Jón Sigurðsson segir af sér formennsku

Jón Sigurðsson Jón Sigurðsson hefur sagt af sér formennsku í Framsóknarflokknum. Guðni Ágústsson, sem verið hefur varaformaður frá árinu 2001, verður nú formaður flokksins. Þessi tíðindi koma ekki að óvörum eftir fréttir síðustu daga og hversu erfið staða hans var orðin í íslenskum stjórnmálum, verandi hvorki ráðherra né þingmaður eftir sviptingar síðustu dagana. Jón hefur verið formaður Framsóknarflokksins frá 19. ágúst 2006, en hann sigraði Siv Friðleifsdóttur í spennandi formannskjöri þá og hefur því aðeins gegnt formannsembætti í níu mánuði.

Jón Sigurðsson fórnaði sér með eftirtektarverðum hætti fyrir flokk sinn með því að fórna öruggri seðlabankastjórastöðu fyrir óöruggan ráðherrastól í mikilli krísu Framsóknarflokksins og aðeins fjarlæga möguleika á þingsæti, en staða flokksins var erfið er hann tók mjög óvænt við ráðherraembætti fyrir tæpu ári og formennskunni í kjölfarið sem maður sátta og uppbyggingar. Staða Framsóknarflokksins batnaði þó að hluta á sumum stöðum en afhroðið sem kannanir höfðu gefið til kynna mánuðum saman varð ekki umflúið. Persónulega tel ég að Jóni hafi tekist að byggja flokkinn upp innan frá en við blasir að honum mistókst það utan frá að miklu leyti. Það var einfaldlega við of ramman reip að draga.

Sögulegur kosningaósigur Framsóknarflokksins þann 12. maí sl. var að mínu mati ekki ósigur Jóns Sigurðssonar, þetta var ósigur Halldórs Ásgrímssonar að mínu mati. Þetta var áberandi áfellisdómur yfir sundrungunni sem einkenndi lokasprett valdaferils Halldórs innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins. Það er einfalt mál. Hver svo sem framtíð Jóns verður er ég þess fullviss að honum séu allir vegir færir nú að loknu stjórnmálastarfi. Meginhluti ævi hans hefur verið á öðrum vettvangi og það fer gott orðspor af honum, enda maður sem hefur alltaf lagt sig allan fram og unnið vel.

Jón fórnaði sér fyrir flokkinn sinn, sem var aðdáunarvert góðverk af hans hálfu í þeirri vondu stöðu sem flokkurinn var í við afsögn Halldórs. Ég held að hans verði minnst sem heiðarlegs, trausts og vandaðs manns sem á örlagastundu spurði sig að því hvað hann gæti gert fyrir flokkinn sinn en verið fjarri því viss um hvað hann fengi í staðinn.

Slíkir menn hugsa ekki eigin hag heldur annarra og sýna af sér kraft og kjark í erfiðri stöðu. Ég held að Jóns verði fyrst og fremst minnst í stjórnmálum með þeim hætti.

mbl.is Jón Sigurðsson segir af sér formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Held að þú sért á nákvæmlega réttum stað í þínum útskýringum Stefán.

Gestur Guðjónsson, 23.5.2007 kl. 11:32

2 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Sæll Stefán! Sammála Gesti varðandi þessi skrif þín. Það verður eftirsjá af Jóni! Vandaður og heiðarlegur maður í alla staði. Tel að hver sá sem kemur til með að njóta krafta Jóns í framtíðinni verði ekki svikinn. Hefði reyndar viljað sjá hann lengur í hlutverki formanns Framsóknar þrátt fyrir að vera ekki á þingi.

Með kveðju.

Jóhann Rúnar Pálsson, 23.5.2007 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband