Boris í lykilráðuneyti - klókindi hjá Theresu May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er klók að skipa Boris Johnson sem utanríkisráðherra. Með því heldur hún keppinaut um völdin innan flokksins við efnið í lykilráðuneyti við ríkisstjórnarborðið - hann verður því að standa í verkunum á vaktinni í stað þess að vera óþægilegur gagnrýnandi á hliðarlínunni. Boris átti sennilega ekki von á þessu mikla embætti og leit út fyrir að vera undrandi á vegtyllunni í kvöld.

Boris er umdeildur stjórnmálamaður, á auðvelt með að ná athygli fjölmiðla og tala í fyrirsögnum. Sá eiginleiki byggði hann upp sem pólitíkus á eigin forsendum. Hann virkaði ekki sannfærandi í þinginu forðum daga og hann fann sinn farveg sem litríkur borgarstjóri í London í átta ár. Hann er nú aftur kominn á vettvang þingsins en ekki verið líklegur til að fúnkera sem hliðarmaður í lykilráðuneyti. Þar er hann óreyndur og óskrifað blað.

Margir innan Íhaldsflokksins telja hann ótækan til forystustarfa og sást það í vægðarlausri atlögu Michael Gove að honum - kaldrifjaðri rýtingsstungu sem vandlega var stýrt af innsta kjarna fráfarandi forsætisráðherra og heppnaðist að vissu leyti en Boris sá við þeim með því að fara úr leiðtogaslagnum og halda virðingu sinni. Atlagan var gerð til að ganga frá honum og gera hann hjákátlegan kjána sem yrði auðmýktur.

May veit sem er að Boris yrði henni óþægur ljár í þúfu sem óbreyttur þingmaður sem gæti veitt henni skráveifu sem hávær álitsgjafi fjölmiðla sem ekki þarf að bera byrðina. Hún setur Boris því í væna pressu við valdaborðið - nú þarf hann að höndla samskipti við erlend ríki, ferðast um heiminn og taka að sér verkefni fjarri heimahögum sem verða honum krefjandi. Annað hvort mun hann falla í þessum krefjandi verkefnum eða rísa til frekari valda, svo mikið er ljóst.

Örlög George Osborne, pólitísks fóstbróður David Cameron, eru háðugleg. Hann missir fjármálaráðuneytið og fær ekki annað verkefni í ríkisstjórn - sparkað frekar kuldalega. Osborne var fyrir nokkrum mánuðum talinn líklegur eftirmaður Camerons en féll í Brexit-sigrinum. May sendi honum væna pillu í ræðu við komuna í Downingstræti og ætlar greinilega að breyta hressilega um taktík í fjármálaráðuneytinu með því að setja Philip Hammond þar inn.

Í fyrsta skipti í breskri stjórnmálasögu skipa tvær konur samtímis tvö af valdamestu embættum ríkisstjórnarinnar. Amber Rudd tekur við af May sem innanríkisráðherra - við getum átt von á að margar konur fái ráðherraembætti er tilkynnt verður um önnur ráðherraembætti á morgun. Svo vekur óneitanlega athygli að gamall fjandvinur David Cameron, David Davis, sem tapaði fyrir honum í leiðtogakjörinu 2005 og lenti upp á kant við hann í skuggaráðuneytinu 2008, fær uppreisn æru og mun leiða ESB útgönguna sem Brexit-ráðherra. Svo fær Liam Fox sem var rekinn af Cameron 2011 aftur ráðherraembætti.

May markar því kúrsinn strax á fyrstu klukkustundunum. Hún ætlar að stjórna á eigin forsendum og tekur viðsnúning frá Cameron-árunum - slær af helsta samstarfsmann hans síðasta áratuginn og sendir hann á öftustu þingbekkina, rekur alla helstu spunameistara Camerons í Downingstræti og reisir aftur til virðingar forna fjandmenn hans. Hún verður sönn járnfrú annarra hægrigilda en David Cameron stóð vörð um.


mbl.is Johnson skipaður utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband