Styttist í að ný ríkisstjórn taki við völdum

Ingibjörg Sólrún og Geir Það blasir við að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar taki við völdum fljótlega eftir helgina. Viðræður flokkanna halda áfram og skipaðar hafa verið málefnanefndir til að vinna grunn að málefnasáttmála. Það blasir þó við að flokkarnir leggja áherslu á lykilpunkta í málum en vinna við málefnasamning haldi jafnvel áfram næstu vikurnar.

Það hefur farnast best á undanförnum árum að hafa málefnasáttmála ríkisstjórnar stutta og með lykilpunktum frekar en langa upptalningu, sem hefur ekkert gefið sig sérstaklega vel. Blað var brotið í þessum efnum þegar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við völdum árið 1991. Þá kynntu Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson stuttan en hnitmiðaðan stjórnarsáttmála með nokkrum lykilpunktum. Slík vinna var líka ofan á við myndun ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá vorinu 1995.

Það verður fróðlegt að sjá hversu langan tíma mun taka að ná grunnsamkomulagi um málin. Ég tel að það muni ekki taka langan tíma og býst frekar við nýrri ríkisstjórn fljótlega. Eftir því sem mínar heimildir segja mun vinnan ekki taka langan tíma og búist við valdaskiptum fyrir miðja næstu viku. Það er mikilvægt að mínu mati að stjórnarskipti fari fram fljótlega og að ný ríkisstjórn geti hafist handa við þau verk sem hún nær saman um. Svo er auðvitað mikilvægt að Alþingi verði kallað saman fljótlega til að taka til starfa um mikilvæg mál og að stefnuræða ríkisstjórnarinnar verði kynnt.

Heilt yfir sýnist mér mikilvægt að þessir flokkar nái samstarfi um landsstjórnina. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni að þessar viðræður eru hið eina rétta síðustu dagana. Það var auðvitað mikið skref að segja skilið við samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. En grunnur þess var ekki lengur til staðar og mikilvægt að horfa fram á veginn en ekki aftur. Ég tel að góð og öflug ríkisstjórn með sterkt umboð verði afrakstur þessara viðræðna sem nú standa.

mbl.is Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mjög sammála þér Stefán,vonum bar að þetta taki sem styðstan tima/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 19.5.2007 kl. 15:58

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Það er fróðlegt að sjá hversu himinlifandi Sjálfstæðismenn eru með þá stjórn sem nú er í fæðingu. Á því eru augljósar skýringar því að það ber svo lítið á milli, svona rétt áherslumunur heyrir maður frá viðsemjendum. Formaður Samfylkingarinnar hefur gefið þessu óskabarni heitið "Frjálslynd umbótastjórn". Mig minnir Framsóknarmenn stundum líka hafa notað það nafn um 12 ára setu sína með Sjálfstæðisflokki. - Það verður fróðlegt að litast um bekki eftir svo sem eitt ár. Vinstri græn og annað umhverfisverndarfólk hefur verk að vinna í stjórnarandstöðu. Áhrifa VG mun gæta mun meira en hingað til. Því veldur traust málefnastaða og vösk liðsveit. Það tekur tíma að breyta gildismati, leikreglum og verklagi í samfélaginu. Jarðvegurinn skiptir mestu og að rækta hann og bæta. Uppskeran er undir því komin og hún kemur seinna.

Hjörleifur Guttormsson, 19.5.2007 kl. 16:31

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Hjörleifur: Það skiptir máli að mynda stjórn með góðan þingmeirihluta. Þetta er stjórn sem hefur sterkan grunn. Það blasir svosem við að ekki eru allir sælir yfir stöðunni. Það verða allir dæmdir af verkunum. Fyrr en það liggur fyrir er erfitt að dæma stöðu mála. Það er auðvitað mynduð ný stjórn og hún hefur jafnvel ekki sömu áherslur og síðasta stjórn. Þetta verður bara að ráðast. Það er hinsvegar alveg ljóst að VG hefur styrkst mjög og þeirra verður nú að leiða nýja stjórnarandstöðu. Það mun koma annað yfirbragð á stöðuna í þinginu með VG í fronti stjórnarandstöðunnar og verður áhugavert að sjá hvernig að VG mun fronta þá andstöðu við mjög öfluga ríkisstjórn.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband