem nú eiga í stjórnarmyndunarviðræðum aðhald og sparnað í opinberum rekstri? Væri þá ekki nær að fækka ráðherrum, og ráðuneytum, ef út í það er farið?

Hér í Frakklandi hefur Sarkozy nú þegar staðið rækilega við mörg loforða sinna. Andstæðingar hans segja það stærsta gallann á Sarkozy að hann gerir það sem hann segir. Hann segir 15 ráðherra nóg til að koma Frakklandi á réttan kjöl aftur, fækkaði þeim úr 30!   

Ég trúi því svo ekki að okkar flokkur eigi ekki nema eina frambærilega konu í ráðherrastól. Það skiptir engu í hvaða sæti menn eru í kjördæmi, það er út í hött að tefla bara einni konu fram í ráðherrastól nú til dags. Þetta eru allt úrvalsmenn sem þú nefndir en ég myndi hiklaust setja konu fram fyrir eina þrjá til fjóra þeirra. 

Ætla að fylgjast með greiningu þeirri sem þú boðar.

Ágúst Ásgeirsson, 19.5.2007 kl. 17:17

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Ágúst

Þú hefur greinilega ekki lesið til enda. Eins og ég sagði er þetta átta til níu manna hópur þeirra sem koma til greina að mínu mati. Úr þessum hópi á að velja. Ég er að segja það mat mitt. Enn hef ég ekki sagt hverjir eigi að vera ráðherrar en þeir sem lesa pistilinn geta þó eflaust lesið það út úr þeim pælingum sem á undan listanum koma.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.5.2007 kl. 17:20

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Illugi er algjör nýliði í stjórnmálum, hefur aldrei gegnt kjörnu embætti fyrir Sjálfstæðisflokkinn áður. Hann er ekki ráðherraefni. Frekar verður þá horft til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem hefur verið í sveitarstjórnarmálum í tvo áratugi, er formaður sveitarstjórnarráðs flokksins frá upphafi og var bæjarstjóri á Akureyri í áratug, eða þá Bjarna Benediktssonar, enda hefur hann verið þingmaður í fjögur ár og formaður í þingnefndum. Ég spái því að Björn Bjarnason verði forseti Alþingis verði hann ekki ráðherra.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.5.2007 kl. 17:31

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það verður gerð gríðarleg krafa um að 2 konur verði í ráðherraliðinu.
Ég tel að Guðfinna þó svo að hún sé ný á þingi er þetta gríðarlega öflug kona sem mun verða ef hún fær tækifæri til frábær menntamálaráðherra.
Varðandi Björn Bjarna. þá vona ég að hann verði áfram, er kláralega einn af okkar sterkustu mönnum.
Sturla út og Kristján Þór inn.
Bjarni Ben. það verður erfitt fyrir Geir að sleppa honum.
Annars treysti ég Geir fullkomlega fyrir þessu og hann mun taka réttar ákvarðnir varðandi þessi mál þegar að því kemur.

Óðinn Þórisson, 19.5.2007 kl. 18:12

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Baldur: Tel að það verði ekki gengið framhjá Birni. Finnst það blasa við að hann verði í þessum kapal.

Óðinn: Já, þetta verður að ráðast. Konurnar okkar eru mjög góðar. Þær standa þó veikt í biðröðinni og verða ef þær fara inn að fella sterka karlmenn með áberandi góða pólitíska stöðu. Bjarni Ben og Kristján Þór standa mjög framarlega í röðinni, enginn vafi á því. Þeir í Norðvestri fá ekki aftur tvo ráðherra. Það blasir við. Geir treysti ég fyrir þessu og ég efast ekki um að hann velji hóp sem vinnur vel saman og styrkir flokkinn að öllu leyti af verkum sínum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 00:28

6 Smámynd: Fannar frá Rifi

Kristján Þór er nýliði á þingi. Ef mig minnir rétt þá hefur bara einn Sjálfstæðismaður leikið það eftir að setjast í ráðherra stól um leið og hann kemst á þing. Sá hin sami sat á Forsætisráðherra stólnum í 13 ár. 

Illhugi verður ekki ráðherra. Hann er alltof ungur og alltof nýr. Guðlaugur Þór og Bjarni Ben standa langt fyrir framan hann í goggunaröðinni. Að kippa  ráðherra stóli af sitjandi ráðherra yrði náttúrulega höfnun á viðkomandi stjórnmálamanni og landsvæðinu sem hann kemur frá.

Varnar sigurinn í NV kjördæmi er geisilega mikill. Þó Sturla sé óvinsæll hjá mörgum þá er Snæfellsnesið svo blátt að þaðan koma um 20-30% af atkvæðum Sjálfstæðismanna í NV. Að hafna honum er að hafna Snæfellsnesi. 

Arnbjörg Sveinsdóttir stóð næst í goggunarröðinni að ráðherra stól en henni var hafnað í prófkjöri. 

Fannar frá Rifi, 20.5.2007 kl. 19:50

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það að hafna Kristjáni Þór um ráðherrastól eftir að hafa unnið Norðausturkjördæmi, sem er sögulegur sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn, verða áberandi vond skilaboð. Síðast var okkur refsað fyrir vondar kosningar og það verður afleitt verði okkur refsað fyrir góðar kosningar. Það er í sjálfu sér mjög einfalt mál.

Það verður að ráðast hvað gerist í þessari uppstillingu. Ég hef enga trú á því að Norðvestrið fái aftur tvo ráðherra, það verða stórtíðindi fái þeir þann sess aftur. Hinsvegar er ég viss um að báðir verða þeir í þessum kapal. Ef Sturla verður ekki ráðherra verður hann forseti Alþingis.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 19:59

8 Smámynd: Fannar frá Rifi

Hvort við í NV fáum tvo er frekar ólíklegt. Ég játa það alveg að ekki mikið bendir til þess. En að Kristján Þór fari inn og framfyrir alla aðra sem nýr maður er einnig mjög ólíklegt. Ef Arnbjörg hefði verið 1 maður á listanum þá hefði hún gengið strax inn sem ráðherra. Kristján Þó verður mjög líklega núna fyrst til að byrja með þingflokksformaður.

Fannar frá Rifi, 20.5.2007 kl. 20:13

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta verður auðvitað bara að ráðast. Það er skiljanlegt að öll kjördæmi vilji fá sitt lykilfólk á áberandi staði. Í öllum kjördæmum unnum við sigra, mismikla auðvitað. Það er sögulegur sigur að taka öll kjördæmin í sömu kosningunum. Mikið gleðiefni. Ég er þess fullviss að formaður Sjálfstæðisflokksins muni koma með uppstillingu sem öll kjördæmi geti sætt sig við.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband